Steingerður Bjarney Ingólfsdóttir fæddist 4. júlí 1922. Hún lést 15. apríl 2015.

Hún var jarðsungin 27. apríl 2015.

Mínar ljúfustu minningar á ég um hana Böddu mína, og fyrir þær er ég þakklát.

Mikið fannst mér gaman sem krakka að koma í Álfheimana til Böddu. Hún átti alltaf gotterí í skál og þegar hún setti upp litla jólatréð með englahárunum, mikið fannst mér það fallegt. Badda var tíður gestur á heimili foreldra minna. Hvað þær mamma og amma Ninna, meðan hún lifði, gátu setið fram eftir öllum kvöldum. Leyst krossgátur og ég tala nú ekki um baksturinn og smákökurnar, hversu stórar/smáar þær ættu að vera og hversu mikla sultu ætti að setja inn í hálfmánana. Já, það var oft líf og fjör. Badda var ung í anda, hægt var að ræða um alla hluti við hana, hún hafði skoðanir á flestu. Það sem ég á eftir að sakna er að bláu hælafylltu inniskórnir, sem eru á bakvið útidyrahurðina hjá mömmu og pabba verða ekki meira notaðir.

Sofðu, hvíldu sætt og rótt,

sumarblóm og vor þig dreymi!

Gefi þér nú góða nótt

guð, sem meiri' er öllu' í heimi.

(G. Guðm.)

Hvíl í friði, elsku Badda mín.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar Ingi, Ásta, Anna Bára og fjölskyldur.

Magney.

Badda mín yfirgaf þessa jörð að morgni dags 15. apríl eftir nær 91 lífsár. Badda var kona Balda móðurbróður míns og mamma Ástu, Inga og seinna líka Önnu Báru. Við vorum eins og ein fjölskylda. Tyllidagar, helgar og sumur, alltaf saman. Í Laxnesi voru þau tíðir gestir. Það var hamingja. Börnin fóru í útilegumaðurinn fundinn, fallin spýta og alla aðra utandyraleiki. Inni skraflaði fullorðna fólkið og konurnar elduðu ljúffengan mat. Þær voru spariklæddar eins og venja var í þá daga. Tóku yfir sig svuntur við matargerðina, sem seinna urðu nælonsloppar Hagkaups sem skjótt allar konur voru komnar í. En í Laxnesi eða á Langholtsveginum voru þær fínar, með rauðar varir og Badda í háhæluðum skóm. Hún sagði að hún væri svo smávaxin.

Badda var alltaf að gera smáhluti fyrir börnin. Smá auka í gjafapökkunum, hlutir sem Badda vissi að gleddi börnin. Hún elskaði að sjá glöð börn. Hún skildi barnssálina og enginn gat verið í vafa um að hún elskaði okkur öll. Brosinu hennar með hamingjuglampa í augunum var ekki hægt að taka feil á. Á sama hátt og það var enginn vafi um hvað Badda meinti um hluti. Það voru þessi þægilegheit í fari Böddu, alltaf hrein og bein og umhyggjusöm. Það ríkti ró í návist Böddu.

Það var frábært að koma á Langholtsveginn. Malbikaðar götur og strætó. Fröken Klukka. Badda vann í mjólkurbúðinni. Konurnar voru hvítklæddar. Fólk fékk mjólk í mjólkurbrúsana sína. Þetta var á þeim tíma sem skyri var pakkað í smjörpappír og talið var í pundum. Ég bjó hjá Böddu 2 misseri eða svo rúmlega tvítug. Hún var mamma mín þannig og hjá henni átti ég heima. Ég naut góðs af. Tíminn leið en heimsókirnar héldu áfram. Ekkjurnar mamma og Badda skröfluðu áfram. Þær voru alltaf glaðar saman. Þær höfðu fylgt hvor annarri í gegnum lífið með öllum uppákomum. Þær skildu hvor aðra.

Árin sem ég hef búið erlendis hef ég séð til þess að skjótast í heimsókn til Böddu. Nokkrum sinnum höfum við fjölmennt konurnar í fjölskyldunni í boð hjá Böddu. Badda elskaði að vera með okkur. Í seinni tíð fór að hægja um hjá henni, en hún fór í göngutúra og hljóp stigana í húsinu heima til að halda sér í hreyfingu, eins og hún orðaði það. Alltaf áhugasöm og forvitin á sinn hóværa og viðurkennandi hátt. Þegar ég heimsótti Böddu seinast var ég bara rétt svona að kíkja við. Hringdi og spurði hvort ég mætti koma og hvort ég ætti að koma með kaffibrauð. Hún afþakkaði kaffibrauðið. Sagðist eiga nóg að setja á borð fyrir okkur. Ég kom að uppdekkuðu margrétta borði. Ég hváði, að ég tryði ekki að hún væri orðin svona sjónlaus eins og fregnir hermdu. Badda brosti. Hún sýndi mér hjálpartækin sem hún hafði til að sjá með. Hún sá orðið ansi lítið, skildi ég. En hún fór ennþá út í göngutúra, sagði hún mér. Lífið hélt áfram með óbilandi aðlögunarhæfni. Við sátum í 5 klukkutíma og spjölluðum. Böddu lá ekkert á að senda gestinn sinn heim.

Elsku Badda, þakka þér fyrir að ég mátti vera í lífi þínu og njóta svo góðs af.

Gunný Guðrún Önfjörð.

Elsku Badda okkar.

Það er erfitt að hugsa til þess að það sé komið að kveðjustund.

Það kviknar eigingirni í okkur því okkur langar svo til að hafa þig lengur hjá okkur en staðreyndin er sú að Guð vildi fá þig og hafa með englunum sínum.

Við getum ei breytt því

sem frelsarinn hefur að segja.

Um hver fær að lifa,

og hver á svo næstur að deyja.

Þau örlög sem við höfum hlotið,

það verður að skilja.

Svo auðmjúk og hljóð,

við lútum að frelsarans vilja.

Þó sorgin sé sár,

og erfitt er við hana að una.

Við verðum að skilja,

og alltaf við verðum að muna,

að Guð hann er góður,

og veit hvað er best fyrir sína.

Því treysti ég nú,

að hann geymi vel sálina þína.

Þótt farin þú sért,

og horfin ert burt þessum heimi.

Ég minningu þína,

þá ávallt í hjarta mér geymi.

Ástvini þína, ég bið síðan

Guð minn að styðja,

og þerra burt tárin,

ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís Halldóra Jónsdóttir)

Elsku Badda.

Við munum minnast þín með gleði í hjarta, gleði fyrir að hafa fengið að kynnast þér og eiga þig að.

Það er okkur ómetanlegt að hafa fengið að eiga jafn fallegar og góðar minningar og þær sem við höfum öðlast með þér, því jafn yndisleg og einstök manneskja er vandfundin.

„Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd.

„Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra.

„Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt.

„Einstakur“ er orð sem best lýsir þér.

(Terri Fernandez)

Elsku Badda okkar.

Okkur langar að kveðja þig með orðunum sem að þú skrifaðir alltaf til okkar, en áttu svo innilega við þig:

„Takk fyrir að vera alltaf svona góð við okkur.“

Elsku Badda, þín verður sárt saknað.

Elsku Ásta, Anna Bára, Ingi, og fjölskyldur.

Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Steingrímur (Steini),

Sylvía, Birkir Fannar,

Júlían Elí og Ívan Dan.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson frá Grímsstöðum.)

Að kveðja hana Böddu mína er erfitt, hún hefur verið mín besta vinkona og okkar besti heimilisvinur síðastliðin 47 ár. Við Bragi vorum svo lánsöm þegar við ung að árum fluttum í sama hús og þú, Badda mín, bjóst í. Konan í kjallaranum eins og ég kallaði þig. Þú varst lávaxin kona, snaggaraleg í hreyfingum og alltaf hlaupandi, og ég hélt að þú ættir öll þessi börn, bæði stór og smá. Við kynntumst fljótt og kom þá í ljós að þú áttir þrjú börn, þau Inga, Ástu og litlu Önnu Báru sem var 5 ára. Badda mín, alltaf varst þú og Anna Bára tilbúnar að hlusta eftir strákunum mínum þegar þeir voru litlir ef ég þurfti að skreppa frá, þá var bara opnað á milli hæða. Ég man fyrstu jólin mín á Langholtsveginum, þú kallaðir í mig niður, það átti að fara að baka laufabrauð, slíkan bakstur hafði ég aldrei séð, þetta fannst mér meira tilstandið, en síðan varð laufabrauðið fastur liður hjá okkur öll árin. Og um síðustu jól mættir þú til okkar í Mosó og skarst út þótt sjónin væri farin frá þér, oft var kátt í koti þegar Anna mágkona þín og Lilla mín voru komnar í hópinn. Ekki má gleyma hálfmánunum, spesíunum, gyðingakökunum og öllum hinum sortunum, allir dallarnir þurftu að vera fullir fyrir jólin. Svo var það jólapakkinn frá þér, opnaður síðastur, alltaf stærsti pakkinn og eitthvað óvænt sem úr honum kom. Já, Badda mín, við eigum svo ótal margar minningar saman, ein okkar uppáhalds ferð var austur undir Eyjafjöll og rifjuðum við hana alla upp þegar ég sat hjá þér á Vífilsstöðum og þú orðin svo mikið veik. Manstu líka þegar ég hringdi til þín og þú skelltir þér með okkur Bryndísi til Ítalíu næsta dag, þú varst alltaf svo tilbúin að stökkva af stað. Margar ferðir fórum við með nesti með okkur, bara eitthvað út í bláinn. Við tvær vorum góðar saman á kvöldin, vöktum fram eftir yfir krossgátum eða föndri, kannski stundum með smá Baileys-lögg í staupi, eða þú sagðir mér frá bókinni sem þú varst að lesa, stundum urðu þessar sögur að framhaldssögum, þá hringdir þú til mín og kláraðir söguna.

Badda mín, ég veit að það varð þér mjög þungbært þegar þú misstir sjónina, en alltaf varstu samt til í að kíkja á kaffihús með okkur vinkonunum eða bara í smá bíltúr.

Elsku Ingi, Ásta og Anna Bára, ykkur verð ég ævinlega þakklát fyrir að gefa mér tækifæri til að sitja við rúmið hennar mömmu ykkar og halda í hönd hennar síðustu stundirnar í þessari jarðvist. Elsku Badda mín, við Bragi viljum þakka þér allt sem þú hefur gert fyrir okkur og okkar fólk. Við biðjum fyrir þér að þú fáir góða heimkomu í ljósið kæra vinkona. Þín er sárt saknað. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þegar lífsins leiðir skilja

læðist sorg að hugum manna.

En þá sálir alltaf finna

yl frá geislum minninganna.

(Helga frá Dagverðará.)

Ingi, Ásta, Anna Bára, börn, tengdabörn og barnabörn, þið eigið alla okkar samúð. Guð blessi ykkur öll.

Elín og Bragi.