Í Grafarvogi
Andri Yrkill Valsson
yrkill@mbl.is
Fjölnismenn lýstu jafntefli sínu við Fylki á heimavelli sínum sem tveimur töpuðum stigum, en liðin skildu jöfn, 1:1, þegar þau mættust í 2. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Það má líka vel taka undir þær staðhæfingar, þar sem Fylkismenn virtust fjarri því að fá nokkuð út úr leiknum þangað til þeir jöfnuðu eftir fast leikatriði á lokamínútu leiksins. Annað jafntefli þeirra í jafnmörgum leikjum staðreynd.
Þrátt fyrir svekkelsið mega Fjölnismenn þó ekki gleyma því að það þarf að spila leiki til enda og þeir geta sjálfum sér um kennt að hafa ekki fyrir löngu gert út um leikinn. Þeir hefðu hæglega getað skorað tvö ef ekki þrjú mörk áður en þeir fengu jöfnunarmarkið í andlitið í blálokin og horfðu á eftir tveimur stigum yfirgefa Grafarvoginn með geislum kvöldsólarinnar sem skein skært í gærkvöldi.
Þeir gulklæddu voru raunar mjög skipulagðir í sínum aðgerðum lengst af, ef frá eru taldar fyrstu og síðustu mínútur leiksins. Þeir spiluðu boltanum á tíðum vel á milli sín, ógnuðu mikið eftir spretti upp kantana og voru hreinlega klaufar að skora ekki fleiri. Aftasta línan átti ekki í vandræðum með háspyrnusendingar Fylkismanna sem gaf þeim færi á ótal skyndisóknum í kjölfarið. Þar nýttust öskufljótir kantspilarar liðsins vel og Þórir Guðjónsson var vinnusamur sem fyrr í fremstu víglínu.
Fylkismenn aftur á móti voru lítið sem ekkert ógnandi þrátt fyrir að halda boltanum oft ágætlega á miðjunni. Þegar átti að skapa sér eitthvað úr því var lítið að frétta og einna helst úr föstum leikatriðum sem eitthvað gerðist, og kom markið einmitt úr einu slíku. Nánast einu raunverulegu hætturnar sem sköpuðust í vítateig Fjölnis í leiknum komu hins vegar eftir innköst Stefáns Ragnars Guðlaugssonar sem grýtti blöðrunni lengst inn á markteig hvað eftir annað. Uppspil þeirra var hins vegar ekki upp á marga fiska og eins skæðir sóknarmenn og Ingimundur og Albert höfðu ekki úr miklu að moða. Fylkismenn fóru því töluvert sáttari af velli úr því sem komið var, en Fjölnismenn geta verið svekktir.
1:1 Tonci Radovinkovic 90. skallaði aukaspyrnu Andrésar Más í netið á lokamínútunni.
Gul spjöld:
Rauð spjöld:
M
Bergsveinn Ólafsson (Fjölni)
Emil Pálsson (Fjölni)
Daniel Ivanovski (Fjölni)
Þórir Guðjónsson (Fjölni)
Ásgeir Börkur Ásgeirsson (Fylki)
Kristján Hauksson (Fylki)
Stefán Ragnar Guðlaugsson (Fylki)
Fjölnir – Fylkir 1:1
Fjölnisvöllur, Pepsi-deild karla, 2. umferð, mánudag 11. maí 2015.Skilyrði : Glampandi sól og léttur andvari á annað markið. Völlurinn fínn.
Skot : Fjölnir 13 (5) – Fylkir 8 (3).
Horn : Fjölnir 4 – Fylkir 4.
Lið Fjölnis: (4-5-1) Mark: Steinar Örn Gunnarsson. Vörn: Daniel Ivanovski, Bergsveinn Ólafsson, Atli Þorbergsson, Viðar A. Jónsson. Miðja: Ragnar Leósson (Gunnar M. Guðmundsson 60), Guðmundur K. Guðmundsson (Guðmundur B. Guðjónsson 90), Ólafur P. Snorrason, Emil Pálsson, Aron Sigurðarson (Arnór E. Ólafsson 82). Sókn: Þórir Guðjónsson.
Lið Fylkis: (4-3-3) Mark: Bjarni Þ. Halldórsson. Vörn: Stefán Guðlaugsson, Tonci Radovnikovic, Kristján Hauksson, Ásgeir Eyþórsson. Miðja: Oddur I. Guðmundsson (Andrés Jóhannesson 65), Jóhannes K. Guðjónsson, Ásgeir B. Ásgeirsson. Sókn: Albert B. Ingason, Davíð Einarsson (Ásgeir Arnþórsson 65), Ingimundur N. Óskarsson (Kolbeinn Finnsson 83).
Dómari : Vilhjálmur A. Þórarinss. – 7.
Áhorfendur : 1.114.