[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Hjúkrunarfræðingar fara fram á um 66 þúsund króna hækkun daglauna á mánuði, miðað við 15% hækkun, eins og sýnt er hér til hliðar.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hjúkrunarfræðingar fara fram á um 66 þúsund króna hækkun daglauna á mánuði, miðað við 15% hækkun, eins og sýnt er hér til hliðar. Þetta má ráða af svörum Ólafs Guðbjörns Skúlasonar, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, FÍH, sem telur að sínir félagsmenn eigi að fá sömu dagvinnulaun og viðmiðunarstéttir, sem hafi 14-25% hærri laun. Dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga séu að meðaltali um 440 þúsund. „Hitt er óþægindaálag. Það er peningurinn sem við fáum fyrir að vinna kvöld, nætur og helgar og páska, þegar aðrir eru í fríi að sinna sínum áhugamálum og fjölskyldu. Það ber líka að hafa í huga að þetta eru meðallaun allra hjúkrunarfræðinga. Meðalaldur í stéttinni er um 48 ár. flestir hjúkrunarfræðingar eru því með margra ára reynslu. Byrjunarlaunin eru 304 til 311 þúsund.“

Fer eftir vaktabyrðinni

Félagsmenn í FÍH hafa samþykkt verkfallsboðun. 76,28% félagsmanna tóku þátt í atkvæðagreiðslu og voru 90,65% fylgjandi verkfallsboðun. Hafi samningar ekki tekist á miðnætti 27. maí nk. hefst ótímabundið verkfall rúmlega tvö þúsund hjúkrunarfræðinga. Að sögn formanns FÍH eru aðeins nokkrir tugir hjúkrunarfræðinga utan félagsins.

Spurður um heildarlaun hjúkrunarfræðinga segir Ólafur Guðbjörn erfitt að segja til um það. „Það fer eftir vaktabyrðinni. Byrjendur eru kannski að fá útborgað 230 þúsund krónur fyrir 100% vinnu, samkvæmt því sem ég heyri frá okkar yngstu félagsmönnum.“

Spurður um launabreytingar hjúkrunarfræðinga á síðustu árum segir Ólafur Guðbjörn að þeir hafi eins og aðrar stéttir fengið 2,8% launahækkun 1. febrúar í fyrra. „Við gerðum árs samning eins og flestir aðrir,“ segir Ólafur Guðbjörn og tekur annað dæmi af launabreytingum. „Svo sögðu hjúkrunarfræðingar upp á Landspítalanum 2013. Það var ekki á vegum félagsins, heldur sagði hver og einn upp. Það var upphaf á jafnlaunaátaki. Það skilaði sér í ákveðinni launahækkun. Séu laun hjúkrunarfræðinga borin saman við sambærilegar stéttir hefur átakið ekki haft nein áhrif á niðurstöðuna. Það munar enn jafnmiklu á okkur og hinum stéttunum. Jafnlaunaátak sem átti að bæta laun hefðbundinna kvennastétta hefur því haft lítil áhrif,“ segir Ólafur Guðbjörn og svarar því aðspurður til að hjúkrunarfræðingar „hafi miðað sig við viðskipta- og hagfræðinga, tæknifræðinga, háskólamenntaða starfsmenn stjórnarráðsins og svo félagsmenn í BHM í heildina“.

Óánægja með vinnutímann

Spurður um rökin fyrir launakröfunum vísar hann á vinnutíma.

„Rökin eru þau – og þá er ég að ræða um dagvinnulaunin – að þjónustan hefur breyst mikið undanfarin ár. Sólarhringsdeildum hefur fækkað og það er búið að fjölga dag- og göngudeildum. Það er orðið þannig að helmingur okkar félagsmanna eru orðnir dagvinnumenn. Okkar rök eru þau að fólk á að hafa sómasamleg dagvinnulaun. Hitt er óþægindaálag. Þess vegna viljum við semja um dagvinnulaun.

Þróunin í heilbrigðisþjónustu víðsvegar um heiminn hefur verið þannig undanfarin ár að þunginn er að færast yfir á dagvinnuna. En vissulega er eðli starfsins þannig að hluti stéttarinnar mun alltaf þurfa að vinna allan sólarhringinn.“

Spurður um launakröfurnar segir hann trúnað gilda um þær.

„Við höfum ekki gefið upp prósentutöluna okkar. Við segjum að það sé launamunur á milli okkar og annarra háskólamenntaðra stétta og það bil þarf að brúa. Svo þarf að tryggja að við drögumst ekki aftur úr eftir að aðrir semja. Hér er ég að vísa til sömu aðila og ég gat um áðan; viðskiptafræðinga, hagfræðinga, tæknifræðinga, háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins og meðallauna hjá félagsmönnum í BHM,“ segir Ólafur Guðbjörn.

Að hans sögn eru félagsmenn í BHM með 14% hærri dagvinnulaun en hjúkrunarfræðingar, viðskipta- og hagfræðingar með 18-20% hærri dagvinnulaun og tæknifræðingar og verkfræðingar með um 25% hærri dagvinnulaun. „Það sem eftir stendur er að hefðbundnar kvennastéttir eru lægra launaðar en hefðbundnar karlastéttir. Það er eitthvað sem við getum ekki lengur unað.“

Fara að siðareglum í verkfalli

Spurður hvort til greina komi að veita undanþágur frá verkfallinu ef velferð sjúklinga stafar ógn af aðgerðunum segir Ólafur Guðbjörn að hjúkrunarfræðingar starfi eftir svonefndum öryggislistum.

„Það er alltaf ákveðin lágmarksmönnun sem á að vera til staðar. Öryggislistarnir eru settir með það að markmiði að veita lífsnauðsynlega þjónustu. Ef auka þarf mönnun vegna þess að mannslíf eru í hættu er það skoðað,“ segir Ólafur Guðbjörn sem tekur aðspurður fram að hjúkrunarfræðingar taki mið af siðareglum í aðgerðunum.

„Við vinnum hjúkrunarheit sem hjúkrunarfræðingar skrifa undir við útskrift og störfum samkvæmt siðareglum hjúkrunarfræðinga. Við höfum þær til hliðsjónar þegar við erum í verkfalli.“

Rætt hefur verið um mögulega lagasetningu á verkföll heilbrigðisstarfsfólks. Ólafur Guðbjörn segir slíkar aðgerðir ekki mundu hjálpa til í stöðunni.

„Ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs. Ég held að fólk yrði frekar ósátt ef lög yrðu sett á verkföll. Það er nær að setjast niður og reyna að leysa málin.“