Guðvarður Jónsson
Guðvarður Jónsson
Eftir Guðvarð Jónsson: "Erlendir auðmenn munu fúsir að leggja þúsundir milljarða í byggingu lúxushótela."

Núverandi stefna ferðaþjónustuaðila, varðandi innflutning ferðamanna, getur aðeins leitt til ofþenslu og mun þenslan þegar farin að valda óhagræði. Eigi ferðamenn að vera þjóðinni fjárhagsleg lyftistöng þarf fjöldinn að miðast við að Íslendingar geti þjónustað þá og stjórnað umgengni þeirra um landið, einnig að þeir borgi það gjald fyrir sem gerir þjónustuna sjálfbæra og skili hagnaði til þjóðfélagsins. Það er ekki nóg að einhverjir gróðabrallarar geti grætt, heildarhagsmunir þjóðfélagsins þurfa að vera til staðar.

Ísland hlaut sjálfstæði 1944 og allt frá þeim tíma hefur verið stefnt að því að leggja vegi með bundnu slitlagi umhverfis landið og það er fyrst nú sem farið er að sjá fyrir endann á því verkefni. Allt hefur þetta verið af vanefndum gert, þess vegna þolir vegakerfið illa það álag sem umferð okkar Íslendinga er á kerfið, samt er bætt á það erlendum ferðamönnum, fjórfalt fleiri en landsmenn og stefnt að fjölgun. Þarna gefur gróðafíknin þjóðinni og tillitsseminni langt nef.

Nýjasta æði okkar Íslendinga er hótelbyggingar og stefnir sú þróun í að verða enn öflugri þenslubóla í skuldasöfnun en skúffufyrirtækjavæðing bankanna fyrir hrun. Erlendir auðmenn munu fúsir að leggja þúsundir milljarða í byggingu lúxushótela og einnig að styrkja þá þróun að erlent starfsfólk verði látið þjónusta ferðamenn og annast leiðsögn um landið með erlendum bílaflota. Einnig munu þeir leggja kapp á að flytja inn nægan fjölda ferðamanna til að tryggja afkomu hótelanna og útsóun landsins. Alþingi Íslendinga mun svo þurfa að sjá til þess að hagsmunir hinnar mikilvægu atvinnugreinar undir stjórn erlendra auðjöfra njóti forgangs og afsláttar af sköttum og tollum.

Ísland á auðlindir sem geta brauðfætt margfalt fleiri en hér búa, því þurfum við ekki að flytja endalaust inn erlendar stóriðjur sem skapa keðjuverkandi vinnumarkaðsvanda.

Hreint land, fagurt land, er orðtak sem þjóðin hefur verið stolt af. Nú stefnir allt í að landið verði stærsti útikamar í heimi og að þjóðin þurfi í framtíðinni að drekka soðið saurgerlavatn. Er þetta ekki heimsmet í klúðri?

Heilbrigðisráðherra sagði í útvarpi fyrir stuttu að hann tæki ekki verkfallsrétt af fólki í heilbrigðisþjónustu. Þetta mun þýða að mannréttindi og líf sjúkra stendur neðar launakröfum. Engin þjóð getur talist siðmenntuð sem leyfir svona haftalausa aðför að sjúkum.

Allt bendir svo til þess að í upphafi næstu aldar verði Íslendingar sýnishorn af þeim sem byggðu landið eins og indíánar í Bandaríkjunum og að umsögn um Íslendinga í mannkynssögunni verði. Íslenska þjóðin var vel menntuð, en heimsk.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Guðvarð Jónsson