Í samtali við Morgunblaðið um helgina benti Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, á þann mikla kostnað sem bíleigendur lentu í vegna holutjóna.

Í samtali við Morgunblaðið um helgina benti Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, á þann mikla kostnað sem bíleigendur lentu í vegna holutjóna.

Orðið holutjón skaut illu heilli æ oftar upp kollinum eftir því sem leið á veturinn og hefur nú fest sig í sessi sem lýsing á því ófremdarástandi sem bíleigendur búa við. Þetta á einkum við um bíleigendur í Reykjavík, þar sem holurnar eru slíkar að hættu veldur bæði bílum og mönnum.

Özur bendir í fyrrgreindu samtali á að tjónið fyrir þann sem lendir illa ofan í holu geti skipt tugum og jafnvel hundruðum þúsunda króna og innkomum á verkstæði hafi snarfjölgað vegna slíkra tjóna.

Afar erfitt, allt að því útilokað, hefur reynst að sanna ábyrgð veghaldarans á tjóninu og þess vegna hefur þetta tjón lent á ökumönnunum sjálfum. Þessir erfiðleikar við sönnunarfærsluna stafa meðal annars, en ekki einvörðungu, af því að tjónið þarf ekki að koma fram við það að ekið er ofan í eina tiltekna holu. Þetta er iðulega uppsafnaður vandi. Eftir hundruð eða þúsundir holna gefur bíllinn sig einfaldlega og þarf á verkstæði.

Reykjavíkurborg hefur sýnt þessum vanda ökumanna takmarkaðan skilning og brugðist seint og illa við ástandinu. Nauðsynlegt er að þar verði breyting á og að Reykjavík, líkt og aðrir veghaldarar, bretti upp ermar í sumar, fari í umfangsmiklar endurbætur, og sinni svo eðlilegu viðhaldi hér eftir.