Hilmar Snær Hálfdánarson fæddist á Akranesi 24. febrúar 1934. Hann lést á sjúkrahúsinu á Selfossi 22. apríl 2015.

Foreldrar hans voru Hálfdán Sveinsson, kennari og bæjarstjóri á Akranesi, f. 7.5 1907, d. 18.10. 1970, og Dóróthea Erlendsdóttir húsmóðir, f. 1.9. 1910, d. 15.1. 1983. Systkini Hilmars voru þrjú; Rannveig Edda, f. 6.1. 1936, d. 7.8. 2009, Sveinn Gunnar, f. 23.7. 1939, og Helgi Víðir, f. 1.4. 1944, d. 30.4. 2008.

Fyrri eiginkona Hilmars var Dóra Sif Wium, f. 20.3. 1934. Dóttir þeirra er Drífa, f. 8.12. 1957. Dóttir Drífu er Dóra Sif. Seinni eiginkona Hilmars var Jóna Sigurjónsdóttir, f. 19.2. 1933, d. 6.10. 2013. Dóttir þeirra er Helga Hrönn, f. 3.2. 1964. Börn Helgu eru Hjalti, Signý og Anna.

Hilmar ólst upp á Akranesi hjá foreldrum sínum, Hálfdáni og Dóru. Þau voru sómafólk sem tók virkan þátt í bæjarlífinu á Skaganum og var Hálfdán um margra ára skeið bæjarstjóri þar. Hilmar var eins og siður var á þessum tíma sendur í sveit á sumrin. Hann var í sveit í Lundarreykjadal og á Hvalfjarðarströndinni. Enginn Skagamaður vex úr grasi án þess að stunda fótbolta, Hilmar spilaði í marki og var meðal annars í meistaraflokksliði um skeið. Á unglingsárum vann Hilmar oft í Hvalstöðinni í Hvalfirði og var einnig á nokkur sumur á hvalbátunum. Hilmar lærði vélsmíði í Iðnskólanum á Skaganum, tók verklega hlutann hjá Þorgeiri og Ellert og vann oft í lengri og styttri tíma í Sementsverksmiðjunni á Akranesi. Hilmar og Dóra Sif Wium giftu sig árið 1957 og eignuðust dótturina Drífu árið 1957. Hilmar var verðlagseftirlitsmaður á Austurlandi og varaþingmaður Alþýðuflokksins og sat á þingi um skeið. Hann var meðlimur í Lionshreyfingunni og síðar Oddfellowreglunni. Hilmar giftist Jónu Sigurðardóttur árið 1963 og þau eignuðust dótturina Helgu Hrönn. Hilmar vann sem vélsmiður við byggingu Búrfellsvirkjunar og Sigöldu. Þá fluttist hann til Noregs og var búsettur þar um nokkurra ára skeið og sigldi þá meðal annars á kaupskipum vítt og breitt um heiminn. Hann tók kennsluréttindi og vélstjórnarréttindi á Ísafirði eftir heimkomuna. Hilmar var kennari við Iðnskólann í Reykjavík og síðar kennari í vélfræði við Landbúnaðarskólann á Hvanneyri. Hilmar bjó síðstu æviár sín í Frumskógum í Hveragerði.

Hilmar var jarðsettur í kyrrþey 2. maí 2015.

Hilmar Hálfdánarson er fallinn frá og langar mig að minnast hans í nokkrum orðum. Leiðir okkar Hilmars lágu saman þegar hann var giftur móður minni og gekk okkur Birni bróður mínum í föðurstað um nokkurra ára skeið. Þau Jóna giftu sig í Papey og stofnuðu heimili á Búðareyri. Árin á Reyðarfirði voru skemmtilegur tími, síldarævintýrið var í algleymingi og mikið líf á Austfjörðum. Þar fæddist Helga Hrönn systir mín og var mikið ljós á heimilinu. Þau Jóna voru vinmörg og starfs síns vegna var Hilmar mikið á ferðinni. Oft var farið í lengri og styttri ferðir á Willysnum að heimsækja fólk á fjörðunum og um hérað. Merkilegast þótti okkur bræðrunum alltaf þegar farið var um Fagradal því þar rann áin Jórdan, sú er Jóhannes skírari dýfði Jesú í forðum daga. Er ég Hilmari ævinlega þakklátur fyrir lifandi leiðsögn í biblíusögunum. Gleði og gamanmál voru alltaf aðaláhugamál Hilmars og var mikið spaugað og sungið í þessum ferðum. Smellurinn sem hann kenndi okkur; „Þegar fólkið fer að búa“, hljómar hátt enn þann dag í dag í bíltúrum með barnabörnin og mun líklega óma í marga ættliði enn. Á dimmum vetrum hafísára var fastur liður í hverri viku kvöldvaka með lestri, söng og gamanmálum. Hilmar lék þá við hvern sinn fingur, tróð upp með leikrit og söng. Hilmar var alla tíð uppspretta skemmtilegra frásagna og kunni ógrynni af sögum og vísum. „Blessuð litlu lömbin smá, leika sér í haga. Þau eru rauð og gul og blá, og geta hangið á snaga.“ Á sumrin komu Drífa og Anna austur sem og afar og ömmur og mikið af öðrum góðum gestum. Minnist ég einnig ófárra ferðanna með skipsáhöfnum til Seyðisfjarðar, enda var þar eina uppspretta guðaveiga á öllu Austurlandi. Hilmar var glaðsinna og fordómalaus og hafði ekkert á móti víni. Eina skemmtilega sögu sagði hann mér því tengda af ferðalagi að vetri til. Hann og nokkrir félagar voru á ferð yfir heiði um hávetur. Þeir höfðu meðferðis séniver og 90 prósent spíra, en ekkert bland! Frost var á, jarðbönn og allir lækir frosnir. Nú voru góð ráð dýr og brugðu þeir á það snilldarráð að fá sér fyrst sopa af spíranum og svo strax á eftir af sénivernum sem smakkaðist þá eins og vatn. Var þetta löng og skemmtileg ferð með fjöri, góðum söng og gleði og endaði úti í skurði. Þetta var ekki eini útafakstur Hilmars um ævina enda ekki gallalaus frekar en ég og var fjármálaleikni hans alla tíð í öfugu hlutfalli við persónutöfrana. Líkt og um síldarævintýrið sem tók snöggan enda fór um ástarævintýri Hilmars og Jónu. Eftir flutning til Reykjavíkur lauk „seinna stríðinu“ eins og Hilmar sagði jafnan, en „fyrra stríðið“ var fyrra hjónaband hans. Þau Jóna héldu vinskap sínum alla tíð. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Hilmari og lífsviðhorfum hans en Hilmar valdi sér létt viðhorf til lífsins, spaug og glens voru hans ær og kýr og aldrei heyrði ég honum liggja illt orð til nokkurs manns. Hilmar var drengur góður, eins og fyrrverandi tengdamóðir hans, Anna amma mín, sagði á stundum: „Það er ekki vont bein í honum Hilmari.“

Sverrir Sigurjón Björnsson.

Æskuvinur minn, Hilmar Hálfdánarson, hefur kvatt okkur eftir erfið veikindi um langan tíma. Síðasta vetrardag yfirgaf hann þessa jarðvist. Vinátta okkar Hilmars hefur verið óslitin frá fermingaraldri. Leiðir okkar lágu fyrst saman í skátastarfi þar sem áhersla er lögð á vináttu og virðingu fyrir landi og þjóð. Við tókum þátt í bæjarlífinu á Akranesi, ungir og bjartsýnir. Gagnfræðaskólinn var staðurinn þar sem allt var að gerast hjá okkur. Námið og uppfræðslan tók að sjálfsögðu sinn tíma, en lífið utan skólans var ekki síður spennandi. Það var mikil gróska og gleði í félagsstarfinu. Unga fólkið var í íþróttunum, stúkunni og skátastarfinu. Við fórum í skálaferðir og skíðaferðir. Og svo voru það Bíóhöllin á sunnudagskvöldum og restrasjónirnar í Báruhúsinu á fimmtudögum og sunnudögum. Hilmar var virkur í félagsstarfi. Hann tók þátt í fótboltanum, en ekki síður í dansinum, var eftirsóttur af stelpunum og líkaði það vel. Hilmar var ekki undir ströngum aga í uppeldinu. Heimili hans, í verkamannabústaðnum á Sunnubrautinni, var alltaf opið fyrir okkur unglingana og vorum við velkomin á heimilið. Hálfdán kennari, faðir hans, var helsti verkslýðsforinginn í bænum og pólitíkin í hávegum á heimilinu. Dóróthea, móðir hans, starfaði líka mikið að félagsmálum.

Að loknu námi í Gagnfræðaskólanum lærði Hilmar vélvirkjun en ég var í prentnámi. Á þessum árum tókum við virkan þátt í félagsstarfi í bænum. Við sungum í karlakórnum og störfuðum saman í skátafélaginu og leikfélaginu. Þetta voru skemmtilegir tímar sem ég minnist með gleði. Starfsvettvangur okkar var á ólíkum stöðum og búseta sömuleiðis. Samvistir voru því ekki miklar næstu árin.

Hann lenti í bílslysi, sem laskaði hnjálið hans. Eftir fylgdu margar sjúkrahúslegur og aðgerðir. Hafði það mikil áhrif á líf hans upp frá því. Síðustu starfsárin var hann kennari í Bændaskólanum á Hvanneyri og átti góðar minningar frá þeim tíma. Hilmar vígðist í Oddfellowstúkuna nr. 8, Egil, 23. janúar 1985.

Við starfslok gerðist hann vistmaður að Ási í Hveragerði. Þar dvaldi hann síðustu æviárin og naut einstakrar umönnunar. Ég heimsótti hann oft þar og við rifjuðum upp liðna tíma. Hilmar las mikið, mest ævisögur, og sagði mér oft skemmtilega kafla sem hann hafði lesið. Þar áttum við sameiginlegt áhugamál og ræddum það sem hafði fangað hugann milli samtala. Pólitík var alltaf ofarlega á baugi hjá Hilmari, sérstaklega eftir að hann sat á alþingi í nokkrar vikur. Hann kunni margar sögur af landsþekktum mönnum og sagði skemmtilega frá.

Hilmar eignaðist tvær dætur. Þær sýndu honum einstaka ræktarsemi og hallaðist þar ekki á. Fjölskylda hans var honum alltaf ofarlega í huga og fylgdist hann vel með uppvexti og líðan afkomenda sinna. Hann fylgdist líka vel með vinum sínum og spurði frétta af þeim þegar við ræddum saman.

Ég sakna góðs vinar, skemmtilegra símtala og heimsókna. Við Elín þökkum trausta vináttu og ógleymanlegar samverustundir með Hilmari og sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Blessun fylgi góðum vini.

Bragi Þórðarson.

Í bjarma af vori og gróanda berst okkur fregnin um að góður vinur og samstarfsmaður, Hilmar Hálfdánarson sé fallinn frá, nokkuð óvænt, því skömmu áður hafði borist frá honum kveðja. Hann var fæddur og uppalinn á Akranesi og eins og ungmenni á þeim tíma tók hann þátt í leik og starfi sinnar samtíðar. Þar mótuðust hans framtíðarviðhorf bæði til orðs og æðis. Hann þekkti baráttu alþýðunnar fyrir bættum kjörum og jöfnuði og hann tók virkan þátt í félagslífi og gáska ungdómsáranna. Hilmar var ákveðinn í skoðunum, mótaður af því umhverfi sem hann ólst upp í, hafði ríka réttlætiskennd og stóð með þeim sem minna máttu sín í lífinu.

Kynni okkar hófust er Hilmar réðist sem vélakennari við Bændaskólann á Hvanneyri haustið 1984 og síðan áttum við samleið í tvo áratugi eða þar til starfsferli hans lauk árið 2004. Hilmar var góður liðsmaður og trúr skóla sínum og starfi. Honum var annt um velferð nemenda sinna og lagði sig fram um að þeir kæmust til nokkurs þroska með veru sinni á Hvanneyri. Hann var ekki kröfuharður um aðbúnað á vinnustað og bjó oft við þröngan kost í því efni. Hann gerði sem best úr því sem til reiðu var og lét það ekki bitna á alúð og elju við nemendur sína og starf. Í kennslunni lagði hann mikla áherslu á grunnatriði fræðanna og þótti nemendum stundum nóg um, en ef grunnurinn er ekki traustur stendur yfirbyggingin ekki til langframa, voru þá svör kennarans. Á skólastað eins og Hvanneyri verður ekki hjá því komist að blandist saman starf og frítími bæði starfsmanna og nemenda. Á gleðistundum var Hilmar hrókur alls fagnaðar, gaf af sér og glæddi samverustundir gleði og gáska.

Þegar Hilmar hafði starfað um stund við skólann varð hann fyrir miklu áfalli, er aðgerð á fæti mistókst og hann varð fatlaður upp frá því. Þó öllum öðrum sýndist að þessi fötlun gerði honum nær ómögulegt að stunda fulla vinnu, þá var það ekki í orðaforða Hilmars að hlífa sér í nokkru þó að ekki gengi heill til skógar. Sýndi hann aðdáunarverða þrautseigju og viljastyrk oft við erfið skilyrði að sinna verki sínu og nemendum eins og best hann gat. Þegar starfsferlinum lauk kaus Hilmar að setjast að í Hveragerði og átti þar heimili til æviloka. Þá strjáluðust samskiptin en alla tíð fylgdist hann með skólanum sínum eins og hann nefndi Hvanneyri ævinlega.

Nú þegar lífsljós Hilmars Hálfdánarsonar er slokknað og bjarmar af nýjum degi hins eilífa lífs, merlar í huga og sinni okkar félaga hans og vina frá Hvanneyrarárunum minningin um góðan félaga og traustan vin.

Á kveðjustund þökkum við fyrir öll liðnu árin á Hvanneyri, minnumst gengins vinar og biðjum algóðan Guð að veita fjölskyldu hans styrk og huggun á sorgarstund. Blessuð sé minning Hilmars Hálfdánarsonar

Magnús og Steinunn,

Hvanneyri.