Gunnlaugur fæddist á Hofteigi, Vesturgötu 23, Akranesi 4. desember 1932. Hann lést á Haugeland sykehus í Bergen í Noregi 8. apríl 2015.

Foreldrar hans voru Friðmey Guðmundsdóttir, f. 15.2. 1908, d. 26.7. 1965, og Magnús Gunnlaugsson, f. 25.8. 1893, d. 15.1. 1970. Systkini Gunnlaugs: Inga Guðmunda, f. 1933, tvíburarnir Anna Ósk, f. 23.3. 1935, d. 15.6. 1935, og Erla Von, f. 23.3. 1935, d. 22.6. 1935, Anna Erla, f. 1937, Baldur Ármann, f. 1944, og Leifur Helgi, f. 1947.

Eiginkona Gunnlaugs er Selma Anette Sörensen, f. 13.6. 1929, frá Balsfjord/Tromsö í Noregi. Foreldrar hennar voru Kristian Sörensen og Agna Hansen. Börn Gunnlaugs og Selmu eru: 1) Magnús, f. 28.5. 1953, d. 23.9. 1988, eiginkona hans var Anna Magnadóttir. Börn þeirra: Róbert, Ingvar og Elísabet. 2) Gunnlaugur, f. 28.5. 1953, eiginkona Margunn Weiberg Gunnlaugsson. Börn þeirra: Trine, Maríus og Birthe. 3) Ari Rúnar, f. 13.12. 1955, eiginkona Turid Gunnlaugsson. Börn þeirra: Tómas og Trude. 4) Björg Elín Liland, f. 5.5. 1961, eiginmaður Kjell Liland. Börn þeirra: Kenneth André, Mariann og Belinda. Barnabarnabörnin eru 16.

Gunnlaugur ólst upp á Vesturgötu 25 á Akranesi og stundaði nám við Barnaskóla Akraness. Hann byrjaði ungur að vinna við fyrirtæki foreldra sinna, Bifreiðastöð Magnúsar Gunnlaugssonar, sem var við Vesturgötu 25. Hann vann hjá Akranesbæ á vinnuvélum bæjarins ásamt öðru tilfallandi. Stundaði sjómennsku, meðal annars á Sigurði AK 107, Sólfara og Höfrungi III. 1966 fer hann að vinna við eftirlits- og viðhaldsstörf á stórum byggingarkrönum við Búrfellsvirkjun þar til hann flytur til Noregs haustið 1971 með fjölskyldu sinni. Er til Noregs kemur fær hann strax vinnu hjá stóru byggingarfyrirtæki, Arne Sande, sem kranastjóri. Var hann sá fyrsti í Noregi sem hafði gilt skírteini til að stjórna stórum byggingarkrönum. Þar vann hann til ársins 1991. Síðan vann hann hjá Hansa Bryggeri þar til hann fór á eftirlaun 1999.

Minningarathöfn verður í Akraneskirkju í dag, 15. maí 2015, kl. 14.

Þó þú langförull legðir

sérhvert land undir fót,

bera hugur og hjarta

samt þíns heimalands mót.

(Stephan G. Stephansson)

Þessar ljóðlínur koma upp í hugann þegar við kveðjum ástkæran bróður og mág, Gunnlaug Magnússon, sem hefur lokið sinni jarðvist eftir stutta baráttu við krabbamein. Hann lést 8. apríl sl. á Haugeland-sjúkrahúsinu í Bergen á sama tíma og vorsólin tók völdin á landinu okkar, landinu sem hann elskaði og dáði. Laui, eins og við fólkið hans kölluðum hann, fluttist með fjölskyldu sinni til Noregs 1971 og hefur hann og öll hans fjölskylda búið þar síðan.

Minningar streyma ósjálfrátt fram um samveruna með Lauja og fjölskyldu hans í gegnum tíðina. Heim til Íslands kom hann oftast annað hvert ár en seinni ár kom hann árlega. Margar ferðir höfum við farið saman og eigum margar dýrmætar minningar frá þeim. Ógleymanleg er ferð er við fórum ásamt frændum okkar, Inga og Didda, sumarið 2013. Þá fórum við leið sem faðir okkar bræðra fór fyrstur manna árið 1928. Farið var frá Reykjavík yfir Uxahryggi og Kaldadal til Akraness.

Laui var elstur fimm systkina og ólst upp á Vesturgötu 25 á Akranesi í faðmi náinnar fjölskyldu. Á Vesturgötu 25 var starfrækt fyrirtæki föður hans, Bifreiðarstöð Magnúsar Gunnlaugssonar, og þar þurfti hann að taka mikla ábyrgð því faðir hans fékk berkla og dvaldi langdvölum á Vífilsstöðum vegna veikinda sinna. Friðmey móðir hans og Laui unnu mikið og vel saman við rekstur fyrirtækisins.

Laui var alltaf til staðar fyrir fjölskyldu sína og aðra ættingja og vildi leysa hvers manns vanda. Hann var einstaklega vinsæll og vel liðinn maður.

Það var mikið áfall fyrir fjölskylduna þegar Magnús sonur þeirra hjóna lést í bílslysi aðeins 35 ára gamall frá eiginkonu og þremur ungum börnum.

Við kveðjum Lauja með söknuði og erum óendanlega þakklát fyrir allt það sem hann hefur gefið okkur. Hann umvafði okkur með kærleika sínum, umhyggju og ást. Í hvert sinn sem hann kom heim til Íslands bar hann með sér birtu og gleði.

Að eiga bróður og mág sem hann var mikil gæfa, fyrir það viljum við þakka. Við sendum eiginkonu og fjölskyldu samúðarkveðjur og vonum að þau finni styrk í fallegum minningum um góðan dreng.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Baldur bróðir og Ása.

Vingjarnlegur frændi með norskan hreim. Hann angar af hreinlæti, í vandlega straujuðum fötum og hárið óaðfinnanlega greitt. Svo myndarlegur að hann minnir helst á kvikmyndastjörnu frá Hollywood. Hann er góður í gegn, gefur endalaust af sér án þess að krefjast neins til baka. Þetta er sannur mannvinur sem ber virðingu fyrir öllum og sér það besta í öllum. Hann er með einstaklega smitandi hlátur og kátínan skín úr augum hans. Hann er kominn til Íslands að heimsækja ættingja sína og eins og alltaf hefur hann aðsetur heima hjá okkur fjölskyldunni á Bjarkargrund 10.

Að fá frænda í heimsókn frá Noregi var alltaf spennandi. Fyrir litlar stelpur á Skaganum sem höfðu aldrei farið til útlanda var allt hans dót svo framandi. Það var útlensk lykt af töskunum, tannkremið hans var allt öðruvísi en okkar og maður skildi ekki hvað stóð á nammipökkunum sem hann gaf okkur. Hann sýndi okkur stoltur myndir af fjölskyldunni sinni í Noregi þar sem virtist ýmist vera stöðug bongóblíða og sumarsól eða fallegur vetur með fullkomnu gönguskíðaveðri. Í okkar huga var ævintýrabragur í kringum hann. Ævintýrabragur í kringum Noreg.

Það var alltaf gaman að fá Laua í heimsókn og algjörlega áreynslulaust að vera í kringum hann. Hann fór með okkur fjölskyldunni í fjöruferðir, bar okkur krakkana á háhesti þegar við vorum þreytt að ganga milli þess sem hann stússaði með pabba okkar í húsinu eða bílnum. Hann var alltaf til í að hjálpa til. Við erum lánsamar að hafa átt svona dásamlegan frænda. Í huga okkar er þakklæti fyrir að hafa þekkt þennan mann sem gerði heiminn að betri stað. Elsku Laui, megi minning þín lifa og megum við sem þekktum þig tileinka okkur þína fallegu kosti og manngæsku.

Þínar frænkur,

Eyrún og Friðmey

Baldursdætur.

Andlát Gunnlaugs, eða Laua eins og hann var jafnan kallaður í fjölskyldunni, bar ekki brátt að enda hafði hann átt við erfið veikindi að stríða undanfarin misseri. Við minnumst hans með mikilli ást og hlýju; manns sem aldrei lagði illt til nokkurs, var ætíð tilbúinn að hjálpa, hlúa að og gera gott úr öllum hlutum.

Þegar Laui flutti til Noregs 1971 fékk hann vinnu á byggingakrana og var einn sá fyrsti þar í landi með viðurkennd kranaréttindi. Eflaust hefur verið einmanalegt hjá honum að dvelja einn í 40 metra hæð, fjarri ættjörðinni, vinum og vandamönnum. Fjölskylda Laua stækkaði óðum og var líf hans og yndi að hjálpa börnum sínum og barnabörnum að koma yfir sig þaki, steypa grunna, hlaða veggi og smíða sólpalla. Allt þetta lék í höndunum á honum, sem og bílaviðgerðirnar, enda var hann rútubílstjóri í fjölda ára og kunni ýmislegt fyrir sér í þeim efnum. Farþegar Laua minnast hans enn þótt liðin séu 50 ár síðan hann ók leiðina Akranes-Reykholt-Reykjavík.

Laui kom yfirleitt annað hvert ár til Íslands og árlega þegar hann fór á eftirlaun. Þegar von var á honum til landsins reyndum við að hafa hlutina sem mest í lagi til að hann færi nú ekki að eyða fríinu sínu í að lagfæra það sem við höfðum trassað.

Laui saknaði ætíð Íslands og var hans hinsta ósk að hvíla í íslenskri mold á æskustöðvunum sínum á Akranesi.

Margir vinir og ættingjar eru farnir á undan Laua og munu án nokkurs vafa taka vel á móti honum, þessum ljúfa manni.

Hjartans þakkir fyrir samfylgdina.

Leifur Magnússon og

Guðleif Guðlaugsdóttir.

Laui kom iðulega til Íslands á hverju sumri, og það var eitthvað svo gleðilegt við það að taka á móti honum Laua okkar þegar hann kom á flugvöllinn. Svo léttur í lundu var hann, og ánægður með lífið þegar hann steig á íslenska grundu. Hann var afskaplega kurteis og mikill herramaður, alltaf snyrtilega klæddur, með greiðslu eins og Elvis. Hann gleymdi aldrei að hringja á afmælisdögum til að bera okkur góðar kveðjur, og við skulum aldrei gleyma hvernig hann lagði mikið á sig til að bjóða aðra velkomna. Það finnast ekki nógu mörg lýsingarorð sem lýsa því hversu mikill dugnaðarforkur hann Laui var. Laui var afar gestrisinn, og var alltaf tilbúinn til að ganga alla leið til að hjálpa öðrum. Hjálpsemi hans við fjölskyldu og vini einkenndist af fornfýsi – hann gerði svo margt óspurður. Hann einfaldlega elskaði að hjálpa til og sjá um fólkið sitt. Það mátti ekki henda neinu – hann vissi alltaf hvernig ætti gera við allt, og hann var alltaf til í að kíkja undir vélahúddið til að vera viss að allt væri í lagi. Hann lét sig öryggi þeirra sem hann elskaði mikið varða, og hann passaði vel upp á alla. Það fyrir finnast ekki önnur eins dæmi um greiðvikni, hjálpsemi, frumkvæði og seiglu. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar hans Laua í Noregi.

Með ást og virðingu,

Jón Bjarni og Melanie.