Leiðsögumaður Kristín Sigurrós, blaðamaður á Feyki á Sauðárkróki, er leiðsögumaður í frístundum og með ýmislegt á prjónunum í þeim efnum.
Leiðsögumaður Kristín Sigurrós, blaðamaður á Feyki á Sauðárkróki, er leiðsögumaður í frístundum og með ýmislegt á prjónunum í þeim efnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Ég hef lengi haft áhuga á Guðrúnu frá Lundi, alveg síðan ég var átta ára gömul að hlusta með ömmu og afa á Dalalíf á spólum frá Blindrafélaginu.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Ég hef lengi haft áhuga á Guðrúnu frá Lundi, alveg síðan ég var átta ára gömul að hlusta með ömmu og afa á Dalalíf á spólum frá Blindrafélaginu. Amma kenndi mér að prjóna í leiðinni,“ segir Kristín Sigurrós Einarsdóttir, blaðamaður og leiðsögumaður á Sauðárkróki, sem í sumar stendur fyrir þremur dagsferðum um Skagafjörð á slóðir Guðrúnar frá Lundi. Ferðirnar nefnir hún einfaldlega Dalalíf.

Um er að ræða rútuferð með leiðsögn Kristínar, auk nestistíma og málsverða á leiðinni. Við stýrið á rútunni verður eiginmaður Kristínar þannig að verkefnið verður innan fjölskyldunnar.

Þó að Kristín sé aðeins búin að auglýsa ferðirnar á facebooksíðu, undir heitinu Gagnvegur, þá er ásóknin nú þegar orðin það mikil að hún segist líklega þurfa að fá stærri rútu eða fjölga ferðum. Hún hefur planað sunnudagana 21. júní, 26. júlí og 23. ágúst og er orðið vel bókað í þær ferðir.

Farið er frá Sauðárkróki klukkan níu að morgni og endað þar um kvöldið á Kaffi Krók með málsverði og upplestri. Farið verður á þá staði sem Guðrún bjó á og æviferill skáldkonunnar rakinn þannig að fyrst er farið á æskuslóðirnar í Fljótum, en Guðrún fæddist á bænum Lundi í Stíflu.

Kaffisopi við hæfi

Síðan liggur leiðin á Höfðaströnd, en þar bjó Guðrún í fimm ár. Hádegisverður snæddur á Hofsósi, komið við í Grafarósi og drukkið kaffi í Áskaffi í Glaumbæ. „Mér finnst það við hæfi því fátt kemur nú meira við sögu í bókum Guðrúnar en kaffi,“ segir Kristín, létt í bragði. Frá Glaumbæ verður ekið út á Skaga en Guðrún bjó þar um nokkurt skeið á bænum Ytra-Mallandi ásamt eiginmanni sínum, Jóni Þorfinnssyni. Sem fyrr segir endar ferðin á Sauðárkróki með kvöldverði og upplestri.

Vinsælt hjá saumaklúbbum

„Hugmyndin þróaðist einnig á leiðsöguferðum okkar Sigrúnar Fossberg um gamla bæinn á Sauðárkróki, en þar bjó Guðrún lengst,“ segir Kristín Sigurrós. Af pöntunum í ferðirnar má ráða að Guðrún frá Lundi nýtur mikilla vinsælda t.d. hjá lesklúbbum og saumaklúbbum. Kristín segir endurútgáfu á Afdalabarni auðvitað skýra þennan mikla áhuga að mestu leyti, en sú bók verður til sölu í ferðunum. Pantanir hafa borist henni víða að af landinu, allt frá suðvesturhorninu norður til Akureyrar. Kristín segist vera þakklát þeim fjölmörgu sem hafa stutt hana við verkefnið og hvatt til dáða, m.a. veitingahúsum og ferðaþjónustufyrirtækjum.