Bros Amazon er alþjóðlegt risafyrirtæki og með markaðsvirði í samræmi við það. Á myndinni er eitt af útibúum fyrirtækisins í Frakklandi.
Bros Amazon er alþjóðlegt risafyrirtæki og með markaðsvirði í samræmi við það. Á myndinni er eitt af útibúum fyrirtækisins í Frakklandi. — AFP
Eflaust hefur Jeff Bezos, stjórnandi og stofnandi Amazon, verið ánægður með tilveruna á föstudag.

Eflaust hefur Jeff Bezos, stjórnandi og stofnandi Amazon, verið ánægður með tilveruna á föstudag. Hlutabréf í netverslunarrisanum hækkuðu um ríflega 14% í viðskiptum dagsins og veldur hækkunin því að persónulegur auður Bezos jókst um nærri fimm milljarða dala, ríflega 658 milljarða króna.

Til samanburðar hljóðuðu fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2014 upp á 587 milljarða króna.

Hækkun föstudagsins stafaði af upplyftandi rekstrartölum á fyrsta ársfjórðungi. Um leið breyttu margir markaðsgreinendur spám sínum fyrir fyrirtækið. Verðið á hvern hlut hækkaði um 55,11 dali og endaði í 445,10 dölum.

Að sögn MarketWatch á Bezos 83,9 milljón hluti, eða um 18% eignarhlut, í fyrirtækinu sem hann setti á laggirnar árið 1994. Jókst virði þessara hlutabréfa um 4,63 milljarða dala á föstudag og eru þau núna 37,36 milljarða dala virði.

Amazon færðist upp um fimm sæti á lista yfir verðmætustu fyrirtækin í S&P 500 vísitölunni, fór úr nítjánda sæti upp í það fjórtánda.

Það sem af er árinu hafa hlutabréf Amazon hækkað um 43% og slegið við tæknirisum á borð við Google, sem hefur styrkst um 8,1%, Apple sem hefur hækkað um 18% og Microsoft sem hefur bætt við sig 3,1%. ai@mbl.is