Vinstri meirihlutinn stefnir fjármálum borgarinnar hraðbyri til glötunar

Rauð ljós kvikna í rekstri borgarinnar, sagði í fyrirsögn úttektar Viðskiptablaðsins í liðinni viku á ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014. Þar er bent á að kostnaður við grunnþjónustu hafi hækkað verulega umfram verðlag frá árinu 2010 og að rekstrarkostnaður aukist umtalsvert á milli ára. Ennfremur að mikill halli hafi verið á reksti borgarinnar, einkum þegar Bílastæðasjóður og Eignasafn eru undanskilin.

Þetta er alvarleg þróun og ekki er síður alvarlegt að laun og annar rekstrarkostnaður sé orðinn 123% rekstrartekna, sem þýðir að skatttekjur, sem þó eru nánast í efstu löglegu mörkum, eru fjarri því að standa undir grunnrekstri.

Í úttektinni er haft eftir fjármálastjóra borgarinnar að halli á aðalsjóði valdi áhyggjum og að veltufé frá rekstri sé „fulllágt“ en þó „ekki banvænt“.

Af mörgu fleiru er að taka um slæma þróun og stöðu fjármála borgarinnar og þó að staðan sé ekki orðin „banvæn“ enn, þá stefnir því miður í þá átt haldi borgaryfirvöld áfram á sömu braut. Og eitt helsta áhyggjuefnið þegar kemur að fjármálum borgarinnar er reyndar, að fátt bendir til að borgaryfirvöld hyggist snúa af þessari braut, eða yfirleitt að þau sýni því nokkurn skilning að á þessum vanda þurfi að taka.