Á föstudaginn misritaðist vísa Hrings Jóhannessonar frá Haga – rétt er hún svona: Gjarna vildi eg konu kanna og klæða hana úr í Vaðlaheiðarvegamannaverkfærageymsluskúr.

Á föstudaginn misritaðist vísa Hrings Jóhannessonar frá Haga – rétt er hún svona:

Gjarna vildi eg konu kanna

og klæða hana úr

í Vaðlaheiðarvegamanna-

verkfærageymsluskúr.

Á fimmtudaginn skrifaði Ármann Þorgrímsson: „Nýjustu tilgátur um uppruna Íslendinga eru að þeir séu komnir af pöpum en mótrök að þeir hafi verið kvenmannslausir, en við höfum dæmi um meyfæðingu og því ekki alveg eins papafæðingu:

Mörgum frásögnum trúi eg tregt

trúlegust finnst mér saga um apa

en ekkert er guði ómögulegt

alveg gæti hann barnað papa.“

Höskuldur Búi greip hugmyndina á lofti:

Fjölmargir eru fræðingar

fjölkunnir mjög um sæðingar.

Glæstir þar völdust gæðingar

í guðlegar papafæðingar.

Veðrið er sígilt yrkisefni – Pétur Stefánsson skrifaði í Leirinn:

Vorsins blóm má víða sjá

vaxa á gróðurteigi.

Fallegt veður finnst mér á

fyrsta sumardegi.

„Það er sitthvað jón og sérajón,“ svaraði Björgvin R. Leifsson og bætti við:

Víst er kalt því vond er tíð,

vesöl fljóð og gumar.

Nú er úti norðanhríð,

nú er komið sumar.

Davíð Hjálmar Haraldsson er praktískur:

Við viljum geta þvegið okkar þvott

og þorni í hlýrri golu brók og sokkur,

við viljum öll að veðrið hér sé gott

en veðrinu er skítsama um okkur.

En á Boðnarmiði lá vel á Jóni Ingvari Jónssyni:

Lifnar við í lautu jurt,

líður öllum betur,

horfinn er á bak og burt

bloddí fokking vetur.

Kristján Runólfsson óskar mönnum gleðilegs sumars með þessari vísu:

Vaknar líf úr vetrardvala,

víða um grundir, mó og bala.

Fagurt syngur fugl á grein.

Fálkar verpa á bjargsins brúnum,

bændur fara að vinna á túnum.

Dagurinn er dásemd ein.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is