Sigurbjörn M. Sigmarsson, Bubbi, fæddist 2. apríl 1922. Hann lést 23. apríl 2015. Sigurbjörn var jarðsunginn 30. apríl 2015.
Afi minn.
Menn eins og þú eru einn af milljón. Kátur, ljúfur og kurteis. Reynslubolti á mörgum sviðum og hefur lent í fjöldanum öllum af ævintýrum og sagt mér frá. Sögurnar sem þú sagðir mér úr sveitalífinu í Skagafirðinum munu lifa og ég hlakka til að segja þær áfram.
Afi, þú hefur alltaf veitt mér ástúð með stóra brosinu þínu og vinsemd síðan ég man eftir mér. Ég mun alltaf geyma fallegu og fyndnu minningarnar okkar í hjartanu mínu. Þegar við hlógum að öllu glingrinu hennar ömmu, lékum við ormana úti í bílskúr, fórum á hestbak og fengum okkur kandís.
Afi, við eigum sama áhugamálið, hestamennskuna, við gátum talað endalaust saman um hesta. Frásagnirnar af fyrsta hestunum þínum sem þú keyptir fyrir öll sumarlaunin þín, merinni og folaldinu sem þú bjargaðir og Blesa þínum eru sögurnar sem eru í miklu uppáhaldi. Afi minn, bráðum mun ég fara á bak á Dáta, takk fyrir hann. Lifandi gjöf sem mun minna mig á þig og ást þína á hestum. Ímyndaðu þér, afi, mig og Dáta á fljúgandi ferð og þú flýgur með.
Áður en ég fór til útlanda festi ég lítinn engil á axlaböndin þín, hann átti að passa þig meðan ég skoðaði heiminn. Þú varst svo stoltur og gafst mér góð ráð fyrir ferðalagið. Ég var orðin spennt að segja þér frá ævintýrunum. En ég rétt missti af þér, afi. Það var erfitt að vera ekki hjá þér þínar síðustu stundir, en pabbi var þar og það lætur mér líða betur. Þið eigið svo margt sameiginlegt, að eiga þig sem afa og hann sem pabba eru forréttindi.
Nú ertu engill, afi, einstakur engill og ég veit að þú ert með mér þó að ég sjái þig ekki.
Ég elska þig og söknuðurinn er mikill.
Þín afastelpa,
Andrea Ósk
Sigurbjörnsdóttir.