Karen Malmquist
Karen Malmquist
Eftir Karen Malmquist: "Stúdentspróf er í dag engin endastöð í námi líkt og forðum."

Margt hefur verið ritað og rætt um styttingu náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú svo skólaganga ungmenna á Íslandi verði líkari því sem gengur og gerist á meginlandi Evrópu. Helstu rök sem nefnd hafa verið eru að þannig komist unga fólkið fyrr út á vinnumarkaðinn en raunin er í dag. En er þessi stytting um eitt ár til stúdentsprófs einhver trygging fyrir því að unga fólkið flykkist fyrr út í atvinnulífið? Er hér ekki fyrst og fremst verið að hugsa um sparnað?

Staðreynd er að það er fullorðið fólk sem skipuleggur nám ungmenna og ákveður þar með hvað þau þurfi og eigi að tileinka sér til að verða góðir og gegnir borgarar í samfélagi framtíðarinnar. Málum er hins vegar þannig háttað að flest ungt fólk lifir í núinu og framtíðin er því oft á tíðum fjarlæg. Því er mjög algengt að unga fólkið tengi lítið það sem krafist er af því hér og nú í skólakerfinu við það sem það langar að gera að ævistarfi sínu síðar meir.

Sú skýring að stytting náms til stúdentsprófs um eitt ár minnki brottfall nema úr skólum, því þannig sjái unga fólkið fyrr fyrir endann á sínu námi, finnst mér ekki haldbær. Stúdentspróf er í dag engin endastöð í námi líkt og forðum. Stúdentsskírteini dagsins í dag færir fólki varla önnur réttindi en að það tryggir sér aðgöngumiða til áframhaldandi náms. Hafi nemar ekki hugmynd um hvað þeir vilja læra í framhalds- eða háskólanámi eftir stúdentspróf þá er unga fólkið sannarlega ekki á einhverri endastöð.

Samhliða því að ungt fólk á Íslandi í dag fær tækifæri til að kynnast vinnumarkaðnum í sumarvinnu og jafnvel í vinnu með námi, má gera ráð fyrir að það öðlist betri innsýn í það hvert það vill stefna síðar meir. Ég tel það mikil mistök af hálfu hins opinbera að loka fyrir bóknám í framhaldsskólum fyrir nemendur eldri en tvítuga. Ekki er óalgengt að háskólanemar á meginlandi Evrópu séu um þrítugt þegar þeir ljúka námi. Og oftar en ekki er þetta unga fólk á meginlandinu jafnvel búið að vinna sér inn fleiri en eina háskólagráðu þar sem ekki er óalgengt að prófa sig áfram á þessum árum þar til þau finna sinn rétta farveg. Þessu til stuðnings bendi ég á að skv. könnun hafa um 70% háskólanema í Austurríki ekki hugmynd um hvað þá langar að gera að ævistarfi eftir fjögurra ára háskólanám.

Nýverið sat ég fjölmenna kennararáðstefnu í Istanbúl þar sem saman voru komnir kennarar frá fjórum heimsálfum. Á kollegum frá öllum heimshornum mátti greinilega heyra að það kerfi sem verið hefur við lýði til stúdentsprófs hér á Íslandi, þ.e. fjögurra ára nám, er eitthvað sem nú er í gerjun út um allan heim. Flestir kollega minna vildu sjá lengingu náms til stúdentsprófs um eitt ár, þ.e. úr þremur árum í fjögur og heyra mátti að mikil umræða hefði átt sér stað í fjölda landa, víðsvegar um heim allan.

Verði af styttingu náms til stúdentsprófs um eitt ár má spyrja sig: Hvernig er samfélagið, háskólastofnanir og aðrar menntastofnanir landsins í stakk búnar að taka við þeim mikla fjölda sem útskrifast úr framhaldsskólum eftir þá rúm þrjú ár, þ.e. tveimur árgöngum á einu bretti? Ræður kerfið við það?

Nemendur eiga að hafa rétt til þess að vera staddir á mismunandi stað, á sínum hraða í námi samkvæmt hæfileikum, en ekki aldri.

Það er eins með unga fólkið og alla aðra, þroski og hæfileikar koma ekki endilega á ákveðnum tíma. Ungt fólk er misjafnt eins og við fullorðna fólkið og því er auðvitað ekki eðlilegt að gera ráð fyrir að allir séu steyptir í sama mótið og eigi þar með að tileinka sér hlutina á sama aldursbili. Ungt fólk hefur mismunandi þarfir hvað varðar nám, líf, leik og störf.

Miðum nám að þroska unga fólksins, en ekki duttlungum okkar fullorðnu.

Höfundur er framhaldsskólakennari í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Höf.: Karen Malmquist