Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson
Lára Halla Sigurðardóttir larahalla@mbl.is Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hafnar því alfarið að ferð hans til Kína í síðasta mánuði hafi eingöngu verið fyrir fyrirtækið Orku Energy.

Lára Halla Sigurðardóttir

larahalla@mbl.is

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hafnar því alfarið að ferð hans til Kína í síðasta mánuði hafi eingöngu verið fyrir fyrirtækið Orku Energy. Bendir hann á að hann hafi heimsótt háskóla og vísindastofnanir í þessari sömu ferð.

Illugi starfaði fyrir Orku Energy um hríð eftir að hann tók sér hlé frá þingstörfum í kringum bankahrunið. Í samtali við mbl.is kveðst hann vilja greina frá þessu í kjölfar umræðu um hagsmunatengsl hans við fyrirtækið.

Þá vill hann einnig greina frá sölu íbúðar þeirra hjóna á Ránargötu til Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orku Energy, þar sem hann vilji að öll tengsl séu uppi á borðum.

Illugi segir þau hjónin hafa keypt íbúðina rétt fyrir bankahrunið. Þau hafi orðið fyrir miklum fjárhagslegum skakkaföllum auk þess sem þau hafi þurft að taka á sig ábyrgðir vegna fyrirtækjarekstrar sem þau voru í ásamt tengdaföður Illuga. Þá hafi Illugi einnig orðið fyrir töluverðu tekjutapi á árinu 2010 til 2011.

„Valið hjá okkur var að selja íbúðina eða standa frammi fyrir gjaldþroti. Þetta er staða sem þúsundir íslenskra heimila þekkja,“ segir hann. Þegar íbúðin var seld, sem að sögn aðstoðarmanns Illuga var gert árið 2013, var ákveðið að setja hana í OG Capital ehf., félag sem Illugi hafði átt þegar hann var utan þings. Hjá Fyrirtækjaskrá er félagið nú skráð sem félag sem fer með viðskiptaráðgjöf og aðra rekstrarráðgjöf.

Því næst yfirtók kaupandinn, Haukur Harðarson, félagið fyrir 500 þúsund krónur. Samið var um að hjónin fengju að leigja íbúðina í tvö ár með möguleika á framlengingu en leiguverð skyldi taka mið af leiguverði á almennum markaði.