Steingerður Bjarney Ingólfsdóttir fæddist á Akureyri 4. júlí 1922 og þar ólst hún upp. Hún lést á Vífilsstöðum 15. apríl 2015. Hún var til heimilis í Árskógum 8, Reykjavík.

Foreldrar hennar voru Baldína Elín Sigurbjörnsdóttir, frá Fagrabæ í Grýtubakkahreppi, f. 20. september 1899, d. 22. maí 1992, og Ingólfur Kristjánsson, frá Þorsteinsstöðum í Grýtubakkahreppi, f. 5. maí 1880, d. 27. apríl 1934. Systkini Steingerðar eru: 1) Hulda Ingólfsdóttir, f. 21.5. 1924, d. 13.1. 2012, 2) Adam Örn Ingólfsson, f. 2.7. 1926, 3) Pálmi Ingólfsson, f. 19.8. 1928, d. 24.4. 2013, 4) Indíana Ingólfsdóttir, f. 5.12. 1931, d.16.1. 2008.

Steingerður giftist Baldvini M. Jónssyni vélstjóra, f. 22. september 1924, d. 22. október 1990, frá Pétursborg í Glæsibæjarhreppi. Foreldrar hans voru Jón Baldvinsson og Jóhanna Jónasdóttir. Börn Steingerðar eru 1) Ingólfur Þór Baldvinsson, f. 13.9. 1947, maki Svanhvít Hreinsdóttir, f. 4.11. 1955. Þeirra börn eru a) Sandra Dís, f. 8.6. 1988 og b) Hreinn Ólafur, f. 18.6. 1989. Ingólfur á soninn Arnar Þór, f. 28.5. 1971, móðir hans er Bryndís Kjartansdóttir. Arnar Þór er kvæntur Unni Sigurrúnu Kristleifsdóttur, f. 1967. Þeirra börn eru Margréta Lilja, f. 1995, Brynjar Þór, f. 2002 og Arna Rut, f. 2005. 2) Ásta Baldvinsdóttir, f. 15.7. 1950, maki Lars Magne Kalvenes, f. 8.11. 1951. Börn Ástu og Lars eru a) Baldvin, f. 14.9. 1984 og b) Kristí, f. 29.8. 1987. Lars á soninn Dan Kalvenes Ommundsen, f. 24.8. 1974. Hann er kvæntur Anja Ommundsen og eiga þau þrjú börn. 3) Anna Bára Baldvinsdóttir, f. 30.3. 1963, maki Hjörtur Hafliðason, f. 22.4. 1961. Þeirra synir eru a) Hafliði, f. 4.10. 1985 og b) Hlynur, f. 3.8. 1991.

Steingerður Bjarney sem var alltaf kölluð Badda, fluttist ung suður til að vinna í Álafossverksmiðjunni. Þar kynntust þau Baldvin og hófu búskap í Reykjavík. Badda var fyrst heimavinnandi húsmóðir, síðan vann hún í ýmsum verslunum. Lengst af vann hún hjá Mjólkursamsölunni. Síðustu starfsárin vann hún á dvalarheimilum fyrir aldraða, bæði á Dalbraut og Droplaugarstöðum.

Hún verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag, 27. apríl 2015 kl. 13.

Amma Badda var gífurlega góð kona. Hún var hógvær og hjartahlý, vinsæl og vinagóð. En umfram allt var hún rosalega góð amma. Þegar við systkinin lítum til baka og hugsum til tímanna okkar með ömmu eigum við margar góðar minningar af henni. Hún var alltaf til staðar og alltaf með eitthvað gott í pokahorninu. Það var nefnilega þannig að á miðju stofuborðinu hennar lá alltaf falleg glerskál full af allskonar góðgæti. Það kætti okkur systkinin alltaf að gægjast ofan í skálina og sjá hvaða góðgæti hún hefði að geyma (sem betur fer var Jónas frændi í beinu sambandi við Nóa Siríus og hélt henni uppi með reglulegum áfyllingum). Amma var nefnilega góður gestgjafi og lagði kapp á að gera vel við alla sína gesti. Hún smurði ofan í okkur sitt víðfræga smurbrauð með tómötum og eggjum og ekki þurftum við að hafa fyrir neinu. Öllu heldur var okkur nánast meinaður aðgangur að eldhúsinu því allt vildi hún nú gera fyrir okkur. Og allt gerði hún fyrir okkur: Ilmurinn af nýsteiktum kleinum tók venjulega á móti okkur strax á stigaganginum og oftar en ekki biðu okkar heilu stæðurnar af pönnukökum við pönnuna. En allt þetta sætabrauð og góðgæti bliknar þó í samanburði við víðfrægar hakkbollurnar hennar sem við systkinin höfum bæði reynt að herma eftir henni – en bregst þó alltaf bogalistin. Því enginn gerir þær eins vel og amma gerði þær.

Amma var mikill ferðalangur og þótti fátt skemmtilegra en að flakka um heiminn, sem hún gerði líka eins lengi og heilsan leyfði. En eins mikið og hún hafði gaman af því að skoða heiminn þá leitaði hugurinn alltaf heim á ný. Heim til fjölskyldu og ástvina. Kom hún þá undantekningarlaust pinklum hlaðin heim með spennandi gjafir fyrir alla fjölskylduna.

Amma kíkti reglulega í langar heimsóknir austur á Hvolsvöll þar sem við systkinin ólumst upp. Þá sat hún venjulega í eldhúsinu, en ef veður leyfði sat hún úti á palli og naut hverrar mínútu. Þar las hún blöðin og lagði kapal og spilaði jafnvel við okkur. Hún sagði hinar skemmtilegustu sögur og kætti okkur oft með sögum af bernskubrotum pabba og systra hans eða af uppvaxtarárum sínum sem virtust oft svo ótrúlega fjarlæg.

Amma eyddi venjulega hátíðunum til skiptis hjá okkur og fjölskyldunni í Bæjargilinu. Óneitanlega voru því önnur hver jólin hátíðlegri og mikilfenglegri. Það var ekki bara yndisleg nærvera ömmu sem lífgaði upp á hátíðarandann. Heldur voru það líka allir pakkarnir sem fylgdu henni. En eftir því sem við eltumst og pökkunum okkar fækkaði þá virtist sem pakkarnir hennar ömmu yrðu alltaf fleiri og fleiri, þar til pakkaflóðið komst vart undir jólatréð. Okkur skjátlaðist heldur ekki. Með hverju árinu sem leið heillaði amma fleiri og fleiri sálir, aflaði sér fleiri ástvina og aðdáenda. Með eintómum kærleika, væntumþykju og pönnukökum. Á sama tíma bölvaði hún í hvert skipti sem einhver dirfðist til að gefa henni eitthvað – því hún þurfti nú ekkert og vildi ekki neitt, umvafin fjölskyldu og ástvinum. Hún bað ekki um neitt en gaf allt sem hún átti. Þannig var amma.

Hvíldu í friði, elsku amma.

Minning þín mun að eilífu lifa í hjarta okkar.

Hreinn Ólafur Ingólfsson,

Sandra Dís Ingólfsdóttir.

Badda frænka var hin sanna hvunndagshetja þannig lifði hún og þannig dó hún, fús til fararinnar enda heilsan og sjónin horfin. Einmitt það sem hafði veitt henni stóran hluta af því góða í lífinu.

Hún var mikil uppáhaldsfrænka. Ég sá það ekki fyrr en ég var orðin fullorðin hversu einstök hún var.

Eins og flestir af hennar kynslóð byrjaði hún að vinna strax um fermingu fyrst hjá SÍS verksmiðjunum á Akureyri. Hún vann alla sína starfsævi láglaunastörf en samt átti hún alltaf „smá“pening auka og var oft að gefa gjafir, ekkert endilega af tilefni. Kannski átti hún lítið peningatré einhvers staðar.

Fljótlega kviknaði ferðabakterían í henni, sú baktería var sterk, hún flutti til Reykjavíkur og bjó þar alla tíð.

Hún kom mjög oft til Akureyrar og var tíður gestur hjá mömmu og pabba og var mikill aufúsugestur enda sérstaklega kát og fjörug og alltaf til í eitthvað skemmtilegt.

það var líka fastur punktur hjá þeim og okkur í suðurferðum að heimsækja hana og það var yndislegt. Hún hafði gaman af að fá gesti og bjó allt til svo gott og heimilislegt hvort sem var matur eða kaffibrauð. Pabbi talar oft um steikta fiskinn hennar, sá besti, segir hann. Mér fannst svo fallegt hvernig hún smurði brauð með ýmsu áleggi gjarnan eggi og síld og skar svo sneiðarnar í tennt og raðaði á disk.

Mér hefur oft fundist hún gæti hafa verið hefðarfrú í fyrra lífi því hún hafði næmt auga fyrir fallegum hlutum og var sérstaklega fínleg í sér. Hún var fagurkeri.

Hennar ríkidæmi fólst þó ekki í veraldlegum eigum heldur í hennar einstöku lund í lífsins ólgusjó og börnunum hennar. Eins og yngsta dóttirin sagði svo rétt á Facebook, „heimurinn væri betri ef allir væru eins og hún“.

Kannski var það hennar lán í óláni að Ásta flutti til Noregs og Ingi til Danmerkur það gaf henni aukin tækifæri á að flækjast eins og hún kallaði það enda fór hún oft til þeirra, Ingi kom heim sem var yndislegt fyrir hana en hún gat farið til Ástu á meðan heilsan leyfði. Ásta hefur svo komið mikið heim enda mikill Íslendingur þrátt fyrir áratuga búsetu í Noregi og þær átt yndislegt samband eins og öll börnin við hana já og allir, það kom af sjálfu sér.

Badda var mikill lestrarhestur og var það henni mikil raun þegar sjónin minnkaði fyrir nokkrum árum og hún varð að hætta að lesa, já og að flækjast. Hún kom samt austur til okkar fyrir þremur árum í afmæli sem haldið var úti í dásemdar blíðu og mikið sem hún naut sín og var glöð.

Þessi yndislega kona hefur svo verið að missa flugið síðustu árin þannig að ferðalokin hennar hér í jarðvistinni koma engum á óvart og hún kveður með mikilli reisn og umvafin þakklæti sinna nánustu fyrir öll árin og elskuna.

Ég og mín fjölskylda kveðjum hana með hjartans þakklæti fyrir góðar og glaðar stundir. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hún er nú á besta stað hvar svo sem hann er, ég kýs að kalla það Sumarlandið og þar eru þau Baldi nú saman aftur örugglega sæl og glöð.

Fjölskyldunni sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Sólveig Adamsdóttir.