Formúluþórinn Lewis Hamilton eyðir drjúgum tíma um þessar mundir við kaup á fínustu sportbílum. Þó ekki af gerðinni Mercedes-Benz þótt hann keppi fyrir Mercedes í Formúlu-1.
Í marsmánuði keypti Hamilton sér eintak af ofurbílnum LaFerrari og til hans sást svo fyrir helgi á splunkunýjum eðalbílnum og kraftatröllinu McLaren P1 í Mónakó, en þar býr hann. Bílinn bláleita fékk Hamilton afhentan í byrjun síðustu viku.
Þessi tvenn bílakaup þykja staðfesta að Hamilton er smekkmaður þegar kemur að bílum af ofurgerðum. Auk Ferrarifáksins og McLarenbílsins á hann einnig sérsmíðaðan Pagani Zonda 760LH.
Sá öflugasti frá McLaren
McLaren P1 bíllinn er tvennra dyra og er vélin miðlæg aftan við farþegaklefann. Drif er á afturhjólum en vélin er 903 hestafla og með 978 Nm snúningsvægi. Er hér um að ræða fyrsta ofurbílinn með tvinnaflrás. Vélin er 3,8 lítra V8 og fær hún stuðning af rafmagnsmótor. Bíllinn er og sá öflugasti sem McLaren sportbílasmiðjan framleiðir um þessar mundir. Einungis 375 eintök verða smíðuð af P1-bílnum.Úr kyrrstöðu í 100 km/klst ferð kemst McLaren P1 á 2,8 sekúndum. Hámarkshraði hans er takmarkaður með rafeindastýringum við 350 km/klst.
agas@mbl.is
Ágúst Ásgeirsson