Gripið Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Breiðabliks gómar boltann í leiknum á Kópavogsvelli en Gunnar Þór Gunnarsson KR-ingur sækir að honum.
Gripið Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Breiðabliks gómar boltann í leiknum á Kópavogsvelli en Gunnar Þór Gunnarsson KR-ingur sækir að honum. — Ljósmynd/Fótbolti.net
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kópavogi Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Leikmenn Breiðabliks og KR gengu frekar svekktir af velli eftir að liðin gerðu fjörugt 2:2-jafntefli í kvöldblíðunni á Kópavogsvelli í gær.

Í Kópavogi

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Leikmenn Breiðabliks og KR gengu frekar svekktir af velli eftir að liðin gerðu fjörugt 2:2-jafntefli í kvöldblíðunni á Kópavogsvelli í gær. KR-ingar voru súrir að ná ekki að landa sigri enda voru þeir sterkari aðilinn lungann úr leiknum og Blikarnir ætluðu sér sigur á heimavelli og komast út úr jafnteflisgírnum en þeir voru jafntefliskóngarnir í fyrra, gerðu 12 jafntefli af 22 leikjum.

Eftir góða byrjun Blikanna þar sem þeir komust yfir eftir 10 mínútna leik náðu KR-ingar undirtökunum í leiknum. Leikmenn Breiðabliks féllu með lið sitt of aftarlega á völlinn eftir að hafa náð forystunni og KR-ingar réðu ferðinni. Þeim tókst að jafna metin með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks og geta þakkað fyrirliða Blika, Arnóri Sveini, það mark.

Seinni hálfleikur var fjörugur þar sem ekkert var gefið eftir. Tvö mörk með mínútu millibili litu dagsins ljós, hvort sínum megin á vellinum, og á lokakaflanum sóttu liðin á víxl. Bæði vildu sigur en það sást vel á andlitum leikmanna beggja liða og þjálfara að menn voru svekktir með niðurstöðuna í ljósi úrslita í fyrstu umferðinni.

Leikur Blikanna var mun markvissari en í jafnteflisleiknum á móti Fylki. Alltént buðu þeir upp á meira af stuttu spili í stað kýlinga sem hentar liðinu ekki vel. Guðjón Pétur Lýðsson hlýtur að vera búinn að festa sig í sessi í liðinu. Framlag hans í leiknum í gær var drjúgt en hann skoraði eitt og lagði upp annað og var sterkur á miðsvæðinu Kristinn Jónsson átti tíðar áætlunarferðir upp vinstri kantinn og olli oft usla í vörn KR-inga en mér fannst Blikarnir bakka fullmikið eftir að hafa komist yfir. Það eru létteikandi ungir og skemmtilegir leikmenn í liði þeirra grænklæddu og má nefna sem dæmi Höskuld Gunnlaugsson og Davíð Ólafsson.

KR-ingar, sem ætla sér svo sannarlega að vera með í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn, eru nú þegar orðnir fimm stigum á eftir aðalkeppinautunum FH og Stjörnunni og það gæti reynst erfitt að þurfa að elta liðin tvö sem börðust hatrammlega um titilinn á síðustu leiktíð. Ég get vel skilið að KR-ingar séu hálffúlir að hafa ekki fengið meira út úr leiknum því þeir voru sterkari lengst af. Óskar Örn Hauksson var fremstur meðal jafningja, Sören Fredriksen átti fína spretti og Jónas Guðni var traustur á miðjunni í vel mönnuðu liði vesturbæinga. KR-ingar munu örugglega þoka sér hægt og bítandi upp stigatöfluna en stigamissirinn í byrjun móts gæti komið þeim í koll þegar upp er staðið.

Breiðablik – KR 2:2

Kópavogsvöllur, Pepsi-deild karla, 2. umferð, mánudag 11. maí 2015.

Skilyrði : Hægur vindur, léttskýjað og hiti um 8 gráður. Völlurinn þokkalegur en greinilega búið að bera sand í hann.

Skot : Breiðablik 5 (2) – KR 10 (7).

Horn : Breiðablik 4 – KR 8.

Breiðablik: (4-3-3) Mark : Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn: Arnór S. Aðalsteinsson, Elfar Freyr Helgason, Damir Muminovic, Kristinn Jónsson. Miðja: Gunnlaugur H. Birgisson, Guðjón Pétur Lýðsson, Andri Rafn Yeoman. Sókn: Davíð K. Ólafsson (Olgeir Sigurgeirsson 87), Ellert Hreinsson (Ismar Tandir 60), Höskuldur Gunnlaugsson.

KR: (4-3-3) Mark: Stefán Logi Magnússon. Vörn: Gonzalo Balbi, Skúli Jón Friðgeirsson, Rasmus Christiansen, Gunnar Þór Gunnarsson. Miðja: Jacob Schoop, Pálmi Rafn Pálmason, Jónas Guðni Sævarsson. Sókn: Sören Frederiksen (Almarr Ormarsson 87), Gary Martin (Þorsteinn Már Ragnarsson 77), Óskar Örn Hauksson.

Dómari : Valgeir Valgeirsson – 6.

Áhorfendur : 1.945.

1:0 Höskuldur Gunnlaugsson 10. Skoraði með skalla eftir aukaspyrnu Guðjóns Péturs.

1:1 Óskar Örn Hauksson 45. Fékk boltann á silfurfati eftir mistök Arnórs Sveins og skoraði af stuttu færi.

1:2 Sören Frederiksen 70. Fékk sendingu inn fyrir vörnina frá Balbi og skoraði með hnitmiðuðu skoti.

2:2 Guðjón Pétur Lýðsson 71. Með skoti af um 25 metra færi.

Gul spjöld:

Damir (Breiðabliki) 65. (brot), Balbi (KR) 84. (brot), Guðjón Pétur (Breiðabliki) 85. (brot).

Rauð spjöld:

Engin.

MM

Guðjón P. Lýðsson (Breiðabliki).

M

Gunnleifur Gunnleifss (Breiðabliki)

Elfar Freyr Helgason (Breiðabliki)

Kristinn Jónsson (Breiðabliki)

Höskuldur Gunnlaugss. (Breiðabliki)

Gonzalo Balbi (KR)

Skúli Jón Friðgeirsson (KR)

Jónas Guðni Sævarsson (KR)

Óskar Örn Hauksson (KR)

Sören Frederiksen (KR)