Kristján Jónsson kjon@mbl.is Loft er nú lævi blandið í Makedóníu en þar féllu alls 22 í átökum milli herskárra Albana og vopnaðra lögreglumanna í borginni Kumanovo á laugardag. Mikið tjón varð á sumum byggingum og skelfing greip um sig meðal íbúanna.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Loft er nú lævi blandið í Makedóníu en þar féllu alls 22 í átökum milli herskárra Albana og vopnaðra lögreglumanna í borginni Kumanovo á laugardag. Mikið tjón varð á sumum byggingum og skelfing greip um sig meðal íbúanna. Fyrir 14 árum reyndu albanskir uppreisnarmenn að leggja undir sig héruð albönskumælandi fólks í landinu og lá þá við borgarastríði. Saminn var friður en hann hefur verið ótryggur.

Makedónía hefur sótt um aðild að bæði Atlantshafsbandalaginu, NATO, og Evrópusambandinu. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði að vitað hefði verið lengi að ólga væri á svæðinu og hvatti hann til þess að menn reyndu að forðast að gera illt verra, það væri „í þágu hagsmuna landsins og alls svæðisins“. Nú væri mikilvægt að fá á hreint hver bakgrunnur átakanna væri og hvers vegna þau hefðu brotist út, sagði hann.

Átta lögreglumenn voru meðal hinna föllnu, hátt í 40 að auki særðust. Sumir árásarmannanna gáfust upp og mikið af vopnum var sagt hafa verið gert upptækt. Stjórnvöld sögðu að „hryðjuverkamennirnir“ hefðu verið um 30. Leiðtogar þeirra hefðu verið fimm fyrrverandi liðsmenn Frelsishers Kosovo, hóps sem barðist á sínum tíma fyrir sjálfstæði Kosovo frá Serbíu en var síðar leystur upp. Þorri íbúa Kosovo er albönskumælandi.

Fyrir nokkrum vikum lögðu um 40 Kosovo-Albanar um hríð undir sig lögreglustöð í Makedóníu og kröfðust þess að stofnað yrði sérstakt ríki Albana í Makedóníu. Forseti Makedóníu, Gjorge Ivanov, hefur kallað öryggisrráð landsins saman og verða þar m.a. fulltrúar flokka albanska þjóðarbrotsins.

Stórt þjóðarbrot
» Kumanovo er nokkra kílómetra norðan við höfuðborgina Skopje.
» Um tvær milljónir manna búa í Makedóníu, sem fram á tíund áratuginn var hluti gömlu Júgóslavíu. Þar af er um hálf milljón albönskumælandi múslíma.