Hinum nýja Jaguar XF eðalbíl er ætlað ekki neitt smá hlutskipti. Nei, honum er hvorki meira né minna en stefnt gegn lúxusbílum BMW, Audi og Mercedes. Og er ætlað að ná undirtökum, ekkert minna.
XF kom upphaflega á götuna árið 2007 og leysti þá af hólmi Jaguar S-týpuna. Bandaríkjamenn flokka hann sem meðalstóran lúxusbíl en með sína tæplega fimm metra milli stuðara aftan og framan telst hann stór bíll í Evrópu. Keppinautarnir eru þar með af gerðunum Mercedes E-class, Audi A6, og BMW 5-serían.
Um er að ræða aðra kynslóð af Jaguar XF en hann vakti athygli á bílasýningunni sem nú stendur yfir í New York og þótti einkar spennandi. Talsverður svipur er með nýja bílnum og forvera hans, fyrstu kynslóð XF. Nýliðinn er þó algjörlega nýr bíll. Grennri, léttari, rúmbetri, stíllinn klassískari og í honum er mikið af tækninýjungum.
Við smíðina hefur ál verið notað í talsverðum mæli sem hefur orðið til að létta hann ásamt því að hann er straumlínulagaðri en fyrr. Í innanrýminu eru einna mestu breytingarnar þær að fótapláss og hæð undir loft hefur verið aukin og þægindi farþega í aftursætum eru mun meiri en í forveranum. Sú breyting náðist fram með auknu hafi milli öxla en einnig hefur bílbotninn verið lækkaður. Það ásamt útliti sem minnir á tvennra dyra bíla gerir að Jaguar XF hefur fremur sportlegt yfirbragð á sér.
Algjörlega nýtt upplýsinga- og hljóðkerfi verður í bílnum sem stjórnað er á 10,2 tommu snertiskjá. Gervihnattaleiðsögubúnaðurinn er nýr og fullkomnari. Í Meridian-hljóðkerfinu eru 17 hátalarar hist og her um bílinn sem samtals skila 825 vöttum.
Bílstjórinn mun meðal annars njóta góðs af sjónlínuskjá sem er staðalbúnaður, nýju stafrænu mælaborði, hraðastilli með sjálfvirkri neyðarbremsu, og búnaði sem varar við reki út úr akrein. Loks er þyngdardreifingin jöfn milli fram- og afturhluta bílsins sem skilar sér í mun betra akstursjafnvægi og meðfærileika.
Hægt verður að fá Jaguar XF í nokkrum útgáfum, þeirri lægstu með 2ja lítra og 163 hestafla dísilvél með handskiptingu upp í toppútgáfuna sem verður með 380 hestafla V6-bensínvél og átta hraða sjálfvirkum gírkassa.
agas@mbl.is
Ágúst Ásgeirsson