[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Nokkur sveitarfélög á landinu, m.a. þau stærstu, hafa undanfarin 10-15 ár stutt ófaglært starfsfólk leikskóla til náms í leikskólakennarafræðum. Stuðningurinn felst t.d.

Sviðsljós

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Nokkur sveitarfélög á landinu, m.a. þau stærstu, hafa undanfarin 10-15 ár stutt ófaglært starfsfólk leikskóla til náms í leikskólakennarafræðum. Stuðningurinn felst t.d. í því að geta stundað nám á vinnutíma. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur hvatt önnur sveitarfélög til að fylgja þessu fordæmi og þessi stuðningur er talinn ein ástæða þess að nýnemar í leikskólakennarafræðum við Háskóla Íslands voru nokkru fleiri í vetur en undanfarin ár. Enn skortir þó töluvert upp á að opinbert viðmið um að 2/3 leikskólastarfsmanna skuli vera leikskólakennarar náist.

„Þessi stuðningur sveitarfélaganna er algerlega valkvæður, en mörg þeirra hafa sýnt mikinn metnað á þessu sviði,“ segir Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann segir ekki hafa verið tekið saman hversu margir ófaglærðir leikskólastarfsmenn hafa nýtt sér þennan kost, en ekki sé ólíklegt að þeir séu nokkur hundruð.

Góðar atvinnuhorfur

Að sögn Guðjóns er stuðningurinn stundum skilyrtur þannig að sá sem hann fær skuldbindur sig til að vinna á leikskóla í sveitarfélaginu í einhvern tíma. „Styrkurinn er þá veittur með tilteknum skilyrðum og felur í sér ávinning fyrir báða; vinnuveitandi styður starfsmanninn til náms og starfsmaðurinn starfar hjá honum í tiltekinn tíma. Það væri varla skynsamlegt fyrir sveitarfélag að verja fjármunum sínum í að styrkja starfsmann til náms sem fer síðan að gera eitthvað annað.“

Guðjón segir mikilvægt að fjölga leikskólakennurum og þótt aðsókn í námið hafi aukist á milli ára sé hún enn lítil. „Það er áhugavert í því ljósi að atvinnuhorfur þeirra sem útskrifast úr þessu námi eru líklega betri en hjá öllu öðru háskólafólki.“

Í ár stunda 42 nám í leikskólakennarafræðum á fyrsta ári við Háskóla Íslands. Það er nokkur aukning frá fyrri árum og Arna H. Jónsdóttir, formaður námsbrautar í leikskólakennarafræðum á menntavísindasviði Háskóla Íslands, segir nokkurn hluta þeirra nemenda stunda námið með stuðningi sveitarfélags síns. „Við höfum oft gert átak til að efla stéttina og fjölga fólki í náminu. Það hefur skilað aukinni umræðu um starfið, en það er erfitt að segja til um hvort það hefur skilað fleiri umsækjendum. Sum sveitarfélög hafa veitt þennan stuðning í nokkur ár og þetta virðist vera raunhæf leið,“ segir Arna.

Starfið krefst þekkingar

Spurð hversu margir sé vonast til að bætist í hóp leikskólakennara með þessum hætti segir Arna erfitt að nefna tölur í því sambandi. „Við þurfum lengri tíma til að sjá hverju þetta skilar. En ég finn fyrir auknum áhuga á náminu vegna þessa.“ Karlar eru um 6% starfsmanna leikskólanna og Arna segir að stuðningur sveitarfélaganna hafi þegar orðið til þess að nokkrir karlar hafi sótt um í námið.

Arna segir að ein ástæðan fyrir því að fáir læri til leikskólakennara séu landlæg viðhorf um að allir geti unnið í leikskóla og það þurfi ekki menntun til. Hún segist skynja að þau viðhorf séu á undanhaldi „Þetta starf krefst þekkingar og tiltekinna viðhorfa til barna. Það geta ekki allir unnið við þetta, ekki frekar en nokkurt annað starf.“

Er 1/3 en á að vera 2/3

Leikskólastigið hefur lengi verið eina skólastigið á landinu sem líður fyrir kennaraskort, en talsvert færri mennta sig sem kennara í leikskólum en til að kenna á grunn- eða framhaldsskólastigi. Samkvæmt svokallaðri mönnunarreglu í lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda skulu að lágmarki 2/3 stöðugilda á leikskólum vera stöðugildi leikskólakennara, en heimilt er að ráða ófaglærða fáist ekki fagfólk.

Aldrei hefur tekist að framfylgja þessari mönnunarreglu, en af þeim 5.826 sem störfuðu á leikskólum landsins árið 2013 voru 1.960 leikskólakennarar, eða tæp 34%. Hlutfallið var reyndar mishátt eftir landshlutum. Lægst var það í Reykjavík, þar sem 27,7% starfsmanna leikskólanna voru með leikskólakennaramenntun. Hæsta hlutfallið var á Norðurlandi eystra, 42,6%, og næsthæst á Vesturlandi þar sem það var 38,6%. Á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur var það 38,4%.

Stuðningur til náms
» Núna stunda 25 ófaglærðir starfsmenn á leikskólum Kópavogs nám í leikskólakennarafræðum með stuðningi bæjarins.
» 13 starfsmenn á leikskólum sveitarfélagsins Ölfuss hafa lokið leikskólakennaranámi frá aldamótum með stuðningi sveitarfélagsins.
» Hafnarfjarðarbær ver 10 milljónum í þetta verkefni í ár og 20 milljónum á næsta ári.
» Í Reykjavík er stefnt að því að styrkja 36-40 ófaglærða leikskólastarfsmenn til leikskólakennaranáms í ár.