Fyrir þá sem nenna yfir höfuð að fylgjast með samfélagi sínu, sýna því áhuga eða bæta það þá hefur umræða undanfarinna daga verið lífsreynsla. Umræðan um af hverju bankarnir rúlluðu og efnahagur Íslands fór inn á einkareikninga eigenda bankanna og sparisjóðanna. London er nú að mestu leynistaður þess fjármagns.
Makar hinna dæmdu og fjölskyldur eiga alla mína samúð en það eiga líka þeir sem urðu fyrir því að vitlausu Ólarnir í bönkunum tóku aleiguna frá þeim og notuðu til þess aðferðir sem fólk nú fær að heyra í sumum fjölmiðlum. Sorgleg samskipti fólks í bankatölvuleik þar sem FME og Kauphöllinn voru höfð að háði og spotti svo við tölum nú ekki um stjórnmálamenn sem áttu að setja hér lög um eignarhald en gerðu ekki.
Það er álútur Gestur Jónsson sem sést nú í fjölmiðlum enda sitja hans menn í fangelsi til margra ára.
Þessi sami Gestur Jónsson ber mikla ábyrgð á hruninu, hann tók að sér, fyrir fúlgur fjár, að verja hina dæmdu/ákærðu með aðferðafræði sem einkenndist af almanntengslaneti frekar en af lögfræði.
Þessir almannatengslamenn eru enn að fyrir hina dæmdu/ákærðu í fjölmiðlum og nota til þess fjölmiðla jafnvel leigupenna í eigu hinna dæmdu eða leppa þeirra. Til eru líka þeir sem skrifa í þágu hinna dæmdu/ákærðu í pólitískum tilgangi en inn í þau mál virðast fjölmiðlamenn ekki treysta sér enda er það ákveðið sjálfsmorð að gera það.
Gestur Jónsson, annars örugglega hinn ágætasti maður, hefði fyrir mörgum árum getað fengið þessa undra-„drengi“ til þess að taka sönsum og hætta þessum Ólaleikjum sem nú heyrast af símhlerunum í héraðsdómi. Það hefði forsetinn að vísu líka getað gert en það er önnur Ella. Gestur þessi mætti í staðinn í Kastljósið í drottningarviðtal vegna Baugsmálsins, talaði eins og honum einum er lagið, undir rós, að við nokkur hefðum ráðist að grey Jóni sem nú á einnig yfir höfði sér alvarleg málaferli því saksóknari „kann ekki að gúggla“ hvort bróðir Óla sé bróðir Óla og hafi því verið vanhæfur í máli Jóns.
Er Óli kannski Jón?
Eftir því sem ég les út úr þessu þá hafði bróðir Óla gert sig vanhæfan með því að háfpartinn halda því fram að sérstakur saksóknari væri fífl, sem hann er augljóslega alls ekki.Grey Jón náði, með klækjum, að fá almenningsálitið með sér og notaði til þess ýmis kjánagrey, eins og komið er í ljós, sem unnu við það eitt að ræna persónulegum tölvupóstum, kaupa upp aðra fjölmiðla, skrifa níð og búa til sögur um fólk.
Jón þessi er nú enginn venjulegur Óli, reyndar er hann svona meira eins og Óli skans; „tvö skref til hægri og tvö skref til vinstri“ það er, hann misnotaði fjölmiðla sína til þess að ná bæði Samfylkingunni og hluta Sjálfstæðisflokksins á sitt band.
Össur, annars örugglega hinn ágætasti maður, sem talaði á þingi um viðskiptamenn sem káboja og kúreka breyttist á einni nóttu í lýðskrumara og stuðningsmann útrásarinnar sér í lagi í orkugeiranum. Banki Jóns spilaði þar lykilhlutverk smb. Geysir Green Energy-svikamylluna sem í London reyndi að selja Ísland.
Glitnir/Kaupþing/sparisjóðirnir (sömu gæjarnir) átti þá Ísland (skulduðu Ísland) en vildu líka eignast orkuauðlindirnar og með aðstoð stjórnmálamanna tókst þeim það upp að vissu marki. Fyrir þetta eru Suðurnesjamenn að greiða með sköttum sínum í dag.
Söguna reyna þeir nú að skrifa sjálfir með fjölmiðlaumfjöllunum og bókum. Það virðist vera betra að veifa röngu tré en öngu.
Íslendingar eða sérstakur saksóknari hefur enga hagsmuni aðra en þá að sannleikurinn komi í ljós, hvert fóru og hvar eru auðæfi þjóðar sem var svo til skuldlaus fyrir aldamótin undir styrkri stjórn manna sem voru of gamlir í partíið.
Ég sé ekki alveg Davíð, Geir og Halldór fyrir mér í skíðaskálanum eða á snekkjunum.
Við höfum enga hagsmuni af því að sjá menn í fangelsum, við viljum að þeir skili því sem þeir hafa komið fyrir erlendis í skjólum svo geta þeir búið þar sem þeir vilja annars staðar en hér.
Vonandi er það markmið saksóknara að eigur almennings eins og eigur lífeyrissjóðanna, sparnaður fólks og þau fyrirtæki og fasteignir sem tekin voru ólöglega af fólki komist til eigenda sinna.
Svo skiptir þjóðina engu máli hvort Óli sé Óli eða Jón eða hvort Jón sé jafnvel Óli. Fólk er ekki allt fífl.
Höfundur er íþróttafræðingur.