Víðförlir Félagarnir í svartmálmshljómsveitinni Dynfara.
Víðförlir Félagarnir í svartmálmshljómsveitinni Dynfara.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svartmálmshljómsveitin Dynfari gaf nýlega út sína þriðju breiðskífu, Vegferð tímans , sem hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda í málmheiminum erlendis.

Svartmálmshljómsveitin Dynfari gaf nýlega út sína þriðju breiðskífu, Vegferð tímans , sem hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda í málmheiminum erlendis. Platan er gefin út af ítalska plötufyrirtækinu Aural Music, sem einnig gaf út síðustu plötu sveitarinnar, Sem skugginn .

Að sögn söngvara sveitarinnar, Jóhanns Arnar Sigurjónssonar, eru lögin afar ljóðræn. ,,Stór hluti af okkar útgáfu eru ljóðin og ég lít ekki síður á verk okkar sem bókmenntaverk en tónverk. Ljóðin eru samin algjörlega óháð tónlistinni og ég legg mikla áherslu á að textinn sé greinilegur í söngnum.“ Jóhann syngur öll lögin á plötunni en Karen Ýr Bragadóttir syngur með honum í laginu „Vegferð II – Ad Astra.“

Hljómsveitina skipa, ásamt Jóhanni Erni, þeir Jón Emil Björnsson, Hjálmar Gylfason á bassa og Bragi Knútsson á gítar. Upphaflega voru aðeins Jóhann Örn og Jón Emil í sveitinni og þeir gerðu allar þrjár plötur sveitarinnar einir síns liðs. Þeir þurftu því að fylla í ansi mörg skörð. Jóhann Örn spilaði þannig á gítar, bassa, hljómborð og harmónikku auk þess að sjá um söng og textagerð. Jón Emil spilaði hins vegar á trommur, grítar, bassa og harmóníum. Þeir hafa spilað saman frá árinu 2010 en Hjálmar og Bragi bættust við í fyrra.

40 tónleikar á átta vikum

Fyrsta plata sveitarinnar, Dynfari , kom út í aðeins 50 eintökum. Þegar sveitin vann að seinni breiðskífu sinni, Sem skugginn, sendi Jóhann Örn efni á nokkur plötuútgáfufyrirtæki erlendis. Eitt þeirra fyrirtækja sem gerðu sveitinni tilboð var Aural Music, sem sveitin gekk til samninga við árið 2012. Síðan þá hefur samningurinn verið endurnýjaður og stendur til ársins 2016.

Meðlimir sveitarinnar eru nú að undirbúa umfangsmikla tónleikaferð í haust um Bandaríkin og Kanada. Sú ferð er ekki sú fyrsta en sveitin fór í 12 daga tónleikaferð í fyrra þar sem hún spilaði á 12 stöðum í sex löndum. Tónleikaferðin í haust stendur yfir í september og október en tónleikarnir verða 35-40 talsins. ,,Við förum yfir gjörvöll Bandaríkin og spilum í tuttugu ríkjum, á austur- og vesturströndinni sem og í miðríkjunum. Þá spilum við einnig í sjö fylkjum Kanada. Þetta er langsamlega það stærsta sem við höfum gert og verður örugglega afskaplega skemmtilegt,“ segir Jóhann Örn.

Spila með Negura Bunget

Dynfari spilar vestanhafs með rúmensku málmhljómsveitinni Negura Bunget sem er allþekkt í Austur-Evrópu. ,,Við komumst í sambandi við þá í gegnum plötufyrirtækið okkar því þeir gáfu út nokkrar plötur þar á árum áður. Þeir voru að leita sér að hljómsveit til að spila með og við gátum hreinlega ekki sagt nei,“ segir Jóhann og bætir við að tónleikaröðinni ljúki á Íslandi í október. ,,Við tökum Negura Bundet með okkur til Íslands og endum ferðina þar. Þá fáum við loksins að sofa.“

Útgáfutónleikar Dynfara vegna útgáfu Vegferðar tímans verða haldnir á morgun, 16. maí, á Gauknum í Reykjavík kl. 22. Þar mun sveitin Draugasól einnig stíga á stokk. brynja@mbl.is