[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í VÍKINNI Ívar Benediktsson iben@mbl.is Fjölnismenn eru svo sannarlega á lífi í rimmu sinni við Víkinga um keppnisrétt í úrvalsdeild karla, Olís-deildinni, á næstu leiktíð.

Í VÍKINNI

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Fjölnismenn eru svo sannarlega á lífi í rimmu sinni við Víkinga um keppnisrétt í úrvalsdeild karla, Olís-deildinni, á næstu leiktíð. Eftir naumt tap og ósanngjarnt í öðrum leiknum á heimavelli þá bugðust leikmenn Fjölnis ekki. Þeir mættu baráttuglaðir og fullir sjálfstrausts í Víkina á laugardaginn og unnu sanngjarnan sigur, 21:19, eftir að hafa verið 10:8 yfir í hálfleik.

Víking vantar þar með áfram einn vinning til þess að tryggja sér sæti í deild þeirra bestu á næstu leiktíð. Fjölnismenn eru hinsvegar komnir með einn vinning og til alls líklegir á heimavelli annað kvöld.

Sterk vörn og ágæt markvarsla Ingvars Kristins Guðmundssonar, einkum í opnum færum, lagði grunn að sigri Fjölnis, þeim fyrsta gegn Víkingi á þessari leiktíð, hið minnsta.

Annars var leikurinn á tíðum nokkuð stórkallalegur, ekki síst í fyrri hálfleik, og gæðin harla lítil.

Víkingar voru sterkari framan af leik og eftir rúmar 20 mínútur voru þeir með tveggja marka forskot í fyrsta sinn, 7:5. Þá skoruðu Fjölnismenn fjögur mörk í röð án þess að Víkingar svöruðu. Forskotið sem Fjölnismenn náðu þá létu þeir ekki af hendi það sem eftir var leiksins. Fjölnir náði fimm marka forskoti í síðari hálfleik, 18:13. Víkingar sóttu að þeim undir lokin en náðu ekki að jafna metin þrátt fyrir að hafa fengið tækifæri til þess. Ingvar, markvörður Fjölnis, varði frá Arnari Theodórssyni í opnu færi þegar 45 sekúndur voru eftir í stöðunni 20:19. Fjölnir átti síðustu sóknina og fékk vítakast þegar 17 sekúndur voru eftir. Þá var brotið á Kristjáni Erni Kristjánssyni þegar hann braust í gegn og skoraði. Sigurður Guðjónsson tók vítakastið, Magnús G. Erlendsson markvörður Víkings varði en Sigurður náði frákastinu og brást þá ekki bogalistin gegn Magnúsi og innsiglaði sigurinn sem Fjölnismenn fögnuðu vel með stórum hópi öflugra stuðningsmanna sinna sem mættir voru í Víkina.

Sigurinn var sætur

„Úr því að ég náði frákastinu og skoraði þá var allt í lagi. Hugsunin var bara að ná frákastinu og skora. Það var frábært að skora og sigurinn var sætur, frábær sigur,“ sagði Sigurður í samtali í leikslok og bætti við. „Við ætlum að vinna á þriðjudaginn og fá oddaleik.“

Víkingur – Fjölnir19:21

Víkin, 1. deild karla, umspil þriðji leikur laugardaginn 25. apríl 2015.

Gangur leiksins : 1:0, 3:2, 7:5, 7:9, 8:10 , 9:10, 11:11, 11:15, 13:18, 16:18, 16:19, 18:20, 19:20, 19:21 .

Mörk Víkings : Einar Gauti Ólafsson 4, Sigurður Eggertsson 4, Hlynur Óttarsson 3, Jón Hjálmarsson 3, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 3, Arnar Freyr Theodórsson 1, Ægir Hrafn Jónsson 1.

Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 8, Magnús Gunnar Erlendsson 8/1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Fjölnis : Kristján Örn Kristjánsson 6, Bjarki Lárusson 4, Arnar Ingi Guðmundson 3, Sveinn Þorgeirsson 3, Breki Dagsson 2, Björgvin Páll Rúnarsson 2, Sigurður Guðjónsson 1.

Varin skot : Ingvar Kristinn Guðmundsson 11.

Utan vallar : 8 mínútur.

Dómarar : Anton Gylfi Pálsson og Þorleifur Árni Björnsson.

Áhorfendur : Á að giska 700.

*Staðan er 2:1 fyrir Víking.