Yfirheyrslutækni Lögreglumenn sýna góða hæfni í einfaldari þáttum skýrslutaka en ekki nægjanlega góða hæfni í flóknari þáttum.
Yfirheyrslutækni Lögreglumenn sýna góða hæfni í einfaldari þáttum skýrslutaka en ekki nægjanlega góða hæfni í flóknari þáttum. — Morgunblaðið/Malín Brand
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Malín Brand malin@mbl.is Víðast hvar í veröldinni má gera betur þegar kemur að skýrslutöku lögreglu og rannsakenda í hinum ýmsu málum.

Malín Brand

malin@mbl.is

Víðast hvar í veröldinni má gera betur þegar kemur að skýrslutöku lögreglu og rannsakenda í hinum ýmsu málum. Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Becky Milne, dósents í réttarsálfræði við háskólann í Portsmouth en hún var stödd hér á landi í síðasta mánuði og flutti erindi um yfirheyrslutækni, eða tækni við skýrslutökur, eins og réttara er að kalla það.

Tilefnið var ráðstefna lögreglunnar um skýrslutökur og sóttu hana yfir eitt hundrað rannsóknarlögreglumenn og stjórnendur lögregluliða.

Hér á landi hefur verið stofnað sérstakt fagráð um skýrslutökur og er markmið þess ráðs að móta stefnu um hvernig skýrslutöku skuli háttað og að einhver innan löggæslunnar hafi umboð til að mæla fyrir um þjálfun í skýrslutökum. Það er þó ekki svo að skilja að ekki hafi farið fram einhver þjálfun hjá lögreglunni hér á landi því hundruð lögreglumanna hafa fengið þjálfun þó að stefnan hafi ekki verið fullmótuð. Þess ber einnig að geta að frá því mælt var fyrir um í lögum að taka skuli upp skýrslur (hljóð- eða myndbandsupptökur) hefur verið í gangi átaksverkefni í þjálfun í Lögregluskóla ríkisins fyrir rannsakendur auk námskeiða ætluð öðrum lögreglumönnum. Einnig hafa verið námskeið fyrir þá sem rannsaka tilteknar gerðir mála, t.d. fyrir þá sem rannsaka kynferðisbrot sérstaklega. Stór hluti lögreglumanna og nemendur í grunnnámi lögregluskólans hafa með þeim hætti fengið innsýn í þá aðferðafræði sem slík vinnubrögð kalla á.

Umgjörð um fræðin

Unnið verður að því að móta stefnuna við skýrslutökur og verður það eitt stærsta verkefni fagráðsins. Eins og fram kom hér að ofan er ekki til það lögregluembætti, að sögn Milne, þar sem skýrslutaka er hnökralaus frá upphafi til enda. Tildrög þeirrar umræðu voru annað erindi sem flutt var á ráðstefnunni en í því greindi rannsóknarlögreglumaðurinn Eiríkur Valberg frá niðurstöðum rannsóknar, sem hann gerði á gæðum og framkvæmd skýrslutaka á Íslandi. Rannsóknin var hluti af FdA-gráðu í rannsóknum sakamála og vann Eiríkur hana ásamt Milne. Eiríkur er að ljúka BSc-námi í lögreglufræðum og sakamálarannsóknum við háskólann í Portsmouth.

Í náminu hefur rík áhersla verið lögð á fræðin sjálf að baki skýrslutökum og hefur verið notast við svokallað PEACE-módel (e. Preparation and Planning, Engage and Explain, Account, Clarify and Challenge, Closure, Evaluation) sem lögreglan í Bretlandi notast meðal annars við. Þegar talað er um að byggt sé á PEACE er átt við umgjörð utan um skýrslutökur en ekki eiginlega aðferð.

Framkvæmd rannsóknarinnar

Í rannsókninni var mat lagt á þrjátíu skýrslutökur frá íslenskum rannsakendum. Um var að ræða fjármunabrot, fíkniefnabrot og kynferðisbrot og var meðallengd hverrar skýrslutöku 45 mínútur. Eiríkur greindi frá hvaða þættir eru líklegir til að skýrslutaka geti talist árangursrík og hverjir ekki. Spurningatækni skiptir þar miklu máli og er byggt á því að til séu annars vegar viðeigandi spurningar og hins vegar óviðeigandi spurningar.

„Viðeigandi spurningar eru opnar og miklu máli skiptir hvenær og í hvaða röð þær eru bornar fram,“ útskýrði Eiríkur. „Hv-spurningar“ eru til að mynda taldar einkar óviðeigandi í upphafi skýrslutöku og eru skoðanir rannsóknarfólks taldar óviðeigandi við skýrslutöku.

Þá er það stóra spurningin um hvernig íslenskum lögreglumönnum hafi tekist upp sé miðað við þær þrjátíu skýrslur sem hafðar voru til hliðsjónar. Jú, í niðurstöðum greindi Eiríkur meðal annars frá því að áberandi fáar opnar spurningar hefðu verið notaðar og að sennilega væri of stuttum tíma varið í verklegar æfingar.

„Lögreglumenn sýna góða hæfni í einfaldari þáttum skýrslutaka en ekki nægjanlega góða hæfni í flóknari þáttum. Það vantar ítarlegri frásagnir og dýpri framburði með ítarlegri upplýsingum,“ sagði Eiríkur. Ekki var það áfellisdómur yfir íslensku lögreglunni en samkvæmt þessu má bæta úr ýmsu, rétt eins og til stendur með tilkomu fagráðsins.

Eiríkur Valberg lauk máli sínu með nokkrum tillögum til úrbóta.

„Lögreglan á Íslandi ætti að innleiða viðurkennt skýrslutökukerfi að fullu og bæta þyrfti við það kennsluefni sem notast er við og nýta erlend kennsluhefti líka. Auka mætti tíma sem varið er í æfingar á námskeiðum í skýrslutöku og þátttakendur á hverju námskeiði mættu vera færri, auk þess sem þjálfun gæti farið fram árlega,“ sagði Eiríkur að lokum.

Þeir sem vilja kynna sér PEACE-umgjörðina nánar geta til dæmis slegið inn „peace model interviewing“ í leitarvélar á vefnum og fundið þannig fjölda rannsókna og fróðlegra greina.