Frímann Haukur Ómarsson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2006 og BS-prófi í efnafræði frá HÍ 2009. Hann varði doktorsritgerð sína í efnafræði við HÍ 2.
Frímann Haukur Ómarsson lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2006 og BS-prófi í efnafræði frá HÍ 2009. Hann varði doktorsritgerð sína í efnafræði við HÍ 2. maí 2014 og starfar sem sérfræðingur í Þróunardeild mæliaðferða hjá Actavis. Frímann er giftur Tinnu Björk Gunnarsdóttur, hdl. Foreldrar hans eru Ómar Ragnarsson, læknir í Hveragerði, og Ágústa Frímannsdóttir hjúkrunarfræðingur, en hún er látin.

Frímann Haukur Ómarsson hefur varið doktorsritgerð sína í efnafræði við Háskóla Íslands.Verkefnið ber heitið Samhverfur, hvarfgangar og orkujafnvægi í rjúfandi rafeindarálagningu á halógeneraðar metan-, sílan- og germanafleiður

Víxlverkan lágorkurafeinda við sameindir gegnir mikilvægu hlutverki í ýmsum ferlum, bæði náttúrulegum og í iðnaði. Slík víxlverkan getur annaðhvort leitt til beins endurkasts á rafeindinni eða tímabundið til myndunar á neikvæðri jón. Þegar slík neikvæð jón myndast eykst innri orka sameindarinnar um þá orku sem samsvarar hreyfiorku rafeindarinnar og rafeindasækni sameindarinnar. Hún er því í örvuðu ástandi og þarf að slaka og losna við umframorku. Þessi slökun getur átt sér stað með því að rafeindin losnar aftur frá sameindinni eða með rofi efnatengja; ferli sem kallað er rjúfandi rafeindarálagning. Í rjúfandi rafeindarálagningu myndast neikvætt hlaðið sameindarbrot og eitt eða fleiri óhlaðin sameindarbrot.

Í ritgerðinni eru niðurstöður rannsókna á rjúfandi rafeindarálagningu á völdum halógeneruðum metan-, sílan- og germanafleiðum kynntar. Ritgerðinni má skipta í tvo hluta. Í fyrri hlutanum eru mælingar kynntar þar sem notast er við hraðasneiðmyndartækni. Efnin sem mæld voru með þeirri tækni eru CF4, CF3Cl og CF3I. Í öllum efnunum sáust ferlar sem ekki hafa sést áður með hefðbundnum mæliaðferðum. Í síðari hlutanum eru hefðbundari mælingar á rjúfandi rafeindarálagningu á XY4 (X = C, Si og Ge og Y = F og Br) kynntar. Rjúfandi rafeindarálagning á sum þessara efna hefur verið rannsökuð áður, en þær rannsóknir eru ekki jafn yfirgripsmiklar og þær sem kynntar eru í þessari ritgerð.