Björgvin Oddgeirsson fæddist 30. október 1928 á Grenivík við Eyjafjörð. Hann lést 25. apríl 2015.

Faðir hans var Oddgeir skipstjóri og útvegsbóndi á Grenivík, f. 23.10. 1880, d. 1971, Jóhannsson í Saurbrúargerði í Grýtubakkahreppi. Móðir Oddgeirs var Kristín Sigurðardóttir Bjarnasonar frá Fellsseli í Köldukinn. Móðir Björgvins var Aðalheiður, f. 9.11. 1885, d. 1977, Kristjánsdóttir frá Hróarsstöðum í Fnjóskadal. Móðir Aðalheiðar var Lísbet Bessadóttir frá Skógum í Fnjóskadal Eiríkssonar hins sterka frá Steinkirkju.

Oddgeir og Aðalheiður bjuggu á Hlöðum á Grenivík og var Björgvin yngstur 12 barna þeirra.

Systkin Björgvins: 1) Agnes, 2) Alma, 3) Aðalheiður, 4) Björgólfur, lést eins mánaðar, 5) Jóhann Adolf, 6) Kristján Vernharður, 7) Fanney, 8) Hlaðgerður, 9) Margrét, 10) Hákon, 11) Sigríður. Tvær af þessum hópi lifa, Sigríður og Margrét.

Björgvin kvæntist Láru Egilsdóttur 19.12. 1954. Foreldrar hennar voru Egill Áskelsson og Sigurbjörg Guðmundsdóttir, sem hófu sinn búskap á Grenivík, síðar að Hléskógum í Höfðahverfi. Áskell bjó í Austari-Krókum á Flateyjardalsheiði; kona Áskels var Laufey Jóhannsdóttir frá Skarði í Dalsmynni Bessasonar. Foreldrar Sigurbjargar voru Guðmundur á Lómatjörn í Höfðahverfi, Sæmundsson. Móðir Sigurbjargar var Valgerður Jóhannesdóttir Reykjalín frá Þönglabakka í Fjörðum.

Börn Björgvins og Láru eru: 1) Sigurbjörg hjúkrunarfræðingur, gift Sævari Hreiðarssyni. 2) Aðalheiður hjúkrunarfræðingur. 3) Ása Lísbet listakona, gift Óðni Kalevi Andersen. 4) Bragi skipstjóri, kvæntur Berglindi Þorfinnsdóttur. 5) Kristján Vernharður rekstrarstjóri, kvæntur Kristínu Jónsdóttur. Barnabörn Björgvins og Láru eru níu, barnabarnabörn átta og barnabarnabarn eitt.

Björgvin lauk námi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Hann var á sjó framan af ævi, oft á skipum Gjögurs hf. frá Grenivík, og löngum með bróður sínum Jóhanni Adolf, ýmist sem stýrimaður eða skipstjóri. Þegar í land var komið vann Björgvin sem hafnarvörður við Reykjavíkurhöfn.

Útför Björgvins fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 12. maí 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag kveð ég elskulegan föður minn, Björgvin Oddgeirsson frá Hlöðum á Grenivík.

Pabbi fæddist 30. október 1928, ólst upp við sjóinn í litlu sjávarþorpi þar sem allt iðaði af lífi þegar bátarnir komu með aflann að landi og fólkið sótti sér fisk í soðið niður á bryggju.

Afi Oddgeir var útvegsbóndi á Grenivík og sá sínum farborða með því að sækja sjóinn, hann var harðsækinn dugnaðarmaður. Ættmóðirin, Aðalheiður amma, sá um stórfjölskylduna í landi en alls eignuðust þau afi tólf börn. Þau afi og amma á Hlöðum höfðu afbragðs músíkgáfu og hlutu börn þeirra músíkina í arf mjög ríkulega. Það var sungið við verkin á Hlöðum með fjórum röddum og amma stjórnaði söngnum.

Pabbi var mjög músíkalskur maður og hafði alla tíð unun af söng og góðri músík, hann hafði góða söngrödd, söngröddin var tenór.

Pabbi var mikill íþróttamaður á sínum yngri árum, hann spilaði m.a. fótbolta með Magna á Grenivík og KA á Akureyri, hann keppti líka á skíðum, bæði í bruni og svigi, á Íslandsmótum.

Pabbi hafði gaman af alls kyns útiveru í íslenskri náttúru, fór gjarnan í lax- og silungsveiði og gekk auk þess til rjúpna.

Hann útskrifaðist úr Sjómannaskólanum með skipstjórnarréttindi og stundaði sjómennskuna lengst af ævi sinni. Ég minnist þess sem barn þegar pabbi kom af sjónum hvað það var mikil tilhlökkun að hlaupa upp í fangið á honum, finna þennan hlýja góða faðm, væntumþykju og traust, eins að sitja í fangi hans og hlusta á sögu, hversu dýrmætur tími það var fyrir barn að minnast og gott veganesti út í lífið. Pabbi var einstaklega hlýr og góður maður og alltaf tilbúinn að bjóða fram hjálp sína, hann var glæsilegur á velli og bar sig alltaf vel, svipmikill maður og sterkur karakter, hafði sterkar skoðanir á mannlífinu og tilverunni, hann vildi sanngirni og réttlæti öllum til handa, líkaði illa ójöfnuður í þjóðfélaginu, hann var jafnaðarmaður af Guðs náð.

Seinni ár lagði hann mikla vinnu og metnað í að gera upp Hlaðnahúsið og naut þess að vera þar með mömmu.

Ungur sonarsonur minn grét mikið þegar hann áttaði sig á því að hann sæi langafa aldrei aftur, var mikið að velta fyrir sér trúnni og Guði og sagði svo: „Afa hlýtur að leiðast hjá Guði, hann getur ekki horft á fótbolta,“ en pabbi var mikill Manchester United-aðdáandi.

Elsku pabbi minn, þakka þér fyrir allt, mér þótti óskaplega vænt um þig og mun sakna þín. Elsku mamma mín, Guð blessi þig og styrki.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem)

Kær kveðja, þín dóttir,

Sigurbjörg (Sibba).

Undir háu hamrabelti

höfði drúpir lítil rós.

Þráir lífsins vængja víddir

vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan

hjartasláttinn rósin mín.

Er kristallstærir daggardropar

drúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu

lengi vel um þennan stað,

krjúpa niður kyssa blómið

hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað

yndislega rósin mín.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei, það er minning þín.

(Guðmundur G. Halldórsson.)

Ég kveð hér kæran tengdaföður með ljóði sem honum var kært og minnir mig á góðar stundir með honum og þá sérstaklega á Hlöðum á Grenivík. Ég sakna hans meir en orð fá lýst.

Berglind.

Hún Lára, systir mín, var glæsileg heimasæta í Hléskógum, einstaklega fjölhæf og vel af Guði gerð. Margir vildu eiga hana, en það var bara einn sem hreppti hnossið.

Hann Bubbi var 22 ára gamall töffari frá Hlöðum á Grenivík, ljóshærður með liðað hár, dansaði eins og engill, hló hátt og söng öðrum mönnum betur, tenórinn svo bjartur og þróttmikill.

Ég var sex eða sjö ára þegar fór að birtast á hlaðinu „drossía“, líklega Buick, og út steig Bubbi á Hlöðum í hvítum stífpressuðum buxum og svörtum blaserjakka, hann gekk öruggum skrefum inn í bæ.

Þarna var kominn prinsinn hennar Láru.

Á þessum árum voru bílar ekki almenningseign svo manni þótti mikið til koma. Ég man ennþá lyktina úr Buicknum, þvílíkur ilmur.

Svona var rómantíkin.

Bubbi fæddist 1928. Hann var yngstur tólf systkina og fjölskyldan öll var fádæma músíkölsk. Oddgeir var kunnur aflaskipstjóri og Aðalheiður, ættmóðirin, stjórnaði búi í landi af röggsemi. Bubbi fékk í vöggugjöf afar fallega tenórrödd og ég veit að hann hafði haft hug á söngnámi. Það þótti ekki alvörunám í þá daga og ekki líklegt til að afla góðrar afkomu. Systursonur hans og jafnaldri, Magnús Jónsson óperusöngvari, var mikið á Grenivík á sumrin. Þeir fóru gjarnan út á víkina á árabát á stilltum sumarkvöldum og sungu ítalskar óperuaríur og dúetta svo undir tók í fjöllunum. Svo fagrar voru raddirnar og hljómurinn slíkur, að Stjana á Melum hélt að þetta væru álfar.

Þeir voru vinir alla tíð.

Bubbi var öflugur maður, í víðasta skilningi þess orðs, og rammur að afli. Mikill kappsmaður í knattspyrnu og spilaði með Ungmennafélaginu Magna á Grenivík. Þeir þóttu seigir Magnamenn og voru oft fengnir til Akureyrar til að styrkja lið KA þegar mikið lá við.

En hann óx upp við útgerð foreldra sinna og þar var lagður hornsteinn að ævistarfinu. Hann lagði sjómennskuna fyrir sig og fór í Stýrimannaskólann. Skipstjórn varð hans aðalstarf, lengst af hjá Gjögri hf. ásamt Jóhanni Adólf, bróður sínum. Síðar, er hann kom í land, vann hann sem vaktmaður við Reykjavíkurhöfn um árabil.

Hann Bubbi var ákaflega vandvirkur og mikið snyrtimenni. Það lék allt í höndum hans, hvort sem hann var að þurrka af í stofunni, vinna við trésmíðar eða búa til fisk- eða kjötbollur í eldhúsinu.

Veiðieðlið var ríkt í honum og naut hann þess að fara á rjúpnaveiðar og stunda laxveiði.

Bubbi og Lára ferðuðust mikið meðan heilsan leyfði. Fóru til Kaliforníu til að heimsækja Lilla Run., frænda okkar, og áttu þar góða daga. Dýrleg stund mun það hafa verið þegar þau fóru í Metropolitan-óperuna í New York til að hlusta á Kristján Jóhannsson, náfrænda beggja, syngja þar. Margar ferðir áttu þau á sólarstrendur, í seinni tíð.

Þau áttu langt og gott hjónaband að baki, 60 ára brúðkaupsafmæli í desember sl. Börnin þeirra, fimm talsins, eru bráðmyndarlegt og duglegt fólk. Ég og fjölskylda mín vottum öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Í dag kveðjum við Bubba hinstu kveðju.

Far vel mágur.

„...nú er söngurinn hljóður og horfinn“

Laufey Egilsdóttir.

Það stöðvar enginn tímans þunga nið. Björgvin Oddgeirsson skipstjóri frá Grenivík er allur, rúmlega 86 ára. Hann var hress í anda fram á síðasta dag, fylgdist nákvæmlega með enska boltanum og hlustaði á óperusöng. Björgvin fæddist árið 1928 á Grenivík við Eyjafjörð og var yngstur í 12 systkina hópi. Elst þeirra var Agnes, fædd 1905, og síðan röðin og stutt á milli. Faðirinn Oddgeir var þekktur aflaskipstjóri, og móðirin Aðalheiður fádæma dugmikil, fæddi og klæddi þennan stóra barnahóp. Jóhann Adolf, eldri bróðir Björgvins, hóf ungur skipstjórn. Í fiskiskúrunum var sungið við beitninguna, Aðalheiður stjórnaði raddfögrum kór afkomenda sinna og frændliðs. Þetta var á fyrra hluta 20. aldar. Sú menning ól Björgvin.

Það var stutt aftur til 19. aldarinnar. Oddgeir, faðir Björgvins, var fæddur 1880 í Saurbrúargerði í Grýtubakkahreppi. Oddgeir var af Fellsselsætt. Aðalheiður, móðir Björgvins, var Kristjánsdóttir og Lísbetar, Bessadóttur frá Skógum í Fnjóskadal, og var Lísbet systir Jóhanns Bessasonar á Skarði í Dalsmynni.

Byggð tók að myndast niðri á bakkanum við Grenivíkina og varð þar fyrstur landnemi í verðandi þéttbýli Guðmundur Sæmundsson. Hús sitt kallaði hann á Hlöðum. Það hús keyptu þau Oddgeir og Aðalheiður árið 1903 og á Hlöðum varð svo miðja stórfjölskyldunnar næstu öldina og er enn.

Hákarlaveiðunum var lokið, þær tilheyrðu 19. öldinni, við tók öflug trilluútgerð frá Grenivík næstu áratugi; mikla brimið haustið 1934 kostaði eyðileggingu; kreppuárin stóðu fjórða áratuginn; 1939 skall á heimsstyrjöld, herstöð var á Grenivík; tundurduflagirðing lá þvert um Eyjafjörð. Strax eftir stríð gangast þeir fyrir stofnun útgerðarfélags þeir frændur Þorbjörn Áskelsson útgerðarmaður og Jóhann Adolf Oddgeirsson. Við það verða þáttaskil í atvinnulífi Grenivíkur. Fyrirtækið Gjögur starfar enn og er kjölfesta byggðarlagsins.

Á skipum Gjögurs voru við stjórnvöl ýmsir afkomendur Oddgeirs og Aðalheiðar, lengst allra Jóhann Adolf (Addi) og Björgvin löngum við hlið honum sem stýrimaður, en með skipið stundum. Öruggir menn. Og næsta kynslóð: til skipstjórnar komu synir Adda, Oddgeir og Guðjón; Bragi sonur Björgvins og Láru Egilsdóttur er skipstjóri á Goðafossi. Þetta fer í genin, vissulega. Flestallir sjómenn frá Grenivík eru komnir af Lísbetu Bessadóttur.

Genin báru með sér ötulleik og verkhyggni og ást á söng og fágæt raddgæði; þau gen hlaut Björgvin óskipt, meðal annars gullfallega tenórrödd. Sonur Agnesar Oddgeirsdóttur, Magnús Jónsson, systursonur Björgvins og jafnaldri og nánasti vinur, var lengi aðaltenór Konunglegu dönsku óperunnar. Hákon Oddgeirsson söng mikið með Íslensku óperunni á fyrstu árum hennar. Fanney systir Björgvins fæddi af sér söngvarann Kristján Jóhannsson.

Á sínum tíma beindu örlög Björgvini í Stýrimannaskólann. Sterkbyggður maður mætir örlögum sínum enn. Við sem lifum heyrum tímans þunga nið.

Valgarður Egilsson.

HINSTA KVEÐJA
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Með þessari bæn vil ég kveðja þig, elsku Bubbi.
Ég trúi því og veit að þú fylgist áfram með enska boltanum og fagnar hverju skoruðu marki þinna manna, Man. Utd., svo undir tekur í himnasölum. Takk fyrir allt.
Þín tengdadóttir,
Kristín.
Hvað er að vera afi?
Afi er tryggur og góður
í öllu sem hann segir og gerir.
Hann tekur þig með til fortíðar
á lífsins gömlu stígum.

Hann hvetur þig áfram og styður
á sinn einstaka máta
og fær fram hlátur
þó þig langi til að gráta.

Afi er þekking og reynsla
sem á sér engan líkan.
Afi er sjálfur kóngurinn
í okkar barndóms ríki.
Hvíldu í friði, elsku afi.
Sunna og
Eiríkur (Eiki).