Eyþór Arnalds
Eyþór Arnalds
Eftir Eyþór Arnalds: "Kaupmáttur hefur vaxið hraustlega á síðustu tveimur árum. Á sama tíma hefur tekist að koma böndum á verðbólguna. Þennan árangur er vert að verja."

Kjaramál eru í brennidepli þessa dagana og hafa myndarlegar launahækkanir til ákveðinna hópa orðið freistandi fordæmi um prósentuhækkanir. Á sama tíma og krafist er mikillar hækkunar lágmarkslauna telja aðrir hópar að launabilið sé of lítið og vilja hækkun til sín á þeim grundvelli. Ekkert samræmi er því í kröfugerðinni og nær útilokað að ná sátt eins og staðan er. Þessi keðjuverkun var vel þekkt á árum áður og leiddi undantekningalaust til verðbólgu og jafnframt mikillar hækkunar á húsnæðislánum heimilanna. Þetta þekkja margir frá fyrri tíð.

Um hvað snýst kjarabarátta?

Kjarabarátta snýst um bætt kjör launafólks. Ekkert annað. Kjarabarátta á ekki að snúast um stefnu ríkisstjórnar og Alþingis nema það sem varðar kjaramál beint. Innihaldslausar launahækkanir skila engu nema verðhækkunum. Hækkun í prósentum eða krónum sem hverfa í verðbólgu fylgja ekki bætt launakjör heldur hærri skuldir í landi þar sem húsnæðislán eru verðtryggð. Grundvöllur bættra launakjara og meiri kaupmáttar verður að vera til, annars gagnast hækkunin jafn vel og innistæðulaus tékki.

Á réttri leið – en margt má bæta

Í ágætri greiningu McKinsey á atvinnuvegum Íslands kemur fram að á mörgum sviðum erum við með lakari framleiðni en nágrannalöndin. Þar á meðal í rekstri ríkisins. Engu að síður er það svo að útborguð laun á Íslandi eru í dag almennt hærri en t.d. í Danmörku og Finnlandi samkvæmt tölum frá Hagstofu ESB. Með öðrum orðum; laun fá til sín stærri skerf verðmætasköpunar hér en í sumum nágrannalöndunum og eru þau hærri í aðeins tveimur evruríkjum; Hollandi og Lúxemborg. Samkvæmt tölum íslensku Hagstofunnar hafa laun hækkað umfram verðlag og eru nú 41% hærri en 2009. Á sama tíma hefur verðbólgan hækkað um 28% eins og sjá má á skýringarmyndinni hér á síðunni. Á síðustu tveimur árum hafa laun hækkað hratt umfram verðlag og hefur kaupmáttur vaxið hraðar undanfarið en dæmi eru um í Evrópu. Skuldir heimilanna hafa lækkað verulega og verða íslensk heimili brátt með þeim minnst skuldsettu. Við viljum öll gera betur og hafa það betra en það er ljóst af mælaborði hagkerfisins að við erum á réttri og jákvæðri leið til betri kjara. Einmitt þá, þegar stöðugleiki hefur náðst á verðbólgusviðinu og kaupmáttur er að vaxa eðlilega, er farið í verkföll og óraunhæfar kröfur. Af hverju er það svo? Er ekki rétt að staldra við og reyna að byggja upp sameiginleg markmið um bætt afköst þjóðarbúsins? Af nógu er að taka þar. Með bættri framleiðni getum við aukið kaupmátt og minnkað vinnutíma án þess að verðbólgufjandinn verði aftur laus. Í stað launahækkana væri hægt að lækka skatta á launafólk og fyrirtæki þegar aðilar vinnumarkaðarins hafa náð skynsamlegri niðurstöðu. Á Íslandi eigum við að geta borgað betri laun með því að bæta verðmætasköpun í landinu. Það er sjálfbær leið. Og reyndar eina leiðin til bættra lífskjara og betri kaupmáttar.

Höfundur er framkvæmdastjóri.