Greinarhöfundur er ekki ánægður með bréf sem honum barst um kosningu.
Greinarhöfundur er ekki ánægður með bréf sem honum barst um kosningu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristin Karl Brynjarsson: "Það er mín skoðun og eflaust allra er trúa á og virða sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, að eina ábyrga afstaðan í kosningum..."

Ég er félagi í Verkalýðsfélaginu Eflingu. Í gær barst inn um póstlúguna hjá mér bréf frá Eflingu með atkvæðaseðli vegna kosninga um boðun verkfalls.

Með atkvæðaseðlinum í umslaginu var svo pési, á íslensku, ensku og pólsku, undirritaður af formanni Eflingar, Sigurði Bessasyni, þar sem kröfur félagsins eru reifaðar og fleira því tengt.

Allt getur það alveg talist eðlilegt og í raun nauðsynlegt svo fólk eigi auðveldara með að taka upplýsta ákvörðun í kosningunum. Samkvæmt sinni eigin sannfæringu.

Hins vegar mislíkar mér það ákaflega að í bæklinginn er ritað stórum stöfum: „Sýnum ábyrga afstöðu greiðum akvæði um verkfallsboðun. Segjum X Já/Yes/Tak.“

Það er engan veginn hlutverk Sigurðar Bessasonar eða annarra í forystu Eflingar að segja öðrum félagsmönnum sínum með hvaða hætti þeir skuli greiða sitt atkvæði. Enda má auðveldlega líkja slíku við áróður á kjörstað. En alla jafna er afar hart tekið á slíku í almennum kosningum.

Það er mín skoðun og eflaust allra er trúa á og virða sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, að eina ábyrga afstaðan í kosningum, sama um hvað er kosið, sé að greiða atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu. En ekki eftir leiðbeiningum annarra.

Höfundur er félagi í Verkalýðsfélaginu Eflingu.

Höf.: Kristin Karl Brynjarsson