Tilboð Bandalagi háskólamanna barst tilboð á fundi hjá ríkissáttasemjara.
Tilboð Bandalagi háskólamanna barst tilboð á fundi hjá ríkissáttasemjara. — Morgunblaðið/Ómar
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Bandalagi háskólamanna barst tilboð frá samninganefnd ríkisins á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær. Páll Halldórsson, formaður BHM, segir að tilboðið sé jákvætt skref.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Bandalagi háskólamanna barst tilboð frá samninganefnd ríkisins á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær. Páll Halldórsson, formaður BHM, segir að tilboðið sé jákvætt skref. „Þetta er ekki fullt tilboð, í þessu er fullt af eyðum. En þegar horft er á stærðargráðurnar í þessu er þetta svipað og Samtök atvinnulífsins hafa boðið öðrum. Við tökum bara við þessu núna og látum þá fá eitthvað á móti,“ segir Páll.

Sambærilegt öðrum

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir að tillögurnar snúi að breytingum á launalið, vinnufyrirkomulagi, veikindarétti og endurmenntun og símenntun. Hann segir tilboðið sambærilegt því sem rætt hefur verið um við aðra. „Þau ákváðu að skoða þetta í sínum ranni og ætla að koma með viðbrögð við því á morgun (í dag),“ segir Gunnar. Ríkissáttasemjari boðaði til fundar í viðræðum í dag. Páll telur að um mikla framför sé að ræða frá því sem hingað til hefur komið frá ríkinu. „Þó að við eigum talsvert langt í land með að klára þetta þá er hægt að vinna með þetta og við sjáum hvað við komumst áfram,“ segir Páll. Hann segir það eitt af höfuðmarkmiðunum að kerfislægar breytingar verði þannig að menntun skili sér til launa. „Þetta er ekki bara spurning um krónur og aura,“ segir Páll.

Hafa ekki ákveðið verkfallsaðgerðir

Landssambönd og félög iðnaðarmanna, sem gerðu með sér samkomulag um samstarf í komandi kjaraviðræðum, munu ganga til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun í lok vikunnar. Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir að ekki liggi enn fyrir hvernig mögulegar verkfallsaðgerðir muni hljóma. Slíkt muni ekki liggja fyrir fyrr en á miðvikudag. Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að samninganefnd félagsins muni hitta forsvarsmenn SA á morgun. Hann á ekki von á tilboði á fundinum.