Er þetta boðlegt? Ísland er í hópi tuttugu fremstu landa heims í knattspyrnu kvenna, hefur komist í lokakeppni tveggja síðustu Evrópumóta og er í dauðafæri til að komast á það þriðja.
Er þetta boðlegt? Ísland er í hópi tuttugu fremstu landa heims í knattspyrnu kvenna, hefur komist í lokakeppni tveggja síðustu Evrópumóta og er í dauðafæri til að komast á það þriðja. Á sama tíma fá leikmenn í næstefstu deild kvenna heila tíu leiki á sínu Íslandsmóti – á árinu 2015.

Já, lesandi góður , tíu er rétt tala. Ég rak augun í það á dögunum að í A-riðli 1. deildar kvenna í sumar verða sex lið sem spila tvöfalda umferð. Þau fá tíu leiki á þriggja mánaða Íslandsmóti. Liðin sem komast áfram í úrslitakeppnina, tvö eða þrjú, fá síðan viðbót, eftir því hve langt þau ná. Gætu farið í fimmtán leiki með því að komast í úrslitaleikina um efstu fjögur sætin.

Liðin í B- og C-riðlum eru aðeins betur sett og fá tólf leiki hvert. En hvort heldur sem er, þá er þetta ákaflega metnaðarlaus tilhögun hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Þarna hefði í það minnsta verið hægt að koma á þrefaldri umferð í A-riðlinum.

Í 1. deildinni spila margar stúlkur sem eiga eftir að gera það gott í efstu deild og jafnvel með landsliðum Íslands á næstu árum. Þetta er því hálfgerð lítilsvirðing við þær, við félögin, og við alla uppbyggingu í knattspyrnu kvenna hérlendis, sem til þessa hefur þótt að mjög mörgu leyti til fyrirmyndar.

Til viðbótar við þennan takmarkaða leikjafjölda er getumunur á betri og lakari liðum 1. deildar ansi mikill. Það er orðið tímabært að skipta henni upp í 1. og 2. deild. Ekki síst núna þegar liðum hefur fjölgað og þau eru orðin tuttugu utan efstu deildar. Það besta sem KSÍ myndi gera væri að leggja strax drög að því að stofna til tíu liða 1. deildar kvenna frá og með næsta tímabili.