Athygli Indversk kona skoðar símann sinn. Auglýsingar í farsímum eru tuga milljarða dala virði.
Athygli Indversk kona skoðar símann sinn. Auglýsingar í farsímum eru tuga milljarða dala virði. — AFP
Fjöldi fjarskiptafyrirtækja undirbýr að loka fyrir birtingu auglýsinga í farsímum nema þau fái hlutdeild í auglýsingatekjunum.

Fjöldi fjarskiptafyrirtækja undirbýr að loka fyrir birtingu auglýsinga í farsímum nema þau fái hlutdeild í auglýsingatekjunum.

Financial Times segir að með hugbúnaði sem þróaður hefur verið af ísraelska sprotafyrirtækinu Shine sé hægt að koma í veg fyrir að snjallsímar sæki auglýsingar sem birtar eru á vefsíðum og í snjallsímaforritum. Tæknin stöðvar hins vegar ekki auglýsingar sem birtast í fréttalistum (e. feed) eins og er raunin með auglýsingar á Facebook og Twitter.

Auglýsingar sem birtast í gegnum snjallsíma eru sá hluti netauglýsingamarkaðarins sem hefur vaxið hvað hraðast á undanförnum árum. Er áætlað að á þessu ári verði 69 milljörðum dala varið í kaup á auglýsingum til birtingar í snjallsímum. Hefur þessi upphæð þrefaldast á þremur árum.

Hefur FT fengið það staðfest hjá fjarskiptafyrirtækjum í Evrópu að til standi að loka á auglýsingar strax á þessu ári.

Knúnir að samningaborðinu?

Til að byrja með geti notendur valið að láta loka fyrir auglýsingabirtingar en einnig sé inni í myndinni að loka alfarið fyrir auglýsingar frá aðilum á borð við Google nema auglýsingamiðlunin deili hluta af tekjum sínum með símafyrirtækinu.

Skiptar skoðanir eru um hvort heimilt sé að loka fyrir auglýsingar með þessum hætti. Franska netveitan Free reyndi árið 2013 að bjóða upp á netþjónustu þar sem lokað var á auglýsingar óumbeðið. Á innan við viku knúðu frönsk stjórnvöld fyrirtækið til að opna aftur fyrir auglýsingarnar.

Á móti kemur að auglýsingar geta verið að nota mikið af því gagnamagni sem farsímanotandinn borgar fyrir, í sumum tilvikum allt að 10-50% af gagnaniðurhali símans.

ai@mbl.is