Davíð Örn Sveinbjörnsson
Davíð Örn Sveinbjörnsson
Eftir Davíð Örn Sveinbjörnsson: "Hugverkaréttindi eru afar verðmæt en verðmæti þeirra veltur á þeirri vernd sem rétthafi getur tryggt hugverki sínu. Mikilvægt er að huga að slíku."

Hugverk og uppfinningar eru vandmeðfarin verðmæti, sem eiga það til að glatast þeim hugmyndasmiðum sem ekki þekkja þau verndarúrræði sem standa til boða, eða bregðast of seint við. Sumir kannast eflaust við söguna af kapphlaupi Alexanders Graham Bell og Elishas Grey í Bandaríkjunum árið 1876. Þeir voru keppinautar sem báðir lögðu inn einkaleyfisumsókn sama dag í Bandaríkjunum vegna uppfinningar sem við í dag þekkjum sem símann. Sagan segir að Bell hafi verið tveimur tímum á undan Grey að senda inn umsóknina og hafi því hlotið einkaleyfið sem kom honum í sögubækurnar og gerði honum og fyrirtæki hans kleift að hagnast allnokkuð á uppfinningu sinni, sem sannarlega hefur breytt samskiptum okkar fram á þennan dag. Þó að raunveruleg atvik ársins 1876 hafi verið eilítið öðruvísi og flóknari en framangreind frásögn, er sagan engu að síður góð áminning um mikilvægi þess að vernda hugverk og gera það í tíma.

Á sviði lögfræðinnar er sérstakt réttarsvið, hugverkaréttur, sem fjallar m.a. um vernd hugverka. Innan þessa sviðs falla m.a. hönnun, vörumerki, höfundarréttur og einkaleyfi. Mismunandi reglur gilda um hugverkin og vernd þeirra s.s. hvort skráning sé nauðsynleg, hver sé forsenda verndarinnar, um kostnað vegna verndar og möguleika á alþjóðlegri vernd. Heimur hugverkaréttinda þykir stundum flókinn, en verndin getur skilað miklum verðmætum fyrir rétthafa og skapað honum einstaka stöðu á markaði. Oft eru hugverkaréttindi jafnvel grundvallarforsenda fyrir því að viðskiptahugmynd verði að veruleika. Vernd hugvits og hugmynda býður jafnframt upp á fjölmarga hagnýtingarmöguleika s.s. leyfissamninga, sem geta skapað talsverðar tekjur fyrir rétthafa sem á löglegt tilkall til verndaðra hugverka.

Síðastliðinn sunnudag, 26. apríl, var hinn árlegi alþjóðlegi hugverkadagur. Er þá gjarnan vakin athygli á mikilvægi þess að vernda hugmyndir, uppfinningar og annað hugvit. Þessi dagur ætti einnig að vera regluleg áminning til þeirra, sem eiga verðmæt hugverk eða hafa byggt upp orðspor og vörumerki að huga vel að verndun þeirra og jafnvel mögulegri hagnýtingu. Góð hugmynd getur nefnilega verið gulls ígildi og jafnvel komið mönnum í sögubækurnar – ef hún er rétt vernduð.

Höfundur er lögmaður hjá ADVEL lögmönnum og stundakennari við Háskóla Íslands.