Fáir atburðir erlendis höfðu meiri áhrif á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en franska byltingin árið 1848. Hún mótaði þann lýðræðisanda sem meðal annars kveikti kröfuna um íslenskt þing og ríkisstjórn í konungssambandi við Danmörku, á þjóðfundinum 1851. Hún mótaði einnig hina alþjóðlegu mannréttindayfirlýsingu sem kveður á um rétt manns til vinnu.
Rétturinn til vinnu er hugtak, sem veitir mönnum rétt til að vinna, eða skapa sér atvinnu, og þann rétt má ekki skerða samkvæmt alþjóðalögum og samningum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, því rétturinn til vinnu leggur grunninn að þróun þessara mála.
Íslensk verkalýðsfélög eru, eins og nafnið bendir til, starfandi á forsendum, sem mótuðu þau fyrir hálfri til einni öld. Segja má að þau hafi elst meira en þróast á þessum tíma. Engin krafa er gerð til stjórnenda þessara félaga og þó að þau ráði yfir stærstu fjármálafélögum og stærstu fyrirtækjum ásamt matvörumörkuðum landsins í umboði almennra launamanna hefur hinn almenni eigandi engin áhrif á þessi bákn.
Þegar formenn þessara félaga vilja sýna veldi sitt er ekkert til sparað í auglýsingar og áróður. Fólkinu er lofað launahækkunum með miklum látum, þó að aldrei hafi þessi stríð þeirra skilað lofuðum árangri. Verkfallssjóðir eru opnaðir til þess að halda verkfallsmönnum við efnið, en þeir aðrir sem verða að borga vegna lokunaraðgerða, vinnutaps og skorts á aðföngum, og jafnvel með stórfelldu heilsutjóni, af því að það er verkfallsæði í gangi, mega éta það sem úti frýs.
Í þessu æði öllu saman kallast það sigur í baráttunni ef einhver finnst sem líður saklaus og réttlaus fyrir málstað honum óviðkomandi, að ekki sé talað um fögnuðinn sem kviknar í brjóstum hinna göfugu baráttumanna þegar lýst er hörmungum þeirra sem líða, þjáðir og hraktir, sjúkir og varnarlausir gagnvart eyðileggingu þessa stundaræðis.
Eyðilegging þessa kerfis er slík að landsmenn ná sér aldrei upp úr þeim fátækrafenjum, sem skotgrafirnar eru grafnar í, en veltast í botnleðjunni, og sjá óglöggt til sólar ofan við bakkana. Við erum ekki nema þrjú hundruð og tuttugu þúsund og gætum í fyrsta sinn í þúsund ár haft það sæmilega gott hérna, en nei, öfundin, tortryggnin og fáfræðin halda okkur eins og humri í gildru.
Við fengum loksins okkar eigið þing en til allrar ógæfu er umræðum þaðan nú sjónvarpað beint og almenningur veit það núna að þingmönnum er alveg eins farið og öðrum landsmönnum, að þegar þeir ræða málin eru allir svo uppteknir við það sem þeir ætla sjálfir að segja að þeir skeyta því ekki hætis hót hvað hinir leggja til málanna og heyra það aldrei.
Er landið okkar sjálft það eina, sem með eldgosum, landskjálftum eða skriðuföllum, getur fengið okkur til að standa saman, hjálpast að og vilja í einlægni gera hvert öðru gott? Höfum við ekki vit til án þess?
Höfundur er eftirlaunaþegi.