Vildu víti Ospina skall á Oscar í fyrri hálfleik. Michael Oliver dómari flautaði hins vegar ekki, ekki frekar en í öðrum atvikum í teigum liðanna.
Vildu víti Ospina skall á Oscar í fyrri hálfleik. Michael Oliver dómari flautaði hins vegar ekki, ekki frekar en í öðrum atvikum í teigum liðanna. — AFP
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Þrátt fyrir markaleysi á Emirates-vellinum er ekki hægt að segja að viðureign Arsenal og Chelsea hafi verið sérstaklega leiðinleg á að horfa. Bæði lið vildu fá vítaspyrnur en fengu ekki.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Þrátt fyrir markaleysi á Emirates-vellinum er ekki hægt að segja að viðureign Arsenal og Chelsea hafi verið sérstaklega leiðinleg á að horfa. Bæði lið vildu fá vítaspyrnur en fengu ekki. Chelsea vildi reyndar fá fjórar og Arsenal eina. Trúlega hefði Chelsea átt að fá eina og Arsenal sömuleiðis.

Oscar var í framlínu Chelsea í leiknum og bjuggust margir við að José Mourinho myndi spila varnarsinnað þegar þeir sáu uppstillingu liðsins. Hann fór niður í teig Arsenal og vildi fá víti en fékk ekki. Skömmu síðar lenti hann í hörðu samstuði við Ospina, markvörð Arsenal, og þar átti dómari leiksins að flauta víti. Ekki spurning. Skömmu síðar stakk Fabregas sér til sunds í teig Arsenal en uppskar gult spjald fyrir leikaraskap. Endursýningar sýndu að þar var snerting, reyndar mjög lítil.

Arsenal vildi sömuleiðis fá vítaspyrnu þegar skot Santis Cazorla fór beint í útrétta hönd Garys Cahills. Dómarinn var ekki vel staðsettur en flestir dómarar hefðu flautað víti í þessum aðstæðum.

Chelseamenn fögnuðu ógurlega í leikslok enda er leikjaprógramm þeirra frekar létt það sem eftir er. Aðeins Liverpool myndi teljast til erfiðra leikja. Annars er það Leicester, Crystal Palace, WBA og Sunderland. Liðið er með tíu stiga forskot á Man. City og einn leik til góða.

Titillinn er svo gott sem kominn í hús. Tveir sigrar í viðbót og titillinn er þeirra.

Arsenal hafði fyrir leikinn unnið átta leiki í röð og var aðeins annað liðið til að stöðva sóknarlínu Chelsea. Liðið er í þriðja sæti með jafnmörg stig og Man. City en á leik til góða. Hver segir svo að Arsene Wenger sé búinn á því!

Forríkir teknir í bakaríið

Everton heldur áfram góðu gengi sínu á árinu og hefur ekki tapað á heimavelli á árinu og unnið fimm af síðustu sex leikjum. Liðið tók hið rándýra lið Manchester United í kennslustund í knattspyrnufræðum. Unnu 3:0 og voru hinir forríku leikmenn Manchester ákaflega bitlausir sóknarlega þrátt fyrir að geta stillt upp ótrúlegum sóknardúett.

James McCarthy, John Stones og Kevin Mirallas skoruðu mörkin, sem voru heldur ódýr.

Mark McCarthys kom eftir skyndisókn, Stones skoraði með skalla eftir hornspyrnu og mark Miralla gæti flokkast sem furðumark.

Van Gaal hefur væntanlega mætt snemma í dag til vinnu enda margt sem þarf að laga hjá liðinu.