Ársæll Guðmundsson
Ársæll Guðmundsson
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Ársæll Guðmundsson, skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði, segir að öllum starfsmönnum skólans verði sagt upp í kjölfar ákvörðunar um sameiningu skólans við Tækniskólann.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði, segir að öllum starfsmönnum skólans verði sagt upp í kjölfar ákvörðunar um sameiningu skólans við Tækniskólann. „Við áttum fund með starfsmönnum skólans á föstudaginn og fórum yfir stöðu mála með þeim og þar sem Iðnskólinn gengur inn í Tækniskólann þá verður að segja upp kennurum og öðru starfsfólki Iðnskólans og ráða það til starfa hjá Tækniskólanum.“

Styrkir iðnám á Íslandi

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hve margir kennarar verða endurráðnir og segir Ársæll að sú vinna muni hefjast fljótlega. „Ég get voðalega lítið tjáð mig um starfsmannamál á þessu stigi málsins. Við erum núna að vinna að því að sameina skólana og tryggja að kennsla geti hafist í sameinuðum skóla strax næsta haust. Þetta er vandasamt verk og ég held að það þjóni engum tilgangi að ana áfram.“

Deilt hefur verið um sameiningu skólanna en starfsmenn Iðnskólans í Hafnafirði hafa sent frá sér ályktun þar sem þeir mótmæla sameiningunni. Henni fylgir hins vegar mikið hagræði en í Iðnskólanum í Hafnarfirði eru um 470 nemendur og 1.800 nemendur eru í Tækniskólanum. „Sameinaður skóli mun telja um 2.200 nemendur og bæði efla og styrkja iðnnám á Íslandi. Það verður hægt að nýta fjármagnið betur og ég vona að sameiningin verði til þess að fjölga nemendum í iðnámi en þeim hefur fækkað á undanförnum árum,“ segir Ársæll.

Jón B. Stefánsson, skólameistari Tækniskólans, tekur undir með Ársæli og segir sameininguna styrkja báða skóla.

„Nemendum hefur fækkað og greiðslur fyrir nemendaígildi einnig. Þetta er því eðlilegt skref til að spyrna fótum við þróuninni og styrkja iðnnámsgreinar,“ segir Jón.

Sameiningin tengist ekkert kjaraviðræðum kennara Tækniskólans, sem enn er ekki lokið. Jón segir þær vera á áætlun og málin muni skýrast betur á næsta fundi, sem fram fer á miðvikudaginn.