Hallgrímur Þorsteinn Magnússon fæddist 29. september 1949. Hann lést 21. apríl 2015. Útför Hallgríms Þorsteins var gerð 7. maí 2015.

Elsku besti afi okkar er núna engill á himnum og lífið hjá okkur systrunum hefur snögglega gjörbreyst. Við vitum að núna hittast þeir góðu vinir, afi Dóri og afi Hallgrímur. Þeir munu örugglega vaka yfir okkur barnabörnunum, þeir voru svo góðir afar. Núna verðum við að hugga og halda utan um ömmu Distu. Öll erum við leið og sorgmædd. Sveitin okkar góða í Reykholti geymir margar góðar minningar og þangað hefur verið gott og gaman að koma. Alltaf góðar móttökur hjá ömmu og afa, góður matur og mikið um að vera. Fullur ísskápur af góðu grænmeti og jarðarberjum. Trampólínið, krakkakofinn og auðvitað heiti potturinn hafa gert sveitina ógleymanlega. Við afastelpurnar höfum fengið að njóta fjölda samverustunda með ömmu og afa á liðnum árum. Bæði í sveitinni og á ferðalögum. Þau komu með okkur í fellihýsið á liðnu sumri, komu með okkur á skíði á Akureyri í vetur og fengu líka stundum að gista heima hjá okkur. Við höfum líka verið svo lánsamar að ferðast með ömmu og afa til útlanda og þær minningar geymum við um alla tíð. Elsku besti afi, við hefðum viljað hafa þig lengur með okkur og erum þakklátar fyrir allt sem þú hefur kennt okkur. Bæði fyrir góð ráð um heilsuna og líka fyrir trú þína. Afi Hallgrímur ferðaðist alltaf með margar biblíur í töskunni sinni og las þær á hverjum morgni hvar sem hann var. Takk elsku afi fyrir þinn kærleika og tímann með okkur,

Sigurlaug og Bryndís

Brynjúlfsdætur.

Við kveðjum þig með miklum trega og söknuði, yndislegi mágur, svili og einlægi tryggi vinur, kletturinn okkar!

Þó sólin nú skíni á grænni grundu,

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kallaður á örskammri stundu,

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga góða,

svo fallegur, einlægur og hlýr.

En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,

við hittumst samt aftur á ný.

Megi algóður guð þína sál nú geyma

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár.

Þó kominn sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Höf. ók.)

Megi allir englar alheimsins vaka yfir og styrkja Distu, dæturnar, tengdasynina, barnabörnin og okkur öll.

Minningin um einstakan persónuleika, mannvin og stórfenglegan fræðimann mun lifa með okkur alla tíð.

Sigbjörn Jónsson og

Valgerður Hildibrandsdóttir.

Norður á Ströndum voru stórar fjölskyldur. Breyttir atvinnuhættir gerðu það að verkum að margir fluttu sig um set þangað sem meiri atvinnu var að fá. Því hafði ég aldrei kynnst og jafnvel aldrei heyrt um marga brottflutta ættingja meðan ég dvaldi í heimahögum. Ég varð þess láns aðnjótandi er ég hóf háskólanám að dvelja um tíma hjá föðursystrum mínum sem bjuggu þá á Grettisgötu. Þar var sjálfsagður áningarstaður hjá þeim sem áttu leið um miðbæinn. Þar kynntist ég fljótlega mínu fólki. Eftir að ég hóf nám í læknadeild fékk ég að vita að frændi minn, Steini sonur Pollu, væri líka í læknanámi og við værum þremenningar. Eitthvað gekk mér seint að átta mig á hver þessi Steini væri. Hann var tveimur árum eldri og hét Hallgrímur en í fjölskyldunni var notað millinafnið Þorsteinn. Ekki kynntist ég honum í náminu, vissi bara af honum. Eftir að námi lauk dróst að ég veldi mér framhaldsnám og vann ég í nokkrum áföngum á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans. Og viti menn! Allt í einu birtist nýr sérfræðingur úr sérnámi, Hallgrímur Magnússon. Kynni okkar þar voru góð en stutt þar sem ég fór síðan fljótlega til framhaldsnáms. Það gustaði af Hallgrími og hann hafði mörg járn í eldinum, kannski stundum einum of. Hann var þrælduglegur, kraftmikill, ráðagóður og var með hlutina á hreinu. Á þeim tíma hafði hann mikinn áhuga á starfseminni á kvennadeild og dreif t.d. áfram verkjadeyfingar hjá fæðandi konum. Hallgrímur kaus síðan að hasla sér völl utan Landspítalans þannig að við unnum ekki aftur saman. Hann hafði þann eiginleika að hann gat horft út fyrir rammann og hafði skoðanir á heilbrigðismálum og notaði meðferðir sem ekki féllu öllum í geð. Hann varð því oft á tíðum fyrir gagnrýni. Hallgrímur var fylginn sér, rökfastur og átti auðvelt með að koma skoðunum sínum á framfæri. Margir leituðu til hans og trúðu á aðferðir hans. Mörgu kynntist ég af eigin raun gegnum föðursystur mínar sem tileinkuðu sér margt sem hann ráðlagði. Báðar urðu þær mjög langlífar. Síðustu árin voru kynni okkar óbein. Birna yngsta dóttirin var samhliða dóttur minni í tónlistanámi og við Vigdís elsta dóttirin höfum lengi unnið á sama sviði á Landspítalanum. Ég sendi eiginkonu Hallgríms, dætrum og skyldfólki mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Aðalbjörn Þorsteinsson.

„Amare Deum est amare proximum“ – Að elska Guð er að elska náungann.

Við sem fengum að kynnast Hallgrími Magnússyni lækni erum ríkari en aðrir.

Það var auðvelt að dást að manninum fyrir margar sakir en mest þó fyrir þekkingu hans á óhefðbundnum aðferðum, þeim gömlu góðu reyndar.

Samvinna okkar var einstök og alltaf gat ég leitað til hans þegar ég var með heilsumeðferðirnar mínar í Hveragerði. Að hann sé farinn frá okkur er gríðarlegur skaði fyrir íslenskt samfélag en mest er þó eftirsjáin fyrir fjölskylduna og vini og samstarfsfólk.

Hugrekki hans og áræði, skynsemi og þekking var langt á undan sinni samtíð. Þegar Hallgrímur gekk inn í fyrirlestrarsalinn fylltist salurinn af nærveru þessa sterka manns með gullhjartað.

Hallgrímur synti gegn straumnum og sigraði, það sást á biðstofunni í Hveragerði hverjir völdu að treysta á hann. Rjómi samfélagsins sat þar, heilbrigður, enda þáði fólkið ekta næringu í æð.

Stundum vorum við mörg inni á sömu læknastofunni, það mörg að jafnvel beinagrindin á stofunni hans var nýtt til þess að hengja á pokann með næringarblöndunni. Mikið var hlegið og gantast með að landlæknir ætti nú að sjá þetta, já eða aðrir læknar sem voru með hann á heilanum.

Hallgrímur lét engan draga sig af leið og úrtöluraddirnar voru hættar að heyrast í hans eyrum þótt bréfin bærust enn frá landlækni með kvörtunum sem voru okkur báðum hlátursefni.

Hann hvatti mig áfram með viðmóti sínu við mig og svo var hann duglegur að vitna í Biblíuna og það þótti mér ekki verra.

Margar fyndnar sögur sagði hann í fyrirlestrum sínum enda húmoristi mikill.

Sagan af köttunum sem fengu bara kúamjólk í nokkur ár og afleiðingunum af þeirri neyslu er sú besta en þolir ekki að vera birt í fjölmiðli frekar en annað sem heilbrigðis-„risanum“ mislíkar. Þann risa skortir gleði og húmor sem og trú á mátt mannsins að stjórna heilsu sinni.

Heilsu-, ekki sjúkdóma-, áhugafólk minnist fyrirlestra Hallgríms sem voru fræðandi og skemmtilegir en umfram allt var það maðurinn sjálfur, Hallgrímur Magnússon, sem heillaði fólk.

Ekki veit ég hvaða lækni ég á að spyrja núna þegar spurning er um að láta líkamann lækna sig sjálfan með réttri næringu. Jónas Kristjánsson er löngu farinn og nú þú. Sem betur fer er yngra fólkið að stíga fram og feta í ykkar spor og fordómarnir að minnka.

Vonandi kemur eftirmaður þinn fram á sjónarsviðið svo hægt sé að spara í heilbrigðiskerfinu áfram, því það er ódýrara að borða sig frískan en lyfja sig frískan og það endist lengur auk þess sem það er tilgangur lífsins að höndla það, ekki deyfa sig frá því.

Ég kveð Hallgrím Magnússon lækni með söknuði en einnig með orðum „föður læknisfræðinnar“: „Ef við gætum gefið öllu fólki rétt magn af næringu og hreyfingu, ekki of lítið og ekki of mikið, fyndum við öruggustu leiðina að heilsu fólks.“ – Hippókrates (460 f.Kr. – 377 f. Kr.).

Guð blessi Hallgrím Magnússon frumkvöðul, minning hans varir!

Votta fjölskyldu hans og vinum innilega samúð okkar hjóna sem og samstarfsfólki hans í Hveragerði.

Jónína Benediktsdóttir íþróttafræðingur.

Mér brá mikið þegar ég fékk þær fregnir að hann hefði verið kallaður heim, svo skyndilega og fyrirvaralaust. Ég fann sorgina og eftirsjána hellast yfir mig rétt eins og um náinn vin væri að ræða. Þannig leit ég á hann Hallgrím, svo mikið hefur hann hjálpað mér við að halda heilsu í ótal mörg ár og alltaf verið til staðar með nýjar og gagnlegar leiðir fyrir mig í baráttunni.

Ég veit að ekkert gerist fyrir tilviljun og þess vegna trúi ég því að nú sé kominn tími fyrir hans hugsjónasemi og verkvit á stærra plani en hann hefur haft hér. Hann er kallaður til þar sem sterkir og áhrifamiklir einstaklingar starfa saman að framförum í heilbrigðismálum á heildrænan hátt. Þar sem einstaklingum er kennt að bera ábyrgð á sínum eigin líkama og fara þannig með hann að hann geti sinnt hlutverki sínu eins og náttúran hefur ætlast til.

Ég bið þess að honum farnist vel á sínum nýja vettvangi um leið og ég votta öllum aðstandendum hans samúð og bið þeim blessunar.

Sigurlaug Guðmundsdóttir.