Breyting Anna Bergljót sagði skilið við fjármálaheiminn til að sinna áhuga sínum á leikhúslistinni en hún stofnaði leikhópinn Lottu fyrir að verða níu árum og segist aldrei hafa verið hamingjusamari.
Breyting Anna Bergljót sagði skilið við fjármálaheiminn til að sinna áhuga sínum á leikhúslistinni en hún stofnaði leikhópinn Lottu fyrir að verða níu árum og segist aldrei hafa verið hamingjusamari. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég man eiginlega best eftir því þegar mamma mín sagði við mig að hún væri svo afskaplega fegin að ég hefði tekið þessa ákvörðun. Hún hafði aldrei séð mig fyrir sér í þurru skrifstofustarfi en studdi mig auðvitað á sínum tíma þegar ég fékk „draumadjobbið“ í bankanum.

VIÐTAL

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Leikhópurinn Lotta hefur vakið verðskuldaða athygli á undanförnum árum og kallað fram bros og kæti hjá bæði börnum og fullorðnum, þar sem hópurinn hefur iðulega sýnt ævintýralegar uppsetningar sínar úti undir beru lofti. Anna Bergljót Thorarensen er einn forsprakka leikhópsins en hún kom úr heimi harðra viðskipta, áhættugreininga, verðbréfa og peninga enda viðskiptafræðingur að mennt með löggildingu verðbréfamiðlara. Árið 2007 tók hún þá ákvörðun að snúa baki við fjármálaheiminum og einbeita sér að stofnun og starfsemi leikhópsins Lottu. Ákvörðun sem mörgum gæti þótt erfið.

„Þetta var í sjálfu sér alls ekki erfitt skref,“ segir hún. „Ég var búin að vera í áhugaleikfélögum og taka námskeið í leiklist frá því ég var 13 ára gömul en ég hafði hins vegar enga reynslu af rekstri leikfélags. Þar kom kannski viðskiptafræðin að notum frekar en leiklistin. Haustið 2006 er ákvörðunin tekin. Við erum þrjú sem fáum þessa hugmynd um leikhóp sem ferðast um landið, sýnir utandyra og flytur fjölskyldusýningar í sínu „rétta umhverfi“. Það er, við leitumst við að setja upp sýningar sem eiga að gerast utandyra. Við söfnuðum síðan í kringum okkar því fólki sem okkur langaði helst að vinna með og útkoman varð níu manna hópur góðra vina sem allir voru tilbúinir að leggja mikið á sig til að láta þetta ganga upp. Í sumarbyrjun 2007 frumsýndum við svo fyrsta verkið,“ segir hún um byrjunina.

Fyrsta starfsárið gekk vonum framar, að sögn Önnu Beggu eins og hún er kölluð, sem gerði framhaldið auðveldara.

„Ég átti ekki von á viðtökunum sem við fengum og fyrsta starfsárið fór langt fram úr öllum væntingum okkar. Við vörum öll vön því að vinna við leikhús og komum öll úr einhverju áhugaleikfélagi en aldrei fyrr hafði verk sem við tókum þátt í fengið svona mikla aðsókn eða svona mikla athygli fjölmiðla. Okkur var vel tekið hvert sem við fórum og augljóst mál að þarna var markaður sem ekki var verið að sinna. Það var því ekki flókin ákvörðun að taka þegar ákveðið var að halda ótrauð áfram að ári.“

Sigrast á eigin hugarfari

Óvissan að sækja inn á nýjan vettvang hamlar mörgum sem þrá að prófa eitthvað nýtt. Hugarfarið er lykillinn, að sögn Önnu Beggu sem óttaðist fyrst og fremst eigin vonbrigði, ósigurinn að ná ekki fyrri markmiðum sínum að tróna á toppi bankageirans. Hún segist þó ekki lengur sjá þá ákvörðun sína að skipta um starfsvettvang sem ósigur heldur upphaf að nýjum sigrum í lífinu.

„Ég er ofboðslega lífsglöð og jákvæð manneskja og hef alltaf verið. Flesta daga vakna ég brosandi og hef gaman af nánast öllu sem ég tek mér fyrir hendur. En ég er líka mjög metnaðargjörn og vil „ná langt“ í því sem ég tek mér fyrir hendur. Það var því til að byrja með alveg skýrt í mínum huga að ég ætlaði að taka bankabransann með trompi. Ná miklum starfsframa innan fjármálageirans og koma mér virkilega vel fyrir. Leiklistin átti svo bara að fá að fylgja með, svona eins og hægt væri á hverjum tíma. Ég sá fyrir mér að halda áfram að starfa með áhugaleikfélögum eins lengi og ég gæti og vera svo bara dugleg að stunda leikhús og fylgjast með því sem aðrir voru að gera. En síðan kemst ég sem betur fer fljótlega að því að mér finnst bara ekki gaman í vinnunni og það uppgötva ég heilu ári áður en ég loksins hætti.

Mér fannst aldrei erfitt að segja skilið við launin, ég hafði aldrei áhyggjur af því að ég myndi ekki bjarga mér, enda ódýr í rekstri, leiðist að versla og kýs heldur lítinn íburð í flestu í kringum mig. Hins vegar átti ég erfitt með að viðurkenna ósigurinn. Að viðurkenna að ég yrði ekki best í að vinna í banka, að viðurkenna að ég yrði ekki efst í bankaslagnum. Það tók mig tíma að læra að sætta mig við þennan ósigur og það að hafa gefist upp. En núna lít ég alls ekki á þetta sömu augum. Mér finnst ég engu hafa tapað heldur allt unnið. Lífsgæði mín felast í því að mér líði vel og hafi gaman af því sem ég er að gera. Og það á svo sannarlega við í dag.“

Stuðningurinn frá mömmu

Anna Bergljót segist vera svo heppin að hafa gott fólk í kringum sig og móðir hennar styður hana heilshugar í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.

„Ég man ekki eftir öðru en að allir hafi staðið með mér og stutt þegar ég ákvað að skipta um starfsvettvang og hella mér út í leiklistina. Ég man eiginlega best eftir því þegar mamma mín sagði við mig að hún væri svo afskaplega fegin að ég hefði tekið þessa ákvörðun. Hún hafði aldrei séð mig fyrir sér í þurru skrifstofustarfi en studdi mig auðvitað á sínum tíma þegar ég fékk „draumadjobbið“ í bankanum. Hún hafði líka alveg rétt fyrir sér og fann ég það um leið og ég var hætt og farin að vinna að mínum eigin verkefnum og elta leikhúsdrauminn, að ég hafði tekið rétta ákvörðun. Það er bara miklu auðveldara að vakna þegar maður er að fara að gera eitthvað skemmtilegt.“

Anna sækir margt til móður sinnar, sem hún segir vera sína fyrirmynd, enda hafi hún kennt sér að láta hjartað ráða för.

„Mamma er frábær fyrirmynd og hefur kennt mér margt. Þegar við fjölskyldan vorum eitt kvöldið að velta því fyrir okkur hvað við myndum gera ef við myndum vinna 100 milljónir í lottóinu, vorum við öll sammála um að við myndum hætta að vinna, ferðast meira og svona hálfpartinn detta í neysluna. Þá var mamma alveg með það á hreinu að hún myndi ekki hætta að vinna þó að hún ætti nóg af peningum. „Mér finnst svo gaman í vinnunni minni,“ sagði hún. Þetta er því ágætis viðmið þegar kemur að því að mæla starfsánægju á hverjum tíma. Myndi ég vilja halda áfram þó ég þyrfti ekki á laununum að halda? Ef maður ætlar að eyða um fjórðungi ævi sinnar í vinnunni er þess vegna eins gott að hafa gaman af.“

Leikhópur og umboðsskrifstofa

Leikhópurinn Lotta er eingöngu sumarleikhús og Anna er ekki ein af þeim sem leggjast í híði yfir veturinn. Hún var því ekki lengi að finna sér verkefni sem hæfa hennar hæfileikum og áhuga.

„Lotta er fyrst og fremst sumarleikhópur og þegar ég hætti endanlega sem bankastarfsmaður í ágúst árið 2007 ákvað ég að gera eitthvað alveg nýtt og stofnaði, ásamt Andreu Ösp, vinkonu minni, leikhópinn og umboðsskrifstofuna Kraðak. Við tókum á leigu Skemmtihúsið við Laufásveg, settum upp leiksýningar, hófum starfsemi jólasveinaþjónustu (www.jolasveinar.is) og þjónuðum hlutverki umboðsmanna annarra leikara og sviðshópa. Kraðak er til enn þann dag í dag og hefur á þessum tæplega átta árum frá stofnun gegnt svipuðu hlutverki. Þau eru ófá verkin sem hafa verið sett upp undir merkjum Kraðaks en helstu tekjur félagsins koma þó úr jólasveinaþjónustunni og umboðssölunni. Í dag erum við farin að sjá um stórar árshátíðir og aðrar skemmtanir og búin að færa okkur frá fókusnum á leikhús og farin að umba fyrir hvers konar afþreyingu og skemmtiatriði.“

Nýtt líf á Akureyri

Anna Bergljót hefur þó ekki alveg sagt skilið við skrifstofuna því hún tók nýlega við starfi verkefnastjóra markaðsmála hjá Menningarfélagi Akureyrar, þar sem henni gefst tækifæri til að móta stefnu félagsins ásamt öðrum frá upphafi.

„Ég er svo heppin að vera hluti af teymi sem hefur það verkefni að móta starfsemi þessa nýja félags, Menningarfélags Akureyrar. Það er ótrúlega skemmtileg áskorun og gaman að fá að byrja alveg með autt blað. Ég fæ mikla fróun út úr vinnu minni með samstarfsfólki mínu hjá menningarfélaginu og á hverjum degi erum við að takast á við ný og spennandi verkefni. Það er því ekki hægt að láta sér leiðast mikið í þessu starfi. Þessa dagana erum við fyrst og fremst að vinna viðburðadagatal næsta árs. Núna þegar leikfélagið, sinfóníuhljómsveitin og menningarhúsið eru öll komin undir einn hatt eru það fjöldamargir og gríðarlega ólíkir viðburðir sem þarf að tvinna saman og setja upp í dagskrá sem stendur fyrir markmið félagsins.

Þetta er krefjandi og skemmtilegt verkefni sem er nú þegar langt komið og við hlökkum mikið til að kynna nýtt starfsár hjá Menningarfélagi Akureyrar.“

Úr 101 í vísitölufjölskyldu

Aðlögunin að fara úr miðbæ Reykjavíkur norður í land var auðveldari en margan hefði grunað og segir Anna lífið fyrir norðan vera gott.

„Hér fyrir norðan bý ég með kærastanum mínum, Gísla Ólafssyni, sem ég kynntist síðastliðið sumar og með honum á ég tvær stjúpdætur. Ég fór því frá því að vera einhleyp kona í 101 Reykjavík yfir í vísitölufjölskyldu í póstnúmerinu 600 á mjög stuttum tíma. Skemmst er frá því að segja að mér líkar það ákaflega vel. Ég var til að byrja með pínulítið smeyk við að breyta lífi mínu svona mikið í einu. Ný vinna, byrja að búa og taka að mér hlutverk stjúpmóður allt á einu bretti en eftir þessa fyrstu þrjá mánuði finnst mér eiginlega ekkert vera sjálfsagðara og við höfum rekist á mjög fáar hindranir í þessari aðlögun. Lífið er bara dásamlegt. En ég er auðvitað ekki ein í Lottu og Kraðak er einnig í góðum höndum frábærra starfsmanna svo ég get alls ekki tekið kredit fyrir alla þá starfsemi sem er í gangi.“

Anna segir jafnframt að Reykjavík sé ekki nema í tæplega 40 mínútna fjarlægð með flugi frá Akureyri og leiðin í miðbæ Reykjavíkur því ekki löng.

„Þar sem Lotta er sumarleikhópur hefur enn sem komið er ekki verið mikil skörun á vinnunni fyrir norðan og sunnan. Hins vegar breytist það núna eftir páska þegar við förum á fullt í æfingar og í sumar verður flakkið auðvitað enn meira. En þetta er ekki óyfirstíganlegt frekar en önnur verkefni og er ég búin að undirbúa þetta vel. Meðan flugsamgöngur eru góðar er lítið mál að fara milli landshluta og sinna þeim verkefnum sem þarf að sinna á hvorum stað fyrir sig. Komi eitthvað upp á öðrum hvorum staðnum getur maður alltaf hoppað upp í flugvél. Ég neita því hins vegar ekki að þetta verður vissulega erfitt. Næstu 3 mánuði er ég að fara að vinna 200 prósent vinnu ofan á öll ferðalögin en ég er skipulögð og með gott fólk í kringum mig svo þetta mun ganga upp eins og annað sem maður ætlar sér.“

Lífið er ævintýri

Anna Begga er að eðlisfari bjartsýn og lætur ekki hindranir í veginum stöðva það einstaka ferðalag sem hún hefur tekist á hendur. Nýja starfið, umboðsskrifstofan, leikhópurinn Lotta og fjölskyldan heldur henni upptekinni og kemur á óvart á hverjum degi. „Það kemur alltaf eitthvað upp á hjá okkur í Lottunni og þá skiptir mestu máli að leita lausna. Leikmyndir hafa reglulega fokið hjá okkur, nú síðast yfir nokkra leikarana í Gilsfirði síðasta sumar, fuglar hafa étið kökur Bangsamömmu í Elliðaárdalnum, Mjallhvít blánaði eitt sinn í stuttermakjólnum sínum þegar við sýndum í Bolungarvík við frostmark, búningar hafa gleymst á Hellu og það uppgötvaðist þegar sýning var byrjuð í Sólheimum, bíllinn hefur bilað og stöðvast áður en komið var á sýningarstað á Selfossi, larfar Öskubusku fóru eitt sinn í ruslatunnu í Vestmannaeyjum. Allt þetta og svo margt fleira hefur komið upp á hjá okkur en á endanum stendur upp úr fólkið sem kemur á sýningarnar okkar, krakkarnir sem við höfum hitt um allt land og segjast jafnvel hafa fylgst með okkur frá upphafi. Uppáhaldssagan mín er síðan frá Djúpavogi en þar sagði ein mamman okkur að krakkarnir í bænum væru jafn spenntir fyrir því að fá okkur í heimsókn og fyrir sjálfum jólunum. Það er ekki lítið gaman að eiga þátt í því að gleðja fólk á þennan hátt og það er sérstaklega mikilvægt á stöðum eins og Djúpavogi þar sem framboð á barnamenningu og afþreyingu fyriri börn er mun minna en til að mynda í borginni.“

Lífið er sannkallað ævintýri hjá Önnu Beggu, sem dreymir um að læra leikstjórn á næstu árum og ferðast enn meira en hún er þegar búin að gera. Hún segist vera búin að heimsækja 30 prósent landa í heiminum og eigi því nóg eftir.