Benedikt Bóas benedikt@mbl.is „Það hafa verið gagnlegir vinnufundir undanfarna daga og það miðar ágætlega í þeirri vinnu en það er mikið eftir.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

„Það hafa verið gagnlegir vinnufundir undanfarna daga og það miðar ágætlega í þeirri vinnu en það er mikið eftir. Það er aftur á móti kominn aukinn kraftur í viðræðurnar sem er jákvætt,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Þorsteinn og félagar eiga fund með VR og Flóabandalaginu hjá sáttasemjara í dag.

Uppstigningardagur fór að mestu í að safna kröftum hjá helstu forkólfum kjarabaráttunnar. Dagskrá sáttasemjara er þéttskipuð sem fyrr en fyrir utan fund SA og Flóafélaganna þá er einnig fundað í dag með BHM-liðum í deilunni gegn ríkinu.

„Menn eru allavega að tala saman, sem er jákvætt,“ segir Páll Halldórsson, formaður BHM. Hann tekur undir það að viðræðurnar séu að þokast í rétta átt. „Það er aðeins bjartara yfir manni. Þangað til í byrjun þessarar viku höfðum við ekki séð nokkurn skapaðan hlut frá ríkinu.“

Félag háskólamenntaðra starfsmanna hjá Fjársýslu ríkisins fundar í dag hvort grípa eigi til frekari boðunar verkfalls. Meðal verkefna stofnunarinnar er greiðsla útsvarsstofns til sveitarfélaga. Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, segir að það geti verið dýrt fyrir sveitarfélögin að fá ekki útsvarið.

Verkföll í maí
» Félagar í BHM hafa verið í verkfalli síðan 9. apríl.
» SA settu fram hugmyndir sínar við VR og Flóabandalagið á síðasta fundi.
» Viðræður virðast vera að þokast hægt í rétta átt.