[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Fagralundi Skúli Unnar Sveinsson skuli@mbl.is Það þarf oddaleik til að skera úr um hvort það verður HK eða Afturelding sem hampar Íslandsbikarnum í Mizunodeild kvenna í blaki.

Í Fagralundi

Skúli Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Það þarf oddaleik til að skera úr um hvort það verður HK eða Afturelding sem hampar Íslandsbikarnum í Mizunodeild kvenna í blaki. HK lagði Aftureldingu 3:1 í fjórða leik liðanna í Fagralundi í gær og munu liðin mætast í hreinum úrslitaleik að Varmá annað kvöld. Miðað við hversu skemmtilegur leikurinn í gær var er vel þess virði að kíkja í Mosfellsbæinn annað kvöld.

Það leit satt best að segja ekkert allt of vel út hjá HK fyrir leikinn í gær því liðið tapaði þriðja leiknum fremur illa og einn sterkasti leikmaður liðsins úr þeim leik, Ingibjörg Gunnarsdóttir, var fjarri góðu gamni í leiknum í gær. En maður kemur í manns staða og það sönnuðu Kópavogsstelpurnar í gær. Þær mættu mjög samheldnar til leiks, börðust eins og enginn væri morgundagurinn og uppskáru samkvæmt því. „Hausinn var í lagi hjá okkur núna,“ sagði Einar Sigurðsson þjálfari HK eftir leikinn og það er svo sannarlega rétt hjá honum. Liðið mætti til leiks ákveðið í að gefa allt í hann og það gerðu stelpurnar. Baráttan var aðdáunarverð og það má kannski lýsa henni best með því að segja að boltinn fór aldrei í gólfið hjá þeim nema í það minnsta einn leikmaður reyndi að ná honum, og oftast fleiri.

HK tók frumkvæðið í fyrstu hrinu en Afturelding jafnaði um hana miðja og eftir það var allt jafnt alveg til loka en HK hafði 25:23 sigur.

Í næstu hrinu var það sama upp á teningnum, allt í járnum alveg frá upphafi, en Afturelding komst síðan í 6:10 og 11:15 en HK gafst ekki upp og með gríðarlegri baráttu og sigurvilja tókst liðinu að snúa hrinunni sér í hag og sigra 25:20. Afturelding sigraði síðan í þriðju hrinu 20:25 en í þeirri fjórðu voru heimakonur sterkari og sigruðu 25:18.

Í baráttuglöðu liði HK átti Steinunn Helga Björgólfsdóttir hreint frábæran leik í stöðu frelsingja. Hún dekkaði gríðarlega vel undir, móttakan var flott og hún var hreinlega út um allan völl að ná boltanum upp. Flottur leikur hjá henni.

Annars var vörn HK mjög góð, Elísabet Einarsdóttir og Laufey Björk Sigmundsdóttir voru flottar í hávörn og Natalia Ravva var traust, virtist alltaf sjá hvert best var að setja boltann. Uppspilið hjá Ventseslövu Marinovu var flott enda framspilið mjög gott að þessu sinni.

Afturelding getur gert betur og það sýndi liðið stöku sinnum í gær, en það sem háði liðinu í þessum leik var sóknin. Hún var ekki nægilega góð að þessu sinni. Fyrirliðinn Zaharina Filipova var sú eina sem átti nokkuð jafnan leik, Velina Apostolova átti flotta kafla og móðir hennar, Miglena, stóð sig ágætlega í uppspilinu þó svo henni hafi oft gengið betur að finna veikustu blettina á vörn mótherjanna.