Hamfarir Sérþjálfaðir björgunarhópar eru í viðbragðsstöðu og vera má að íslenskir hjálparstarfsmenn fari til Nepals.
Hamfarir Sérþjálfaðir björgunarhópar eru í viðbragðsstöðu og vera má að íslenskir hjálparstarfsmenn fari til Nepals. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Malín Brand malin@mbl.is Snemma að morgni laugardags, daginn sem skjálfti af stærðargráðunni 7,9 á Richter-kvarða reið yfir Nepal, fór íslenska alþjóðabjörgunarsveitin yfir á vöktunarstig vegna hamfaranna.

Malín Brand

malin@mbl.is

Snemma að morgni laugardags, daginn sem skjálfti af stærðargráðunni 7,9 á Richter-kvarða reið yfir Nepal, fór íslenska alþjóðabjörgunarsveitin yfir á vöktunarstig vegna hamfaranna. „Við vorum á vöktunarstigi fram til klukkan sjö um kvöldið. Farið var yfir stöðuna um hvort við ættum að fara eða ekki,“ segir Sólveig Þorvaldsdóttir, ein af stjórnendum íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar. „Endanleg niðurstaða var sú að við færum ekki í þetta útkall,“ segir hún en sveitin, sem samanstendur af sérþjálfuðu rústabjörgunarsveitarfólki, hefur unnið að björgunarstörfum á Haítí eftir að öflugir jarðskjálftar skóku landið árið 2010, auk þess að hafa áður unnið að björgunarstörfum í Tyrklandi, Alsír og Marokkó.

Í viðbragðsstöðu

Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri Neyðarvarnasviðs Rauða krossins, hefur ásamt samstarfsfólki unnið að áætlun vegna hamfaranna síðan að morgni laugardags. „Við höfum setið símafundi með alþjóðasambandi Rauða krossins og tekið þátt í þeirri skipulagningu allri,“ segir hann. Ekki leið á löngu þar til farið var að kalla á viðbótarhjálparliða að utan og sömuleiðis var sett saman sérstakt matsteymi. „Beðið hefur verið um færanlega spítala og heilsugæslustöðvar og við höfum verið í samræðum við kollega okkar um að mögulega gætu íslenskir hjálparstarfsmenn farið með en það er svosem ekki í hendi,“ segir Jón Brynjar.

Fregnir hafa borist af þeim Íslendingum sem staddir eru í Nepal og eru þeir óhultir. Samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldum Everestfaranna Ingólfs Ragnars Axelssonar og Vilborgar Örnu Gissurardóttur eru þau óhult en í gær var ljóst að átján fjallgöngumenn hefðu látist. Þegar jarðskjálftinn reið yfir voru þau Ingólfur og Vilborg stödd í fyrstu aðlögunarbúðum sem eru í rúmlega 6.000 metra hæð. Sjálfar grunnbúðirnar, þangað sem fólk fer nú, eru í um 5.400 metra hæð.

Sérfræðingar í hamförum

Sérhæfð rústa- og hamfarabjörgunarteymi eru kölluð til í meiriháttar hamförum. Má þar til dæmis nefna 250 manna teymi á vegum Sameinuðu þjóðanna og kallast það UNDAC. Það stendur fyrir United Nations Disaster Assessment and Coordination. Fjórir íslenskir sérfræðingar tilheyra teyminu sem sent er á hamfarasvæði í þeim tilgangi að samræma alþjóðlegt hjálparstarf og tryggja sem besta nýtingu teymisins við hlið heimamanna.

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin samanstendur af björgunarfólki sem hefur sérhæft sig í rústabjörgun, aðgerðastjórnun og hvers kyns skyndihjálp. Átta tonn af búnaði fylgja sveitinni sem alls getur starfað án aðstoðar í tíu daga.