Guðný Jónsdóttir fæddist í Neskaupstað 16. mars 1925. Hún lést 11. apríl 2015.

Guðný var dóttir hjónanna Jóns Sigfússonar, f. 1893, d. 1958, og Ingibjargar Ragnheiðar Einarsdóttur, f. 1887, d. 1952. Systkini Guðnýjar voru Ragna Ingibjörg, kennari, d. 1987, Sigfús, vélstjóri, d. 1982, og Snorri, smiður, d. 2003.

Guðný giftist 26.12. 1947 Erlingi Önundarsyni sjómanni, f. 1922, d. 1996. Synir þeirra eru Jón, f. 1947, d. 2014, og Önundur, f. 1953, giftur Steinunni Björgu Steinþórsdóttur, f. 1957, d. 2014. Dætur þeirra eru Vigdís, f. 1981, sambýlismaður hennar er Kristinn Pálsson, og Hulda Valdís, f. 1983, gift Eiríki Rúnari Elíassyni og börn þeirra eru Arnar Pálmi og Steinunn Una.

Guðný verður jarðsungin frá Norðfjarðarkirku í dag, 27. apríl 2015, kl. 14.

Horfin er á braut kynslóð ættingja á Norðfirði sem ég er stolt af að tengjast. Guðný ömmusystir mín var yngst fjögurra systkina. Snorri var elstur, þá kom amma mín, Ragna, og Sigfús næstyngstur. Þetta var gott fólk, glaðlynt, brosmilt og harðduglegt. Guðný og amma Ragna voru mjög nánar og fór ég með henni nokkur sumur á Norðfjörð þar sem við dvöldum fáeinar vikur í senn. Við gistum í Bár hjá Guðnýju og Erlingi. Sigfús bjó á efstu hæðinni og Snorri og Lína kona hans ofar í bænum. Í minningunni var alltaf sól og blíða. Í Bár voru ótal ranghalar og skuggar, lystigarðurinn var beint fyrir neðan húsið og svo mikil ásókn var í sundlaugina að hleypt var inn í hollum klukkutíma í senn. Stundum var sett upp tjald í garðinum og þegar Sigfús frændi kom með kassa af kók og prins handa okkur krökkunum var lífið fullkomið.

Ég naut góðs atlætis hjá Guðnýju. Hún var hlý og ákveðin og ekkert þýddi að kvarta og kveina. Guðný lét skoðanir sínar hispurslaust í ljós þegar henni sýndist svo. Þá ávarpaði hún mig gjarnan „gæska“. Það var hollt ungri stúlku að skynja lífsbaráttuna frá öðru sjónarhorni en hún átti að venjast. Guðný lét sér ávallt annt um mig og síðar sýndi hún dætrum mínum sama áhuga.

Ég þakka fyrir að hafa kynnst Guðnýju og votta Önundi og fjölskyldunni samúð mína.

Ragna Árnadóttir.

Húsið Bár á Norðfirði var einstaklega spennandi hús fyrir krakka að leika sér í. Jón afi okkar var framkvæmdaglaður maður og hafði bætt bæði undir það og yfir svo húsið bauð upp á ýmsa möguleika. Í þessu húsi fæddist Guðný frænka okkar og ól þar allan sinn aldur. Reyndar dvaldi hún í Reykjavík þegar hún passaði systurson sinn eitt sumar og hafði gaman af því að kynnast borginni. Þá vann hún eitt sumar í Hreðavatnsskála og einnig fór hún á húsmæðraskólann á Hallormsstað, sem við frændfólkið nutum góðs af, sérstaklega voru kjötbollurnar hennar í miklu uppáhaldi. Einnig hafði hún áhuga á íþróttum eins og Snorri bróðir hennar og varð handboltinn sú íþrótt sem hún stundaði.

Ung að árum kynntist hún Erlingi manni sínum og eignuðust þau synina Jón sem bjó hjá móður sinni og Önund bónda og bifvélavirkja í Skuggahlíð í Norðfjarðarsveit. Þau Guðný héldu heimili með foreldrum hennar þar sem heimilisrekstur ásamt búrekstri hvíldi á herðum Guðnýjar, sérstaklega síðustu árin sem móðir hennar lifði og alfarið eftir að hún dó. Þessu sinnti hún með þeim dugnaði sem henni var eiginlegur. Einnig var þar til heimilis Sigfús bróðir hennar sem reyndist henni góð hjálparhella og einnig voru þar aðrir í fæði í lengri eða skemmri tíma.

Guðný frænka var björt yfirlitum og vel á sig komin alla tíð og þakkaði hún það mjólkinni og lýsinu sem hún tók inn á hverjum degi. Hún var skapgóð og hláturmild en henni var þó ekki tamt að bera tilfinningar sínar á torg. Sambandið milli þeirra systra, Rögnu móður okkar og Guðnýjar var náið, og því lá leiðin oft austur á Norðfjörð. Það var alltaf gaman að koma til þeirra Guðnýjar og Erlings sem tóku á móti okkur af mikilli hlýju. Þau voru samtaka um það að eiga fallegt heimili og kom þá sér vel hvað Erlingur var laghentur maður. Þá var garðurinn Guðnýju hugleikinn, hún vildi hafa hann snyrtilegan og voru fíflarnir sérstakir óvinir hennar. Guðný lauk starfsævinni í fiskvinnslunni sem henni þótti mikil tilbreyting ekki síst vegna félagsskaparins en Guðný var mjög félagslynd. Þegar líða tók á ævina naut Guðný góðs atlætis hjá þeim Önundi, Steinunni og ömmustelpunum í Skuggahlíð. Steinunn kona Önundar reyndist Guðnýju sem besta dóttir og sá til að ávallt færi vel um hana.

Við kveðjum Guðnýju móðursystur okkar með söknuði, blessuð sé minning hennar.

Guðrún Ragnarsdóttir, Ragnar Ragnarsson.

Við viljum minnast góðs nágranna, Guðnýjar Jónsdóttur, en í samfélagi manna eru góðir nágrannar dýrmætir og það var hún og heimilisfólkið í Bár okkur frá fyrsta degi. Guðný átti sérstakan stað í hjarta okkar, en það vann hún með brosmildi, elskulegheitum og velvilja sem skein úr hverjum andlitsdrætti og í hverju orði. Við þökkum Guðnýju samfylgdina og vottum syni hennar Önundi, dætrum hans og fjölskyldum, okkar dýpstu samúð.

Ég veit ekki hvort þú hefur,

huga þinn við það fest.

Að fegursta gjöf sem þú gefur,

er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki,

augað sem glaðlega hlær.

Hlýja í handartaki,

hjartað sem örar slær.

Allt sem þú hugsar í hljóði,

heiminum breytir til.

Gef þú úr sálarsjóði,

sakleysi, fegurð og yl.

(Úlfur Ragnarsson)

Fyrir hönd foreldra og systkina,

Ólína

Freysteinsdóttir.