Sjáðu! Það eru allir í fötum, hvíslaði vinkona mín að mér furðu lostin um síðustu helgi þegar við vorum að horfa á Skonrokk frá árinu 1985.

Sjáðu! Það eru allir í fötum, hvíslaði vinkona mín að mér furðu lostin um síðustu helgi þegar við vorum að horfa á Skonrokk frá árinu 1985. Við vorum að fagna því, ásamt skólafélögum okkar úr grunnskóla, að í ár eru 30 ár liðin frá því að við lukum grunnskóla og þótti tilvalið að horfa á Skonrokk-þátt í tilefni tímamótanna. Fyrir þá sem ekki vita var Skonrokk afar vinsæll þáttur með tónlistarmyndböndum sem RÚV sýndi á föstudagskvöldum hér í eina tíð.

Tilefni þessarar undrunar vinkonu minnar var ekki það að við séum vanar að vera umkringdar nöktu fólki, heldur að allar konurnar í tónlistarmyndböndunum árið 1985 voru fullklæddar. Þveröfugt við í dag þar sem það telst til tíðinda sé söngkona í tónlistarmyndbandi klædd í eitthvað meira en nærbuxur.

Tónlistariðnaðurinn var alveg örugglega gagnrýndur fyrir ósiðsemi, nekt og að senda röng skilaboð til óspilltra ungmenna árið 1985. En á þessum 30 árum sem liðin eru síðan þá hefur spjörum á kroppum þeirra sem koma fram í tónlistarmyndböndum heldur betur fækkað. Fyrir 20 árum eða svo hneykslaði Britney Spears heiminn með því að spóka sig um í magabol, núna þykir ekkert tiltökumál að söngkonur birtist kviknaktar í myndböndum. Hvað gerðist? Varð skyndilega gríðarleg eftirspurn eftir allsberum söngkonum? Ber þessi þróun vitni um afturför í jafnréttismálum eins og sumir segja eða er þetta kannski framför á því sviði eins og aðrir halda fram, því þarna séu konur að skilgreina sig sjálfar á eigin forsendum? Þetta sé ný bylgja femínisma.

Gott og vel. En satt best að segja liggur það ekki alveg í augum uppi hvaða framlag það er til jafnréttismála að Miley Cyrus róli sér allsber á járnkúlu eða að klæðlitlar Rihanna og Shakira velti sér um uppi í rúmi í tónlistarmyndbandi.

Þetta einskorðast reyndar ekki við tónlistarheiminn, t.d. sækir Listahátíð heim hópur listakvenna sem kalla sig Guerilla Girls, sem benda á misrétti karla og kvenna í ýmsum listgreinum. „Þurfa konur að vera allsberar til að komast inn á listasöfn?“ spyrja þær og gagnrýna þannig að verk kvenna eru miklu sjaldnar á söfnum en verk karla.

Kynlíf selur eða Sex sells er gamall og mikið notaður frasi sem er gjarnan notaður þegar þagga á niður í þeim sem gagnrýna klæðleysi poppstjarna. Trúi einhver því í raun og veru að þannig megi réttlæta nekt kvenna í tónlistarmyndböndum hlýtur sá hinn sami jafnframt að telja viðeigandi að nota kynferðislegar tilvísanir til að koma hverju sem er á framfæri, til dæmis í kosningabaráttu. Hvað þætti fólki annars um það ef stjórnmálaflokkarnir nýttu sér hugmyndafræði tónlistarheimsins til að koma stefnumálum sínum á framfæri? Væri ekki eitthvað rangt við kosningaauglýsingar sem sýndu fáklædda stjórnmálamenn í eggjandi stellingum? Sé svarið já, er þá ekki líka eitthvað rangt við allsberar söngkonur? annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir