Jarðvarmi Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fyrir miðju, tók við umboði fyrir Heimsþing jarðvarmans árið 2020. Með henni eru fulltrúar samtakanna IGA og íslenska jarðvarmaklasans.
Jarðvarmi Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fyrir miðju, tók við umboði fyrir Heimsþing jarðvarmans árið 2020. Með henni eru fulltrúar samtakanna IGA og íslenska jarðvarmaklasans.
Heimsþing jarðvarmans, sem Alþjóðajarðhitasambandið stendur fyrir, fór fram í Melbourne í Ástralíu í síðustu viku.

Heimsþing jarðvarmans, sem Alþjóðajarðhitasambandið stendur fyrir, fór fram í Melbourne í Ástralíu í síðustu viku. Þar tók stjórn sambandsins (International Geothermal Association – IGA) þá ákvörðun að næsta heimsþing, árið 2020, yrði haldið á Íslandi.

Heimsþingið var fyrst haldið í Flórens á Ítalíu árið 1995 og fer fram á fimm ára fresti. Síðast, árið 2010, var það á Balí í Indónesíu.

Íslendingar hafa ávallt verið virkir þátttakendur á þessum ráðstefnum, enda er Ísland 6. stærsta framleiðsluland í jarðhita í heiminum. Á heimsþinginu í Ástralíu voru samankomnir um 1.600 sérfræðingar frá 85 þjóðum. Íslenskir þátttakendur voru 86 talsins, að stórum hluta vísindamenn, og margir þeirra héldu fyrirlestra um sín hugðarefni og rannsóknir.

Íslendingar höfðu þrisvar áður sótt um að halda heimsþing en án árangurs. Nú vildu sex þjóðir sjá um þinghaldið 2020 en 30 manna stjórn IGA ákvað einróma að Ísland yrði fyrir valinu. Íslenski jarðvarmaklasinn leiddi umsóknina.