Í Seyðisfirði Fjölskylda Ástu fer í gönguferðir á sumrin og þarna var farið út í Skálanes. Stefnt er á Skagafjörð í sumar.
Í Seyðisfirði Fjölskylda Ástu fer í gönguferðir á sumrin og þarna var farið út í Skálanes. Stefnt er á Skagafjörð í sumar.
Ásta Einarsdóttir á Dalvík var að gefa fuglunum þegar blaðamaður hafði samband við hana. „Það brestur á hérna með byljum, en kyrrt inni á milli og vorið er undir snjónum.

Ásta Einarsdóttir á Dalvík var að gefa fuglunum þegar blaðamaður hafði samband við hana. „Það brestur á hérna með byljum, en kyrrt inni á milli og vorið er undir snjónum. Það voru búnir að vera yndislegir dagar hérna og gróðurinn að taka við sér og því er dapurt að allt sé orðið hvítt og fuglarnir eru hnípnir af kulda.“

Ásta er frá Akureyri en hefur lengi búið á Dalvík og starfaði sem kennari þar, en byrjaði reyndar sem leikskólakennari. „Ég fór seint í Leikskólakennaraskólann og enn seinna í Kennaraskólann og lauk síðar sérkennaranámi en ég er á því allir ættu að fara í nám þegar þeir eru orðnir fullorðnir hafi það tök á því. Forsendurnar fyrir náminu eru allt aðrar en hjá þeim sem eru yngri.

Eftir að ég hætti að vinna hef ég allan heimsins tíma fyrir sjálfa mig og hef betri tíma til að vera með börnum og barnabörnum og það er hið besta mál. Ég er einnig að vinna fyrir félag aldraðra hérna á staðnum, mæti á fundi og skipti mér af. Það er þónokkur afþreyingarstarfsemi í þessum félagsskap, það er spilað, ég er í kór og hér er hópur kvenna sem hittist reglulega og prjónar. Við förum í ferðalag og gerum eitthvað til að eiga skemmtilegar stundir saman. Núna er ég að rækta sumarblómin mín og í sumar tekur útiveran við.

Eiginmaður Ástu er Sigmar Sævaldsson, rafvélavirki og rafvirki, og börn þeirra eru Hafdís, Hanna, Einar Jón, Anna Guðbjörg, Viðar Örn, Hafsteinn og Svanborg.

„Það eina sem ég hef ákveðið að gera á afmælisdaginn er að baka pönnukökur með kaffinu. Svo fæ ég börnin mín sem búa fyrir norðan og fjölskyldur þeirra í kaffi um næstu helgi ásamt dóttur minni sem býr á Seyðisfirði og hennar fólki. Seinna geri ég eitthvað skemmtilegt með þeim sem eru fyrir sunnan.“