Leikfélag Barið í brestina er sæluvikustykki Leikfélags Sauðárkróks í ár.
Leikfélag Barið í brestina er sæluvikustykki Leikfélags Sauðárkróks í ár. — Ljósmynd/Óli Arnar Brynjarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Björnsson bgbb@simnet.is Sæluvika Skagfirðinga, sem nú ber hið svipmikla heiti Lista- og menningarhátíð í Skagafirði, hófst formlega með setningarathöfn í Húsi frítímans í gær.

Björn Björnsson

bgbb@simnet.is

Sæluvika Skagfirðinga, sem nú ber hið svipmikla heiti Lista- og menningarhátíð í Skagafirði, hófst formlega með setningarathöfn í Húsi frítímans í gær. Að vísu var búið að kveikja aðeins upp, eins og stundum er sagt hér, þegar örlítið er farið að halda upp á viðkomandi hátíð áður en hún byrjar samkvæmt dagskrá, en formlega stendur Sæluvikan yfir frá 26. apríl til laugardagsins 2. maí.

Upphaflega var Sæluvikan, sem þá hét Sýslufundarvika, nánast eingöngu tengd Sauðárkróki, en saga þessarar gleðiviku nær allt að 150 árum til baka, en í tímans rás hafa æ fleiri komið að þessu skemmtanahaldi og samkomur eru nánast út um allan fjörð.

Söngskáldverk frumsýnt

Allt frá upphafi hafa leiksýningar og kórsöngur verið uppistaðan í Sæluviku og svo er enn, en til marks um fjölbreytnina má nefna að hestamenn verða með skagfirsku mótaröðina og ýmsar sýningar tengdar hestum, sund- og íþróttamót eru haldin, Kirkjukvöld verður í Sauðárkrókskirkju, þar sem ræðumaður kvöldsins er Guðný Káradóttir, Sauðárkróksbíó sýnir valdar myndir, úrslit í vísnakeppni verða kynnt, Skotfélagið Ósmann kynnir starfsemi sína og geta gestir fengið að reyna sig með byssur og boga undir leiðsögn vanra manna, svo og verða ýmsar listasýningar opnar. Skagfirski kammerkórinn verður með tónleika í Miðgarði og þar verður líka flutt Innansveitarkrónika og sitthvað af útsveitum, Leikfélag Sauðárkróks sýnir leikritið Barið í brestina eftir Guðmund Ólafsson í leikstjórn Þrastar Guðbjartssonar og í Höfðaborg verður frumsýnt verkið Það er að koma skip og er það söngskáldverk með léttu ívafi með tónlist eftir Geirmund Valtýsson. Höfundur verksins er Anna Þóra Jónsdóttir og stendur leikhópurinn Frjósamar freyjur og frískir menn að sýningunni.

Heimir og Fiskisæla

Sæluvikudansleikur verður í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki að kvöldi 1. maí en þar stígur á svið fjöldi landsþekktra tónlistarmanna.

Á laugardagskvöldinu verður svo karlakórinn Heimir að vanda með tónleika í Miðgarði og eftir tónleikana verður dansleikur sem vísast teygist eitthvað fram í morgunskímuna. Hljómsveit Sverris Bergmann leikur fyrir dansi.

Af framansögðu má sjá að sitthvað gleður augu og eyru þessa dagana, en heldur má ekki gleyma að veitingahúsin í bænum bjóða upp á glæsilegar veitingar, bæði í mat og drykk. Má þar nefna Ólafshús, Hard Wok café, Kaffi Krók, Bakaríið og Hótel Mælifell, að ógleymdri „Fiskisælu“ í félagsheimilinu Ljósheimum, en allur ágóði þessarar sælu rennur óskertur til góðgerðarmála.

Þannig ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi á Lista- og menningarhátíð í Skagafirði, enda ljóst að Skagfirðingar eru góðir heim að sækja og kunna að taka vel á móti gestum.