Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Fimm hundruð stærstu fyrirtækin skulda minna en þau gerðu 1997."

Sporin hræða og sagan hefur áráttu til að endurtaka sig. Frá hruni hafa í rauninni efnahagsmál okkar Íslendinga verið á réttri leið á mælikvarða innlendra og erlendra eftirlitsaðila. Ennfremur telja erlendir efnahagsspekingar að okkur hafi vegnað betur og gengið betur að endurreisa landið en flestum öðrum. Lífskjörin eru að batna hægt og bítandi, kaupmáttur launa hefur hækkað um 4% á síðustu tólf mánuðum. Atvinnuleysið er að minnka jafnt og þétt og eftirspurn eftir fólki á vinnumarkaðinum vaxandi. Allar auðlindir landsins eru að gefa meira í arð en áður, sjórinn fullur af fiski, landbúnaðurinn með sterka stöðu bæði heima og erlendis. Orkuauðlindirnar með glæsta möguleika um nýja fjárfestingu. Landið fullt af ferðafólki og ferðaþjónustan aflar gjaldeyris mest allra atvinnugreina. Nú segir Seðlabankinn að skuldastaða heimilanna sé að batna og að ekkert land hafi náð jafn góðum árangri í að lækka þær og við. Í hverri einustu fjölskyldu eru einn eða fleiri sem fengu verulega skuldalækkun og þar með kjarabætur í gegnum aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Fimm hundruð stærstu fyrirtækin skulda minna en þau gerðu 1997. Í fyrsta sinn frá þjóðarsáttarsamningum er verðbólgan, mesti þjófur allra tíma, á núlli. Við blasir, ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar ganga eftir um að losa gjaldeyrishöft og taka stöðugleikaskatt af föllnu bönkunum, „hræ-gammasjóðunum“ svonefndu, að landið verður frjálst á ný. Þá vaknar þessi stóra spurning: erum við virkilega að fara inn í hörðustu verkfallsaðgerðir í áratugi og kröfugerð um hækkun launa sem aldrei kemst í veski launþegans? Nú reynir á okkar vitrustu menn, hvernig höggva þeir á hnútinn sem upp er kominn á vinnumarkaði?

Átökin miklu frá 1970 til ársins 1990

Hin vondu átakaár bæði í pólitík og á vinnumarkaði frá 1970 til 1990 þar sem pólitísk upplausn ríkti og mikil átök á vinnumarkaði með verkföllum og svimandi launahækkunum skiluðu launþegum litlu. Verðbólgan mældist samtals á þessum tíma 2000% en kaupmáttaraukning sama tímabils til launþega mældist 1%. Þessir áratugir voru um margt áratugir hinna glötuðu tækifæra og enn ríktu þá í kjaradeilum kaldastríðsandi og blóðug átök. Viljum við þetta ástand á ný með tapi allra og sennilega flótta fyrirtækja úr landi og stigvaxandi atvinnuleysi? Í forystusveitum samningsaðila vita flestir að betri er krókur en kelda og betri er sígandi lukka en kollsteypur eða höfrungahlaup. Bestu kjarasamningar sem menn muna voru þjóðarsáttarsamningarnir 1990, þríhliða kjarasamningar á milli verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisins. Er nokkur goðgá að hvetja forystumenn dagsins í dag til að horfa til og tileinka sér þann trúnað sem þá myndaðist milli manna og þau vinnubrögð og hugarfar sem kennt er við Einar Odd Kristjánsson, Ásmund Stefánsson, Guðmund J. Guðmundsson og Hauk Halldórsson. Hvernig væri að núverandi forystumenn, þeir Björgólfur Jóhannsson, Þorsteinn Víglundsson, Gylfi Arnbjörnsson, Björn Snæbjörnsson og Elín Björg Jónsdóttir, Ólafía Rafnsdóttir, Páll Halldórsson og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, gerðu eins og þeir gerðu fyrir 25 árum að drekka kaffi hvern morgun á Hótel Örk í Hveragerði og leggja línur að langtímasamningi og friði á vinnumarkaði. Síðan kæmu þessir aðilar með nýja lausn um frið og markvissar kjarabætur til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, sem yrðu að taka niðurstöðunni með sama hætti og Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra þá og Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra, gerðu forðum. Það þarf hugarfarsbreytingu í landinu, það verða grimm átök ef þeir betur settu ætla nú að keyra yfir þá verst settu á vinnumarkaði eins og er að gerast. Það er rétt hjá verkalýðsforingjunum Aðalsteini Baldurssyni og Vilhjálmi Birgissyni að lágmarkslaun upp á 200 þúsund krónur á mánuði eru ekki boðleg og hækkun þeirra er brýnasta verkefnið sem allir eiga að skilja. Ég er sannfærður um að ef okkar góðu forystumenn gengju í þetta verkefni færi í hönd tími þar sem kaupmáttur ykist verulega og allir landsmenn myndu hagnast.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.