[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að Varmá Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.is Handboltaleikur Aftureldingar og ÍR í gær sýndi hversu mögnuð þessi íþrótt getur orðið.

Að Varmá

Pétur Hreinsson

peturhreins@mbl.is

Handboltaleikur Aftureldingar og ÍR í gær sýndi hversu mögnuð þessi íþrótt getur orðið. Spennan var rafmögnuð og stemningin ótrúleg í Mosfellsbæ þegar heimamenn höfðu betur gegn ÍR-ingum í framlengdum oddaleik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra um Íslandsmeistaratitilinn. Lokatölur urðu 30:29 en staðan eftir venjulegan leiktíma var 25:25. Liðið mætir Haukum í úrslitaeinvíginu.

ÍR spilaði vel í leiknum, sér í lagi í síðari hálfleik þar sem vörn þeirra var frábær og þvingaði Mosfellinga endurtekið í erfið skot sem Svavar Ólafsson í markinu hjá þeim átti ekki í neinum vandræðum með að verja. Liðið var fjórum mörkum yfir þegar minna en fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Allir sérfræðingar landsins voru búnir að afskrifa heimamenn. En þeim tókst á einhvern óskiljanlegan hátt að jafna metin með marki hetjunnar og heimamannsins Árna Braga Eyjólfssonar þegar örfáar sekúndur voru eftir. Svo trylltist auðvitað allt.

„Ég viðurkenni það, þetta er allt „blörrað“ núna. Það sem ég man var að Össi (Örn Ingi) henti honum fram, ég leit á klukkuna, fimm sekúndur eftir, og ákvað að taka sénsinn. Bjarni (Fritzson) kom í hliðina á mér og ég sé varla markið, henti boltanum bara og vonaði það besta. Svo endaði boltinn á einhvern ótrúlegan hátt í netinu,“ sagði Árni sjálfur um magnað jöfnunarmark sitt. Árni sefur vært næstu daga, það er nokkuð ljóst. Það er ekki hægt að segja um ÍR-inga sem voru svo grátlega nálægt því að komast áfram og eiga vafalaust eftir að hugsa um þennan leik næstu mánuðina.. Þeir höfðu unninn leik í hendi sér.

„Bar við minnisleysi“

Afturelding var sterkari aðilinn í leiknum til að byrja með og í fyrri hálfleik komst liðið tvisvar í þriggja marka forskot, 10:7 og 11:8. Í síðari hálfleik snerust hlutverk liðanna við, ÍR-vörnin skellti í lás og Breiðhyltingar voru iðulega yfir með tveimur til þremur mörkum. Þegar Björgvin Hólmgeirsson skoraði 24. mark ÍR-inga varð munurinn á liðunum í fyrsta skipti fjögur mörk, 20:24.

Pétur Júníusson neitaði hins vegar að gefast upp og minnkaði strax muninn. Pétur var frábær í liði Mosfellinga, skoraði níu mörk og sýndi það og sannaði hvers vegna hann var valinn í landsliðið á dögunum.

Örn Ingi Bjarkason, fyrirliði Mosfellinga, fór fyrir Mosfellingum í leiknum. Þegar sóknarleikur Mosfellinga gekk sem verst var það einstaklingsframtak frá honum sem hélt heimamönnum inni í leiknum.

Hjá ÍR spilaði Sturla Ásgeirsson nánast fullkominn leik. Hann afgreiddi vel þau færi sem hann fékk og skoraði úr öllum sjö vítum sínum. Auk hans fór að vanda mikið fyrir Arnari Birki Hálfdánssyni en Björgvin Hólmgeirsson, besti leikmaður ÍR-inga, náði sér ekki almennilega á strik, miðað við hans mælikvarða, og skoraði „aðeins“ þrjú mörk.

Undirritaður hefur ekki tölu á þeim lýsingarorðum sem voru notuð í gær, hvorki jákvæðum né neikvæðum. „Þetta er glatað,“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR-inga, eftir leik en Örn Ingi bar við minnisleysi.

Afturelding – ÍR30:29

Varmá, úrvalsdeild karla, Olís-deildin, undanúrslit, fjórði leikur, sunnudaginn 26. apríl2015.

Gangur leiksins : 1:1, 4:3, 6:5, 10:7, 11:9, 12:12 , 13:15, 16:17, 17:19, 20:21, 20:23, 25:25 , 26:26, 28:27, 30:29 .

Mörk Aftureldingar: Pétur Júníusson 9, Örn Ingi Bjarkason 9/1, Árni Bragi Eyjólfsson 4, Gunnar Malmquist 3/2, Birkir Benediktsson 2, Ágúst Birgisson 1, Elvar Ásgeirsson 1, Jóhann Jóhannsson 1.

Varin skot: Davíð Svansson 16.

Utan vallar: 6 mínútur

Mörk ÍR: Sturla Ásgeirsson 9/7, Jón Heiðar Gunnarsson 6, Arnar Birkir Hálfdánsson 5, Bjarni Fritzson 4, Björgvin Hólmgeirsson 3, Davíð Georgsson 2.

Varin skot: Svavar Ólafsson 13, Arnór Freyr Stefánsson 9/1, Björgvin Hólmgeirsson 1.

Utan vallar: 6 mínútur

Dómarar: Magnús Kári Jónsson og Ómar Ingi Sverrisson.

Áhorfendur : 1.000.

*Afturelding vann einvígið, 3:2.