Boltabræður Guðlaugur og Ásmundur Arnarssynir stilla sér upp fyrir ljósmyndara Morgunblaðsins.
Boltabræður Guðlaugur og Ásmundur Arnarssynir stilla sér upp fyrir ljósmyndara Morgunblaðsins. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Kristján Jónsson kris@mbl.is Bræður að norðan þjálfa hvor sitt karlaliðið í Reykjavík, hvor í sinni boltaíþróttinni. Hér er um að ræða þá Ásmund og Guðlaug Arnarssyni. Nú er mikilvægt að rétt sé farið með, þ.e.a.

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Bræður að norðan þjálfa hvor sitt karlaliðið í Reykjavík, hvor í sinni boltaíþróttinni. Hér er um að ræða þá Ásmund og Guðlaug Arnarssyni. Nú er mikilvægt að rétt sé farið með, þ.e.a.s að tvö ess séu í eftirnafninu en ekki eitt. Guðlaugur minnist þess að hafa eitt sinn verið með fjölda „missed calls“ þegar hann var að aðstoða við beina sjónvarpsútsendingu frá handboltaleik. Þá var það faðir þeirra að reyna að ná í gegn þar sem Guðlaugur var skrifaður Arnarson í sjónvarpsútsendingunni. Guðlaugur átti sumsé að láta kippa því í liðinn áður en útsendingin myndi renna sitt skeið á enda þó hann hefði öðrum hnöppum að hneppa.

Fundi bræðranna og undirritaðs ber saman í Íþróttahöll Fylkis í Árbænum. Þar er Ásmundur þjálfari karlaliðs félagsins í fótbolta. Guðlaugur sem þjálfar karlalið Fram í handbolta gerir engar athugasemdir við staðsetninguna þar sem hann lék sjálfur handbolta með Fylki um tíma. Svipur er með þeim bræðrum þó þeir séu ef til vill ólíkir ásýndum. Aðallega vegna þess að Guðlaugur er heljarmenni, eða allt að því, enda eru engir meðalmenn fengnir til að standa í hjarta varnarinnar í efstu deild þýska handboltans eins og Guðlaugur gerði um hríð. Þeir segja það vera nokkuð algengt að íþróttaáhugamenn sem vita hverjir þeir eru tengi þá ekki saman sem bræður.

Ásmundur er öllu nettari og í samanburði við yngri bróður sinn virkar hann einfaldlega smávaxinn. Stærðarhlutföllin berast strax í tal og Ásmundur segir sögu af því þegar hann ákvað að leyfa bróður sínum að fljóta með á lokahóf KSÍ. Ásmundur var þá 22 ára en Guðlaugur einungis 16 ára og vantaði því nokkur ár upp á aldurstakmarkið. Guðlaugur fór á undan og gekk rakleiðis í salinn en Ásmundur var hins vegar beðinn um að sýna dyravörðum skilríki. Dyravörðum á Hótel Íslandi fyrir tveimur áratugum sárnar varla þó þessi saga fái hér að fljóta með.

Römm er Húsavíkurtaugin

Þeir bræður eru sestir að í Kópavoginum og börn þeirra æfa íþróttir með Breiðabliki. Báðir þjálfa þeir fyrir Reykjavíkurfélög en eru Húsvíkingar. Málið er ef til vill aðeins flóknara en svo því faðir þeirra, Arnar Steinn Guðlaugsson, er Reykvíkingur og kunnur Framari. Móðir þeirra heitir Bergþóra Ásmundsdóttir og er dóttir Ásmundar Bjarnasonar ólympíufara sem keppti fyrir KR í spretthlaupum. Þeir bræður tengja sig við Húsavík og sú taug er greinilega sterk í þeim. Þeir segja jákvætt að börn þeirra spili í grænu hjá Blikunum sem er jú einnig litur Völsungs.

„Ég fæddist á Húsavík en við fluttum til Reykjavíkur þegar ég var eins árs. Fimm árum síðar fluttum við til Akureyrar og þar fæddist Gulli. Árið 1985 fluttist fjölskyldan aftur til Húsavíkur og eftir það er sleitulaus saga þar. Maður var á flakki á yngri árum en festi rætur á Húsavík. Tengingin var það sterk að eftir tvö ár í Fram spilaði ég ennþá í Völsungstreyjunni innan undir Framtreyjunni og sýndi hana ef ég skoraði,“ sagði Ásmundur og Guðlaugur tók undir þetta. „Ég var á Húsavík til 19 ára aldurs. Ég fer ekki oft til Húsavíkur núorðið en það breytir því ekki að maður er ofboðslega mikill Húsvíkingur í sér.“

Spiluðu saman í báðum greinum

Nóg var um að vera í íþróttalífinu bæði á Akureyri og á Húsavík. Þeir bræður prófuðu margar íþróttagreinar en báðir voru þeir lengst í fótbolta og handbolta. Faðir þeirra spilaði einmitt fyrir Fram í báðum greinum. Þeir völdu þó ekki sömu greinina, því Ásmundur varð fótboltamaður en Guðlaugur handboltamaður. Móðir þeirra er frá Húsavík en lék handbolta með Fram og yngri systir þeirra Elva Björg fór einnig í Fram þegar hún flutti í bæinn en leikur nú handbolta með HK.

„Maður æfði allt en mest handbolta og fótbolta. Ég var talsvert í frjálsum og var einhverra hluta vegna settur fljótlega í kastgreinarnar. Ég prófaði einnig blak, körfubolta og skíði, keppti meira að segja á Andrésar Andar-leikunum. Ég hafði spilað meistaraflokksleiki bæði í fótbolta og handbolta þegar ég var 16 ára,“ sagði Guðlaugur og Ásmundur benti á að þeir hefðu náð því að spila saman meistaraflokksleiki í báðum greinum. „Ég gleymi því aldrei þegar Gulli var settur á vítalínuna undir lok handboltaleiksins sem við spiluðum saman. Kornungur og svolítið stressaður að taka víti og andstæðingarnir fengu innkast,“ sagði Ásmundur og hlær. „Það var nú óþarfi að minnast á þetta,“ sagði Guðlaugur og atvikið rifjast upp fyrir honum sem hann segir hafa verið gegn b-liði Aftureldingar.

Ásmundur kom einnig víða við. „Auðvelt var að prófa margar greinar úti á landi enda stutt að fara. Ég held ég hafi verið á kafi í öllu sem hægt var að taka þátt í. Ég var einnig mest í handbolta og fótbolta en á þó Íslandsmeistaratitil í blaki. Ég var í fjögur ár í meistaraflokki í handbolta áður en ég fór suður og valdi fótboltann,“ sagði Ásmundur og Guðlaugur skýtur inn í: „Það þarf að koma fram að Ási skoraði 16 mörk í meistaraflokksleik fyrir Völsung á móti Gróttu. Vallarstjórinn á Kópavogsvelli, Ómar Stefánsson, mun hafa tekið hann úr umferð.“ Ásmundur glottir og segir handboltaleikina á Húsavík vera minnisstæða því iðulega hafi verið troðfullt í húsinu.

Léku undir stjórn föðurins

Þegar hlaupið er yfir ættartré bræðranna þá er ekki skrítið að fyrir þeim hafi legið að leggja fyrir sig íþróttir. Þjálfunin er einnig þekkt fyrirbæri í fjölskyldunni. „Við fluttum til Akureyrar á sínum tíma vegna þess að pabbi fór að skipta sér af þjálfun hjá Þór, bæði í handbolta og fótbolta,“ útskýrir Ásmundur og Guðlaugur bætir við. „Pabbi þjálfaði í fjöldamörg ár og þjálfaði til að mynda okkur báða á Húsavík. Þar er sterk þjálfaratenging. Pabbi tók við Völsungi í efstu deild í fótboltanum á miðju sumri 1988 og þá lék Ásmundur sína fyrstu meistaraflokksleiki.“

Þeim Ásmundi og Guðlaugi var báðum treyst snemma fyrir meistaraflokksþjálfun. Þeir virðast ekki hafa miklað það fyrir sér.

„Ég held að það sé nokkuð til í því að við höfum byrjað ungir að þjálfa en er það ekki svolítið íslenskt? Fólk byrjar ungt að taka flokka eða í aðstoðarþjálfun. Í handboltanum er töluvert um unga meistaraflokksþjálfara. Einar Andri, Einar Jóns, Heimir Örn og Bjarni Fritz hafa allir þjálfað meistaraflokk sem dæmi en við erum allir á svipuðum aldri,“ sagði Guðlaugur og Ásmundur þjálfaði fyrst meistaraflokk Völsungs.

„Ég var enn að spila þegar ég tók við og var spilandi þjálfari fyrstu tvö árin. Það var nú kaldhæðnislegt að í mínum síðasta leik sem spilandi þjálfari Völsungs þá fótbraut markvörður Fjölnis mig. Það þróaðist þannig að ég spilaði ekki aftur en tók við þjálfun Fjölnis,“ sagði Ásmundur en þeir eru sammála um að það skipti máli hvernig liðin eru samansett ef ungur þjálfari á að taka við.

„Menn þurfa að vega og meta aðstæður hverju sinni. Ég hef nú þjálfað meistaraflokk sleitulaust í 12-13 ár. Maður var auðvitað mun nær leikmönnum í byrjun en nálgunin er önnur í dag hjá manni með auknum þroska,“ sagði Ásmundur og Guðlaugur bætti við: „Ég held að þetta fari rosalega mikið eftir blöndunni sem er í liðinu á þeim tíma sem ungur þjálfari tekur við. Ég held að hvorugur okkar hafi lent í því að þjálfa nána vini eða slíkt. Þegar ég tók við Fram þá var staðan þannig að kynslóðaskipti áttu sér stað og ég tók við mjög ungu liði. Auðveldara var fyrir leikmenn að taka á móti mér heldur en ef þeir hefðu verið í kringum þrítugt.“

Þjálfuðu lengi yngri flokka

Þeir bræður voru vissulega ungir þegar þeir fengu tækifæri sem meistaraflokksþjálfarar en höfðu þó nokkuð langa reynslu af yngri flokka þjálfun. „Það gerðist af sjálfu sér í mínu tilfelli. Fyrsta þjálfarastarfið mitt var þegar ég var í 1. bekk í Menntaskólanum á Akureyri. Þá spilaði ég handbolta með Þór og þjálfaði 5. flokk karla ásamt Rúnari Sigtryggs (núverandi þjálfari Aue). Einnig fór ég fljótlega að þjálfa yngri flokka í fótbolta. Til dæmis þjálfaði ég Pálma Rafn Pálmason og fleiri á hans aldri á Húsavík. Einhvern veginn vatt þetta upp á sig. Þegar ég fór í Fram þá þjálfaði ég 6. flokk samhliða því að spila,“ sagði Ásmundur og Guðlaugur hefur svipaða sögu að segja.

„Ég byrjaði fyrst sem aðstoðarmaður hjá Ása en fór að þjálfa í handbolta á Húsavík þegar ég var 17 ára. Þjálfaði þá Baldur Aðalsteinsson fótboltamann, Magnús Halldórs hjá Kjarnanum og fleiri góða Húsvíkinga. Þegar ég kom suður þá minnir mig að ég hafi þjálfað alla yngri flokka á einhverjum tíma. Eins og hjá Ása þá gerðist þetta bara. Sem leikmaður var ég þó oft í ýmsum pælingum og punktaði ýmislegt hjá mér. Kannski stefndi maður að þessu leynt og ljóst.“

Ræða reglulega um starfið

Bræðurnir segjast fylgjast vel með gangi mála hjá systkinum sínum í boltanum en ekki sé alltaf tími til að sækja leikina. Spurðir um hvort þeir leiti ekki mikið hvor til annars varðandi pælingar um þjálfunina þá segjast þeir varla ræða saman án þess að þjálfunina beri á góma. „Ég leita líklega oftar til hans en hann til mín varðandi almenn ráð enda býr hann yfir meiri reynslu. Við ræðum margoft um þjálffræðina og nálgunina. Þegar við hittumst þá ræðum við alltaf eitthvað um þjálfunina og íþróttir. Það er klárlega jákvætt,“ sagði Guðlaugur og Ásmundur sagði margt sameiginlegt vera í þjálfun boltagreinanna.

„Við getum borið eitt og annað hvor undir annan þó áherslurnar séu ekki nákvæmlega eins í þessum greinum. Við ræðum því ekki um taktík en það er svo margt annað sem er eins. Starfið snýst mikið um samskipti og uppbyggingu.“

Einhver áhrif frá öllum þjálfurum

Báðir segjast þeir hafa leikið undir stjórn margra góðra þjálfara og nota eitthvað frá þeim öllum í störfum sínum. „Ég held að maður taki part frá öllum þeim sem hafa þjálfað mann. Maður á brot og brot frá velflestum. Faðir okkar þjálfaði okkur töluvert og sú tenging er sterk. Ég get nefnt Sigurð Lárusson sem þjálfaði mig í mörg ár og hafði heilmikil áhrif á mig. Ásgeir Elíasson er sterkur áhrifavaldur og fór rólegu leiðina að hlutunum. Einnig er Guðmundur Ólafsson minnisstæður þegar ég var að byrja í meistaraflokki,“ sagði Ásmundur.

„Maður kemst ekki hjá því að nefna pabba og ég hef tekið ýmislegt frá honum. Hann er fyrsti maður sem maður hringir í eftir leiki. Heimir Ríkarðsson mótaði mig mest, til dæmis varðandi mannlegu hliðina. Ég var ekki lengi hjá Alfreð Gíslasyni en áhrifin eru ofboðslega mikil. Anatoly Fedukin breytti miklu hjá Fram á sínum tíma. Einnig vil ég minnast á Atla Hilmarsson. Maður reynir að taka styrkleikana frá hverjum og einum en þessir höfðu mest áhrif á mig sem þjálfara,“ sagði Guðlaugur.

Ásmundur gat spilað allar stöður

„Fyrst og fremst er Ási mjög metnaðarfullur. Hann er einnig ákveðinn og duglegur. Hann er mikil fyrirmynd og snemma vildi ég verða eins og hann. Það dró mig áfram að reyna að ná honum. Hann var alltaf umhyggjusamur og passasamur gagnvart litla bróður sínum. Ég fékk alltaf að hanga utan í honum sem sýnir ágætlega persónuleikann.

Sem leikmaður var hann mjög vinnusamur og fjölhæfur. Ég held að hann hafi spilað allar stöður á vellinum fyrir utan markið. Sem þjálfari er hann ákveðinn en mjúk útgáfa af þjálfara myndi ég halda. Hann vinnur hlutina á rólegu nótunum. Hann er skipulagður og veit hvert hann vill fara með liðið. Því nær hann fram með því að kenna mönnum og hann er mjög vel liðinn,“ sagði Guðlaugur þegar blaðamaður bað hann um að lýsa Ásmundi. Guðlaugur lætur það fylgja með að þrátt fyrir að Ásmundur sé kunnur fyrir að vera rólegur og yfirvegaður, þá sé hann engu að síður með á ferilskránni að hann hafi eitt sinn fengið rautt spjald í leik á Dalvík fyrir að hrinda dómara.

Guðlaugi var ráðlagt að hætta

„Ég get lýst Gulla sem gríðarlega vinnusömum og í áttina að því að vera þrjóskur að því leyti að hann vill leggja allt í sölurnar. Hann heldur áfram þó á móti blási og þegar staðan er erfið þá leggur hann enn meira á sig. Ég hef margoft litið til baka og spáð í hvers vegna í ósköpunum hann hafi ekki verið löngu hættur sem leikmaður.

Hann var 16 ára þegar mikils metinn bæklunarlæknir ráðlagði honum að hætta vegna þess að hann þurfti ítrekað að fara í hnéaðgerð. Hann vann sig í gegnum það með ótrúlegri eljusemi. Einnig lenti hann í mótlæti þar sem hann komst lítið að í sterku Fram-liði sem var að berjast um titla. Margir hefðu hætt eða farið annað. Ef hann var ekki með á æfingunni þá fór hann og lyfti lóðum. Árangurinn var eftir því og hann endaði sem atvinnumaður hjá Gummersbach. Þarna skilaði vinnusemin sér og sýnir hversu langt er hægt að ná ef persónuleikinn er sterkur. Upphafið á þjálfaraferlinum var heldur ekki auðvelt en hann vann sig í gegnum það mótlæti,“ sagði Ásmundur þegar blaðamaður bað hann um að lýsa Guðlaugi.

Ásmundur Arnarsson
» Fæddur 1972
» Þjálfari karlaliðs Fylkis í fótbolta.
» Menntaður sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands.
» Maki: Ísabella María Markan, fædd 1976. Eru þau búsett í Kópavogi ásamt þremur börnum sem öll eru í fótbolta í Breiðabliki: Hörður Máni (1999) í 3.fl. Bergþóra Sól (2003) í 5.fl. Markús Steinn (2008) í 7.fl.
» Lék fótbolta í meistaraflokki með Völsungi, Þór, Fram og Breiðabliki.
» Hefur þjálfað meistaraflokka í fótbolta hjá Völsungi, Fjölni og Fylki.