[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Samningar hafa verið undiritaðir um lagningu sæstrengs til gagnaflutninga yfir N-Atlantshafið, frá Írlandi til Bandaríkjanna.

Sviðsljós

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Samningar hafa verið undiritaðir um lagningu sæstrengs til gagnaflutninga yfir N-Atlantshafið, frá Írlandi til Bandaríkjanna. Um er að ræða áform um sama streng og kenndur var við Emerald Express, þar sem ætlunin var að leggja tengingu til Íslands. Strengurinn ber nú heitið AEConnect en kostnaður við lagningu hans er um 300 milljónir dollara, eða um 40 milljarðar króna.

Nýir aðilar tóku við verkefninu og í tilkynningu um samkomulagið, sem gert er af írska fyrirtækinu Aqua Comms og bandaríska fyrirtækinu TE Subcom, er ekkert getið um Íslandstenginguna. Á strengnum er þó sagður tengibúnaður, eða svonefndir hnútpunktar, til mögulegrar notkunar síðar meir. Það gæti opnað dyr fyrir Íslendinga í framtíðinni ef einhverjir fást til að fjármagna legginn til Íslands. Kostnaður við slíkan legg er áætlaður 45-50 milljónir dollara, eða rúmir 6 milljarðar króna. Þetta er enginn smáspotti, eða um 1.250 km, sem yrði lengri strengur en Farice frá Íslandi til Skotlands.

Tilbúinn um áramót

Aqua Comms á og rekur sæstrenginn CeltixConnect, sem liggur frá Írlandi til London en AEConnect-strengurinn mun tengjast honum. Sá strengur mun liggja frá Killala á vesturströnd Írlands til Shirley á austurströnd Bandaríkjanna, skammt frá New York, alls 5.400 km langur. Eigendur strengsins ætla ekki að sitja auðum höndum. Ætla þeir að leggja strenginn í sumar og taka hann í notkun strax um næstu áramót. Í tilkynningu segir að strengurinn búi yfir nýjustu og fullkomnustu tækni til gagnaflutninga um sæstreng og hafi gríðarlega flutningsgetu fyrir upplýsingatæknifyrirtæki og þá sem þurfa að hýsa gögn í gagnaverum.

TE Subcom er dótturfélag TE Connectivity og sérhæfir sig í tæknilausnum til gagnaflutninga um sæstrengi. Í tilkynningu kemur fram að fyrirtækið hafi komið að lagningu strengja víðs vegar um heim, þar sem samanlögð lengd þeirra er 490 þúsund km. Væru strengirnir lagðir saman myndu þeir ná yfir 12 sinnum kringum miðbaug jarðarinnar.

Móðurfélagið, TE Connectivity, er skráð á markað í kauphöllinni í New York, með 14 milljarða dollara veltu, eða um 1.900 milljarða króna.

Reynt við Íslandslegginn

Bundnar voru vonir við að Emerald Express strengurinn, sem Emerald Networks stóð að, myndi auka verulega flutningsgetu frá Íslandi til Bandaríkjanna og bæta aðstöðu fyrir gagnaver hér. Eina leiðin til gagnaflutninga vestur hefur verið um Greenland Connect strenginn.

Tilraunir til að fá fjárfesta að Íslandsleggnum hafa ekki enn gengið eftir, og meðal þeirra sem unnið hafa hörðum höndum að því er Gísli Hjálmtýsson hjá Thule Investments. Hefur hann m.a. átt viðræður við íslenska lífeyrissjóði og aðra innlenda fjárfesta, sem og erlenda.

Þeir sem stóðu að Emerald Networks hafa gagnrýnt áhugaleysi íslenskra stjórnvalda og fjárfesta á verkefninu, líkt og fjallað var um í Morgunblaðinu 3. mars sl. Þar steig Júlíus Sólnes verkfræðiprófessor fram, en hann hafði liðsinnt einum stofnanda Emerald Networks, Sighvati Péturssyni í Houston í Bandaríkjunum. Hafði Sighvatur hugmyndir um streng frá Bandaríkjunum til Íslands og þaðan með streng Farice til Evrópu. Fyrir því reyndist ekki áhugi hjá íslenskum stjórnvöldum og Farice.

Missum við af lestinni?

Gísli Hjálmtýsson hjá Thule Investments segist enn vera bjartsýnn á að af verkefninu verði í framtíðinni, hvort sem tenging náist við AEConnect eða aðra strengi. Fagnar hann samningi Acuacomms og TE Subcom.

„Það er engin launung á því að það er mikill sigur að hafa náð að klára fjármögnun á strengnum yfir Atlantshafið. En þetta er aðeins fyrri helmingur verkefnisins því stóra spurningin er enn eftir: Ætla Íslendingar að vera með í þessu mikilvæga verkefni eða sitja hjá og missa af lestinni? Við fögnum fyrsta fasa verkefnisins en einbeitum okkur nú af fullum krafti að því að sjá hvort Ísland noti ekki tækifærið og tengist strengnum með öllum þeim möguleikum sem það býður landi og þjóð upp á,“ segir Gísli.