Eyðilegging Gífurlegt tjón hefur orðið af völdum jarðskjálftans en auk manntjóns varð gríðarlegt eignatjón í skjálftanum á laugardag.
Eyðilegging Gífurlegt tjón hefur orðið af völdum jarðskjálftans en auk manntjóns varð gríðarlegt eignatjón í skjálftanum á laugardag. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Tala látinna í Nepal hækkar stöðugt eftir að öflugur jarðskjálfti upp á 7,9 á Richter skók landið rétt upp úr hádegi á laugardag en talið er að 2500 manns séu nú látnir.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Tala látinna í Nepal hækkar stöðugt eftir að öflugur jarðskjálfti upp á 7,9 á Richter skók landið rétt upp úr hádegi á laugardag en talið er að 2500 manns séu nú látnir. Nokkrir eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið og sá stærsti mældist 6,7 á Richter.

Björgunarmenn víða að úr heiminum streyma nú til Nepals en neyðin er mikil. Vegir hafa skemmst eða eru ófærir vegna skriðufalla, byggingar hrunið eða óíbúðarhæfar vegna skemmda og rafmagnslaust á stórum svæðum. Þá liggur símasamband víða niðri og fjöldi fólks hefur safnast saman á opnum svæðum, er það hyggst gista, af ótta við eftirskjálfta.

Flugvélum snúið við

Alþjóðaflugvöllurinn í Nepal lokaðist um tíma í gær vegna eftirskjálfta og þurfti að beina öllu flugi frá. Birendra Prasad Shrestha, framkvæmdastjóri Tribhuvan alþjóðaflugvallarins, sagði í samtali við AFP-fréttaveituna að búið væri að opna flugbrautina eftir að henni var lokað í klukkustund. „Flugvöllurinn er nú opinn. Við urðum að loka flugbrautinni í klukkustund vegna eftirskjálftans en nú er búið að opna á nýjan leik,“ sagði Shrestha við AFP.

Lokunin er lýsandi fyrir ástandið í Nepal en íbúar í Katmandú, höfuðborg Nepals, hafa lítið getað sofið vegna eftirskjálfta. „Jörðin skalf í alla nótt og við gátum ekkert sofið. Við biðjum þess bara að þessu ljúki svo við getum snúið aftur heim,“ sagði Nina Shrestha, 34 ára bankastarfsmaður í Nepal.

Höfuðáverkar og beinbrot

Sjúkrahús í landinu eru yfirfull en hátt í 5000 manns liggja slasaðir eftir jarðskjálftana. „Við höfum hlúð að mörgum frá því í gær, aðallega börnum. Flestir sjúklinganna eru með höfuðáverka eða brotin bein,“ segir Samir Acharya, læknir á sjúkrahúsi í Nepal. UNICEF hefur hafið neyðaraðgerðir vegna ástandsins og er unnið með stjórnvöldum í Nepal og víðar að því að koma hjálpargögnum og björgunarmönnum til landsins.

Þá eru að minnsta kosti tíu látnir í snjóflóðum við Everest en þar er fjöldi göngumanna að reyna að komast á tind fjallsins fræga. Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Ragnar Axelsson, eru við Everestfjall sem stendur og eru þau bæði óhult.

Stór skjálfti á 75 ára fresti

Jarðskjálftar í Nepal eru ekki nýlunda. Í umfjöllun Wall Street Journal er bent á að á um það bil 75 ára fresti komi stór jarðskjálfti í kringum 8 á Richter og styðst blaðið við söguleg gögn allt aftur til 1255. Síðasti stóri jarðskjálfti sem skók landið varð fyrir 81 ári eða 1934 og helst því skjálftinn um helgina í hendur við takt fyrri skjálfta að sögn Nepal's National Society for Earthquake Technology.

Uppruni skjálftans, sem nú gekk yfir, er sagður vera um 15 km undir yfirborði jarðar og að krafturinn jafnist á við 20 kjarnorkusprengjur.